Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:10:00 (4018)


     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og vænta mátti voru söguskýringar hv. þm. Finns Ingólfssonar í takt við það sem kemur gjarnan úr framsóknarherbúðunum. Ég vænti þess að hann eins og vonandi flestir, jafnvel allir hv. þm., hafi horft á hv. þm. Steingrím Hermannsson í sjónvarpinu í gærkvöld. Þar kröfðu fréttamenn hann skýringa á því hvort hann teldi í fyrsta lagi að stjórnarstefna flokks hans hefði verið röng og reyndar það sem ég tók sérstaklega eftir, hann var inntur eftir því hvernig Framsfl. hefði brugðist við vandanum í dag. Ég er kannski tregur, alla vega fékk ég ekki þau svör sem gerðu mér það ljóst hvernig hv. þm. Steingrímur Hermannsson og flokkur hans, Framsfl., hefðu brugðist við því ástandi sem er í dag. Ég fer þess vegna fram á það við einhvern af hv. þm. Framsfl. að þeir upplýsi mig og aðra hv. þm. um það hvernig þeir hefðu brugðist við þessu. Það skiptir auðvitað miklu máli þegar við erum að fjalla um jafnalvarlega hluti og vaxandi atvinnuleysi, fjöldaatvinnuleysi, þá skiptir auðvitað miklu máli að fá allar hugmyndirnar upp á borðið. Fá upp á borðið lausnirnar sem mundu leysa vandann. Þess vegna ítreka ég það að ég vil gjarnan fá að sjá hvað það er sem menn mundu gera í dag, hvaða önnur ráð en hún hafði, sú getulausa ríkisstjórn sem hv. þm. Finnur Ingólfsson var að segja frá hér áðan.
    Hann sagði ýmislegt fleira. Hann minnti m.a. á að í lok ríkisstjórnarsamstarfs, sem Framsfl. átti að aðild að, stofnaði jafnvel til, ríkisstjórnar sem fór frá völdum 1983, hefði tekist að koma verðbólgunni upp í meiri hæðir en dæmi eru til hér á landi og þarf væntanlega að fara til Suður-Ameríku til að finna samjöfnuð nema hægt væri að finna hann í nýfrjálsum ríkjum Austur-Evrópu í dag. ( Gripið fram í: Var ekki sú ríkisstjórn undir forsæti sjálfstæðismanns?) Sú ríkisstjórn var undir forsæti Sjálfstfl., það er rétt virðulegi þingmaður. ( Gripið fram í: Mér finnst sjálfsagt að kenna Framsfl. um.) Ég held hins vegar að það sé alveg nauðsynlegt fyrir aðra sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn en þann hluta Sjálfstfl. sem studdi hana, bæði framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn að muna eftir því að þeir áttu aðild að þessu. En hv. þm. Finnur Ingólfsson rifjaði upp að ýmislegt sem ekki var til staðar árið 1983 höfum við í dag, t.d. aukinn afla á ýmsum sviðum. Þess vegna vekur það mér, fávísum manni, enn frekar spurningar um það hvernig stendur á því að svona er fyrir okkur komið í dag. Er það einfaldlega eitthvað sem hefur gerst frá því 30. apríl 1990? ( StG: Já, það er málið.) ( Gripið fram í: Það er málið.) Þá ítreka ég enn og aftur, hv. þm.: Nú segið þið okkur hér, og þjóðinni þá væntanlega um leið, hvað er það sem þið hefðuð gert og getað gert sem hefði komið í veg fyrir það? Hvar eru þau fleiri þúsund störf sem vantar í dag? ( Gripið fram í: Þau voru til í vor.) Hvernig hefðuð þið viðhaldið þeim?
    Við höfum heyrt ýmsa spámenn tala um að vaxtastigið hafi sett allt úr böndunum. Þess vegna tók ég sérstaklega eftir því í fréttum í gærkvöld þegar rætt var við einn af bankastjórnum Landsbankans, Halldór Guðbjarnason, sem fullyrti að það væri ekki vaxtastigið hér á landi sem hefði sett allt úr böndum, vaxtastigið hér væri undir því sem væri í nágrannalöndunum. ( Gripið fram í: Trúir þú því?) Það er spurning hvort ég á að trúa því. Ég ætla að leggja það í ykkar dóm hvort þið trúið því. Eða hafa mennirnir, sem hafa sagt okkur að það væri vaxtahækkun síðustu mánaða sem sett hefði allt úr skorðum, verið að skrökva að okkur? Það hafa sem sagt vaknað býsna margar spurningar um þetta.
    En ég ítreka enn og aftur að mér er meir í mun að fá lausnir sem geta leitt til þess að við snúum við þeirri þróun sem við horfum upp á í dag með sívaxandi atvinnuleysi heldur en hitt að hv. þm. Finnur Ingólfsson eða einhver annar virðulegur þingmaður Framsfl. geti beinlínis sannfært mig um að það séu athafnir ríkisstjórnarinnar sem setið hefur síðustu mánuði sem hafi valdið þessu. Ef þeir geta sýnt mér fram á það með rökum og það hvernig væri hægt að snúa þessu við þá tek ég því með þökkum. Ég tel það nefnilega meira mál, virðulegu þingmenn, að taka á þessum málum en stunda það ,,skuespil`` sem þingmenn hafa stundað í fjölmiðlum undanfarna daga út af því hvernig þeir greiða atkvæði.