Iðn- og verkmenntun

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 12:29:00 (4004)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir við málið. Ég sakna þess vissulega að ráðherra skuli ekki vera viðstaddur, ég hefði haft áhuga á því að heyra aðeins í hæstv. menntmrh. um þetta mál. Að vísu hef ég lesið grannt það sem hæstv. núv. menntmrh. hefur skrifað og sagt um málið og ég fagna því. Mér finnst að vænta megi skilnings hans á mikilvægi þessa máls. En það er nú svo að við sitjum hér þessa dagana og tölum klukkutímum saman og jafnvel dögum saman án þess að ráðherrar komi í húsið eða sitji hér

í stólnum sínum. Virðulegi forseti, það er út af fyrir sig umhugsunarefni fyrir þinghaldið.
    Hv. 5. þm. Vesturl. vék að atriði sem ég vil taka undir og reyndi í máli mínu að hnykkja aðeins á. Og vil ég útskýra það aðeins betur. Ég er honum sammála og tel það farsælustu leiðina að ljúka bóklegu og verklegu námi og fara síðan í starfsnám hjá meistara. En það þarf að hindra það að þegar ungt fólk, sem stundar iðnnám í verkmenntaskólum, hefur lokið bóklegu námi og eytt drjúgum tíma í það, að það standi þá ekki ráðalaust eða eins og ég orða það í blindgötum kerfisins, vegna þess að það kemst ekki á námssamning hjá meistara. Það er meingallað kerfi sem við þurfum að sníða af. Þar mun margur efnilegur iðnaðarmaðurinn gefast upp á að bíða og geta lokið námi. Þess vegna varpa ég fram þeirri hugmynd að verkmenntaskólarnir geri samning við iðnfyrirtækin og iðnmeistarana á viðkomandi svæði þannig að þegar ungt fólk vill ganga til náms í ákveðinni iðngrein í bóknámsskólanum sé því ljóst í upphafi að leiðin til námsins sé greið allt til enda, þ.e. verkmenntaskólarnir séu búnir að gera samninga við iðnmeistarana um að taka við nemendum svo þeir geti lokið námi. Ég tel þetta mjög brýnt. Ef þetta er ekki hægt í öllum skólum þá verða skólarnir að hafa með sér samstarf og samvinnu um þetta þannig að nemendunum sé þetta ætíð ljóst.
    Ég vil einnig benda á það sem er mjög mikilsvert í þessu máli og á ekki bara við iðn- og verkmenntun í landinu en það er að skilningur aukist á því að stórauka þarf fjármagn til þess að efla námsráðgjöf í landinu. Það er örugglega eitt af því sem við höfum vanrækt. Auka þarf námsráðgjöfina þannig að það takist í tíma að hjálpa og leiðbeina nemendum til þess að velja þá braut sem hverjum og einum liggur næst. Ég vona að sú nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál muni taka á því.
    Ég vil einnig segja það sem fyrir mér vakir og hv. 5. þm. Vesturl. vék að í sambandi við meistaraskólana sem menn þurfa að ganga í gegnum til þess að öðlast meistararéttindi. Við vitum að þegar iðnaðarmenn eru komnir að því að ljúka námi og fara í meistaraskólann eða ljúka námi þar, eru þeir í flestum tilfellum allfullorðnir og e.t.v. komnir með fjölskyldu. Þá er það nokkurt átak að þurfa að snúa af leið og stíga alllangt skref til baka til náms. Þess vegna legg ég áherslu á að þeir sem fara í meistaraskólann séu það vel í stakk búnir að leiðin úr meistaraskólanum verði hverjum manni greið til framhaldsnáms og þá á ég við tækninám, að Tækniskólinn eigi að vera þeim opinn, að menn þurfi ekki að stíga skref til baka ef þeir taka þá ákvörðun að halda áfram námi og ljúka tækninámi frekar en að halda áfram í sinni hefðbundnu iðn. Ég fullyrði að sá starfskraftur, sem hefur lokið iðnnámi og síðan tækninámi hvort heldur í mannvirkjagreinunum, járniðnaði eða einhverju öðru, er á margan hátt miklu verðmætari en sá sem fer í gegnum háskólann og leitar sér þannig menntunar, er ég þó ekki að gera lítið úr þeim sem fara þá leið. Þeir eru á margan hátt mjög ákjósanlegir í atvinnulífi landsmanna.
    Ég legg ríka áherslu á að það verði skoðað af mikilli kostgæfni á hvern hátt við getum séð til þess að menn þurfi ekki að stíga til baka í námi þegar þeir eru komnir í meistaraskóla og ákveða þá að fara í tækninám.
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir og vona svo sannarlega að málið fái greiða leið í gegnum þingið.