Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 12:54:00 (4007)


     Guðmundur Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. þessarar góðu þáltill. fyrir framtakið. Ég tel að um sé að ræða ákaflega þarft verk eins og reyndar síðasti hv. ræðumaður benti mjög ágætlega á. Það er auðvitað svo að hérna er kannski fyrst og fremst um byggðamál að ræða og veitir ekki af að vinna vel að þeim málum. En ég held samt sem áður, þó að ég vilji að sjálfsögðu alls ekki gera lítið úr þessu máli sem byggðamáli, að þá megi reyndar sjá ýmsa aðra fleti á því og ætla ég að víkja aðeins að því nánar. Það kemur reyndar fram í tillögunni að lögð verði áhersla á að skapa skilyrði og koma upp aðstöðu á landsbyggðinni fyrir þessa starfsemi. Hér er auðvitað ekki bara átt við að upp rísi byggingar og tól og tæki, heldur verða ríkisstofnanir eins og reyndar öll önnur starfsemi að búa við ákveðin skilyrði og ákveðið umhverfi. Ég held reyndar að það sé svo að aðstæður víða um landsbyggðina séu einmitt þannig að ýmis starfsemi, reyndar ekki bara opinber heldur einnig önnur starfsemi, sé kannski jafnvel betur sett þar en á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum tilvikum a.m.k. alveg jafn vel sett þar. Ég ætla aðeins að víkja að því á eftir hvað ég á við með þessu, en fyrst langar mig til að gera að umræðuefni ýmis rök sem hafa verið færð gegn því að opinber starfsemi sé flutt út á landi og staðsett þar.

    Í fyrsta lagi tala menn um fjarlægðina. Það er auðvitað rétt að það er í öllum tilvikum fjarlægð ef menn ætla að fara út á land en það er auðvitað alveg jafnrétt að það er álíka langt að fara til baka til höfuðborgarinnar og ég held að menn geri í rauninni allt of mikið úr þessum þætti. Hann átti kannski rétt á sér áður fyrr en það er löngu liðin tíð. Það á t.d. alls ekkert við lengur að mæla fjarlægð í km. Það er alveg eins eðlilegt að mæla hana í mínútum eða með einhverjum öðrum hætti og hér innan lands er hún ekki mæld lengur í dagleiðum. Því valda auðvitað bættar samgöngur og það skiptir verulegu máli í þessu sambandi og höfuðmáli. Ég get sem dæmi nefnt að það tekur okkur t.d., sem búum á Akureyri, rétt rúman klukkutíma að komast til Reykjavíkur þar með talin bið á flugvöllum og annað þess háttar. Það tekur í rauninni ekkert mikið lengri tíma en það tekur ýmsa Reykvíkinga að ferðast ofan úr Breiðholti, úr efstu byggðum og vestur í bæ. Fjarlægð og samgöngur eru orðnar með svo allt öðrum hætti en var og ég held að margur höfuðborgarbúinn átti sig ekki á hvað hér er um að ræða breytta hluti. Ég hef tekið eftir því að mönnum þykir afar einkennilegt að lagt sé af stað í slíkt ferðalag eins og frá Akureyri til Reyjavíkur í bíl jafnvel þegar búið er að horfa á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu. En þetta er bara orðið svona. Þetta er tiltölulega lítið mál og ekkert til að gera mál úr.
    Það er talað um að það sé aukinn kostnaður við að flytja ríkisstofnanir og ríkisstarfsemi út á land. Það er auðvitað alveg rétt að það er dýrt eða a.m.k. fylgir því kostnaður að flytja starfsemina út á land. En það eru í rauninni ekki gild rök einfaldlega vegna þess að við ætlum okkur að búa sem víðast í þessu landi og við verðum auðvitað að taka afleiðingunum af því. Það yrði líka mjög dýrt, hygg ég, ef við hópuðumst öll hér á einn blett á landinu þannig að þetta er bara eðlilegur kostnaður við að búa í landinu og geta engan veginn talist rök í þessu máli svona almennt talað.
    Í fjórða lagi tala margir um að fólk vilji ekki fara, sérfræðingarnir, starfsfólkið vill ekki fara út á land og ég ætla ekkert að efast um að í einhverjum tilvikum er það svo, alveg á sama hátt og það eru ýmis okkar sem búum úti á landi sem viljum kannski helst ekkert flytja til höfuðborgarinnar. Það er auðvitað bara eðlilegt og einstaklingsbundið. En ég held að það sé hins vegar síður en svo algilt og mér vitanlega hefur ekki verið gerð nein sérstök könnun á því hver raunveruleg afstaða fólks er og þaðan af síður látið á það reyna og meðan svo er ekki þá vil ég a.m.k. ekki taka þau rök til greina. En allt um það.
    Mig langar til að fjalla nánar um það sem ég nefndi áðan að ýmis starfsemi er a.m.k. jafn vel og í mörgum tilvikum betur komin úti á landi og mig langar fyrst til að nefna dæmi um Skógrækt ríkisins sem var flutt á síðasta kjörtímabili austur á Hallormsstað. Ég sé ekki betur en sú starfsemi blómgist og blessist og trén vaxi. Þrátt fyrir ýmsar hrakspár sem þessum flutningum fylgdu þá sé ég ekki betur en það hafi tekist prýðilega vel. Ég held að Skógrækt ríkisins sé að mörgu leyti betur komin í Fljótsdalshéraði en hér vestur í bæ þó að ég vilji síst af öllu gera lítið úr Vesturbænum. Þarna held ég að sé gott dæmi um það að hrakspár rættust ekki en þvert á móti tókst mjög vel til með flutninginn.
    Mig langar til að nefna þá Eyjafjarðarsvæðið næst. Ég held að það bjóði núna upp á ýmsa kosti sem eru mjög álitlegir fyrir ýmsa starfsemi af opinberu tagi. Þarna er í fyrsta lagi allnokkurt fjölmenni. Í Eyjafirðinum sjálfum búa rúmlega 20 þúsund manns og að Eyjafirði liggja auk þess allfjölmenn héruð. Ég held að til að mynda stofnanir í sjávarútvegi séu mjög vel staðsettar á Eyjafjarðarsvæðinu, t.d. á Akureyri. Það hefur auðvitað verið fjallað um það fyrr í dag hvers vegna svo er. Þarna er einfaldlega mjög alhliða starfsemi í sjávarútvegi, nánast á öllum sviðum, og þarna er núna verið að byggja upp fræðslustofnanir, kennslustofnanir, rannsóknastofnanir og þróunarstofnanir og við bætist síðan mjög blómlegt atvinnulíf á þessu sviði.
    Mig langar líka til að nefna starfsemi á sviði matvælaiðnaðar. Á Akureyri er mjög mikill matvælaiðnaður af mjög mörgu tagi. Áðan var minnst á skólabæinn Akureyri. Þar er mjög alhliða framboð á menntun og verið að efla þá starfsemi mjög þannig að opinber starfsemi á þessum sviðum hlyti á þessu svæði það faglega umhverfi sem henni hæfir. Ég ætla ekki að gera það en það má færa rök fyrir því að þannig umhverfi er kannski fremur þverrandi hér á höfuðborgarsvæðinu heldur en hitt.
    Tími minn er því miður á þrotum en ég hafði hugsað mér að nefna fleiri málaflokka eins og ferðamál, umhverfismál, heilbrigðis- og menntamál og fleira en ég bendi á að lokum að það sem þarf í þessu máli og það sem þessi tillaga miðar að er að það þarf að breyta hugsunarhættinum og hitt held ég að komi af sjálfu sér.