Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:37:00 (4014)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um átak í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar. Tillagan er á þskj. 153 og flm. ásamt mér eru hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur Hermannsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera átak í atvinnumálum á Suðurnesjum með sérstöku tilliti til mikils atvinnuleysis kvenna þar.``
    Með tillögunni fylgir stutt greinargerð sem ég ætla að leysa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum hefur verið mjög alvarlegt á undanförnum missirum. Skráð atvinnuleysi kvenna þar var í október 8,4%. Ætla má að þar eins og annars staðar sé auk þess töluvert dulið atvinnuleysi. Atvinnuleysi á landinu öllu var á sama tíma að meðaltali 1,2% og atvinnuleysi karla á Suðurnesjum 1,7%.
    Orsakir mikils og langvarandi atvinnuleysis kvenna á Suðurnesjum eru margvíslegar. Samdráttur hefur verið meiri í fiskvinnslu á Suðurnesjum en annars staðar, m.a. vegna þess að kvóti hefur flust þaðan í aðra landsfjórðunga.
    Á árunum 1981 til 1989 varð verulegur samdráttur í fiskvinnslu á Suðurnesjum en þó hefur keyrt um þverbak á undanförnum tveimur árum og við blasir hrun í þessari atvinnugrein. Árið 1981 voru 15% starfa í Keflavík í fiskvinnslu en 8% 1989. Í Njarðvík fækkaði störfum í fiskvinnslu á sama tíma úr 13% í 6%.
    Forsvarsmenn sveitarfélaga á Suðurnesjum og samtaka þeirra hafa bent á ýmis úrræði í atvinnumálum kvenna þar. Aðrir aðilar hafa einnig bent á nýja atvinnumöguleika. Flutningsmenn tillögunnar telja að atvinnuástand meðal kvenna á Suðurnesjum sé svo alvarlegt að ástæða sé til að gera sérstakt átak til að styðja sveitarfélög og einstaklinga í því að fjölga störfum fyrir konur þar.``
    Síðan þessi greinargerð var skrifuð og tillagan lögð fram í nóvember, hefur ástandið í atvinnumálum kvenna á Suðurnesjum því miður ekki batnað heldur versnað. Atvinnuleysi þar var í kringum 12% eða 11,8% í janúar. Atvinnuleysi karla fer einnig vaxandi þar. Á sama tíma hefur atvinnuleysið á landinu einnig vaxið allnokkuð og þrengist nú enn á vinnumarkaðinum. En þessi tala yfir atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum sker sig úr meðal allra talna um atvinnuleysi í landinu.
    Atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni er orðið svo mikið að full ástæða er til að athuga það mál í heild, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, en það var 7,3% í janúarmánuði. Ekki er hægt að skýra það atvinnuleysi nema að hluta til með því að fiskvinnsla lá niðri meiri hluta mánaðarins.
    Sömu sögu er að segja um Suðurnesin. Því miður er ekki um tímabundna niðursveiflu að ræða í fiskvinnslu heldur langvarandi alvarlegt ástand. Við því verður að bregðast, til þess er tillagan flutt.
    Eins og sést á fylgiskjölum sem birt eru með þáltill. skortir ekki að hugmyndir hafi komið fram um úrræði í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar hafa bæði opinberir aðilar, einkum þó Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, lagt hönd á plóginn og síðan hafa einstaklingar komið með áhugaverðar hugmyndir. En það sem hefur skort á er vilji stjórnvalda og e.t.v. ákveðin biðstaða sem myndast hefur við það að einatt hefur verið beðið eftir að einhver önnur úrræði leystu atvinnumál á Suðurnesjum. Þar á ég við að um langan tíma hefur atvinna á Suðurnesjum byggst ótrúlega mikið á nærveru hersins og jafnvel síðustu árin, þegar ljóst var að um samdrátt yrði að ræða þar, hefur ekki verið brugðist við sem skyldi. Þetta atvinnuleysi bitnar mjög á konum. Auðvitað er það mjög jákvæð þróun að hernaðarumsvif skuli vera að minnka út um allan heim. Þetta er sú þróun sem við kvennalistakonur höfum svo sannarlega viljað sjá. Við höfum jafnframt bent á að það væri óeðlilegt að atvinnumál á Suðurnesjum byggðust svona mikið á nærveru erlends

hers. Við höfum hvatt til þess að farið yrði út í uppbyggingu til að mæta þeim samdrætti sem við vildum sjá og er nú að verða, þó af öðrum völdum sé en þrýstingi okkar.
    Sem fylgiskjal með þessari þáltill. eru m.a. umræður sem urðu á Alþingi vegna fyrirspurnar sl. vor. Sú fyrirspurn varðaði áætlanir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum á Suðurnesjum til að mæta samdrætti í umsvifum Bandaríkjahers og áætlanir stjórnvalda um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.
    Skemmst er frá því að segja að einstakir þingmenn, einkum þingmenn Reykjaneskjördæmis, blönduðu sér í umræðuna og fannst mér því ástæða til að birta umræðuna í þingskjalinu. Af hálfu stjórnvalda kom því miður lítið annað fram um atvinnumál á Suðurnesjum en það úrræði, sem við höfum oftast heyrt að undanförnu, að þar eigi að rísa álver. Við vitum hvernig það mál stendur í augnablikinu og getum ekki spáð um hver framtíðin verður. Ég hef litla trú á því að af byggingu álvers verði og ég harma það ekki. Ég harma það hins vegar mjög að á meðan skuli tíminn ekki hafa verið notaður til þess að bregðast við því ástandi sem við höfum verið að sjá vísbendingar um og núna er orðið mjög alvarlegt og kemur engum á óvart. Þar er ég enn og aftur að tala um atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum.
    Engin ein ástæða heldur margar valda atvinnuleysinu þar. Samdrátturinn á Keflavíkurvelli er ein ástæðan. Önnur ástæðan er sú að menn hafa bundið falskar vonir við blómlegt atvinnulíf í kjölfar álvers --- nokkuð sem ég tel að hafi allan tímann verið ranghugmynd. En vissulega hefur verið alið á fölskum vonum fólksins.
    Mikilvægasta ástæðan er þó væntanlega samdrátturinn sem hefur verið í fiskvinnslu á Suðurnesjum. Þar hefur störfum fækkað verulega, eins og ég gat um í greinargerðinni. Og ef litið er til lengri tíma má sjá enn hærri tölur þar um.
    E.t.v. er ástæða til að taka dæmi. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja hefur safnað saman afskaplega góðum gögnum um horfur og spáð fyrir um þá þróun sem orðið hefur. Á sama tíma og íbúafjöldi á Suðurnesjum hefur vaxið verulega eða alla vega úr 14.000, raunar nær 13.000, í 15.000 á síðasta áratug, hefur störfum í fiskvinnslu fækkað á þessu svæði úr 1.237 í 1.008. Í prósentum talið merkir þetta úr 20% í 14%. Þetta er þó aðeins seinasti áratugur en í athugasemdum sem ég fékk með upplýsingum frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það hefur orðið verulegur samdráttur í fiskvinnslunni frá 1981 til 1989 en hrunið hefur orðið síðan, aðallega árið 1991. Verst hefur samdrátturinn komið við Keflavík og Njarðvík.``
    Það er beinlínis talað um hrun hjá þeim aðilum sem gerst hafa fylgst með atvinnumálum á Suðurnesjum. Þetta hrun í fiskvinnslu er auðvitað komið til vegna kvótatilflutnings og ég minni enn og aftur á að e.t.v. væri ástandið öðruvísi ef byggðakvóti sá sem Kvennalistinn mælti fyrir um hefði verið tekinn upp á sínum tíma. Það var því miður ekki gert og nú stöndum við frammi fyrir því sem orðið er. Við munum ekki breyta þróuninni en getum e.t.v. haft áhrif á hana.
    Vegna hruns í fiskvinnslunni og annarra atriða sem hafa valdið samdrætti í atvinnumálum kvenna á Suðurnesjum, er í rauninni svo komið að ekki dugar að grípa til hinna almennu aðgerða sem stjórnvöld hafa einatt boðað og hafnað sértækum aðgerðum. Það er einfaldlega ekki hægt, en sú mun vera fyrirætlun stjórnvalda ef þau sjá ekki að sér.
    Í frétt á Bylgjunni þann 23. nóv. sl. kom eftirfarandi fram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Davíð Oddsson forsrh. sagði eftir fundinn [hér er verið að skýra frá fundi um atvinnuleysi á Suðurnesjum] þegar hann var inntur eftir því hvort yfirvöld hefðu í hyggju að grípa til aðgerða að skýrt hafi komið fram að tímar hinna sértæku aðgerða væru liðnir. Vilji sveitarstjórnarmanna væri að gripið yrði til almennra aðgerða. Að sögn Davíðs skýrðu ráðherrarnir frá helstu verkefnum sem eru á döfinni hjá yfirvöldum varðandi atvinnumálin en hann vildi ekki skýra þau nánar í einstökum atriðum.``
    Eftir því sem ég hef komist næst er þarna ekki um eitt eða neitt að ræða. Sem betur fer hafa þó verið umræður um að eitthvað þurfi að gera en þær hugmyndir hafa yfirleitt verið mjög í loftinu, t.d. hugmyndin um fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Sú hugmynd er mjög skammt komin og því miður hafa slík fríiðnaðarsvæði ekki skilað því sem ætlað var hjá þeim þjóðum sem gripið hafa þennan valkost í atvinnumálum.
    Þetta er einfaldlega of lítið og þegar ástand á einu fjölmennu svæði er orðið slíkt að atvinnuleysi kvenna mælist mánuðum saman í tveggja stafa tölum er auðvitað kominn tími til sértækra aðgerða og full ástæða til. Þess vegna er lagt til að þetta átak í atvinnumálum á Suðurnesjum verði gert. Það er vilji okkar flutningsmanna að gripið verði snarlega í taumana því þarna er mjög alvarlegt ástand.
    Eitt af því sem ég vil benda á í þessu sambandi er að nú er fyrirhugaður töluverður samdráttur í opinberri þjónustu á Suðurnesjum sem og annars staðar. Á fundi sem ég var á nýlega með forsvarsmönnum Heilsugæslu Suðurnesja og Sjúkrahússins í Keflavík kom fram að þær sparnaðaraðgerðir sem þeim er gert að grípa til á því svæði mun tákna vaxandi atvinnuleysi meðal kvenna sérstaklega á Suðurnesjum í sumar. Deildum verður lokað, dregið verður úr þjónustu og störfum fækkað. Þetta blasir við út um allt land og eins og ég gat um áðan í ræðu minni vegna annars máls merkir þetta náttúrlega að þjónusta við almenning er skert. Þetta er eitt af því sem t.d. væri hægt að gera mjög fljótt. Það væri að minnka niðurskurðinn vegna atvinnuástandsins og teldi ég það alveg sjálfsagt.
    Auk þess er full ástæða til þess að líta á þær fjölmörgu góðu hugmyndir sem fram hafa komið á undanförnum árum, ekki síst í sambandi við ferðaþjónustu og nýtingu Bláa lónsins til uppbyggingar sérhæfðrar ferðaþjónustu og jafnvel sölu á heilbrigðisþjónustu. Þetta er kostur sem er fyllilega lítandi á og eins og ferðaþjónusta skapar hann atvinnu og þar að auki gjaldeyri. En ég ítreka að það verður að grípa fljótt til þessara aðgerða.
    Að lokinni þessari umræðu vænti ég þess að till. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.