Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:22:00 (4022)


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Nú hafa kviknað líflegar umræður og ég sakna þess að þingflokksformaður Alþfl. skuli ekki vera við umræðuna. En það er með hann eins og ráðherrana sem eru fjarverandi.
    En ég verð að byrja á því, virðulegur forseti, að leiðrétta samþingmann minn, Finn Ingólfsson, sem annars flutti hér hið besta mál. Hann sagði að síðasta vor, þegar ríkisstjórnin tók við, hefði hún bókstaflega ekki gert neitt. Það væri nú kannski í lagi ef hún hefði ekki gert neitt. Það sem hún gerði var alveg heilmikið. Hún hefur nánast lagt atvinnulífið í rúst á þessum fáu mánuðum. Hún byrjaði á að hækka vexti í landinu, íþyngja atvinnufyrirtækjunum og ég segi það hér að vaxtahækkunin ein og aðrar beinar íþyngjandi aðgerðir fyrir sjávarútveginn kosta hann milljarða. Það er það sanna í málinu. Á sama tíma koma svo þessir menn og halda að þessi atvinnugrein geti borgað hærri laun. Ég er sammála því að hún þyrfti að gera það og það verður að búa þannig um hnútana að hún geti borgað hærra fiskverð og hærri laun ef við ætlum að halda fiskinum og afurðum hans hjá okkur hér innan lands og njóta margfeldisáhrifa vinnslunnar í landinu.
    Nei, það var byrjað á því að rústa grundvöllinn og svo ætla þessir heiðursmenn og herrar að fá að skipuleggja á rústunum. Þá á hagræðingin að byrja í gegnum gjaldþrotin og þá vitum við hverjir það verða sem munu fá atvinnufyrirtækin. Þá vitum við hver samkeppnisstaða fyrirtækjanna mun verða. Þetta er leikurinn.
    Hv. þm. Hrafnkell Jónsson spurði einmitt um það og gat þess að hér hefði allt verið í rúst þegar Framsfl. skildi við. Nú vitna ég í ekki ómerkari mann en leiðtogann sjálfan, Davíð Oddsson, og við skulum aðeins staldra við. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson. sagði í stefnuræðu sinni, sem auðvitað Hrafnkell og aðrir sjálfstæðismenn hafa skrifað undir, virðulegi forseti --- ég er klár á því að forsetinn kann þetta utan að. En í stefnuræðunni segir: ,,Við Íslendingar búum nú við betri kjör en flestar aðrar þjóðir.`` Þetta er fyrsta línan í stefnuræðunni. Síðan kemur tveimur línum neðar, hv. þm.: ,,Við höfum brotist frá fátækt til bjargálna og stöndumst nú samanburð við þær þjóðir sem fremstar standa.`` Viðskilnaðurinn var þá ekki verri að áliti forsrh., eftir þessi 20 hörmungarár sem íhaldið og kratarnir hafa verið að staglast á að séu nánast glötuð ár.
    Hv. þm. spurði hvað hafi gerst á þessum 20 árum og hvað Framsfl. gerði því það er eins og Framsfl. hefði einn verið við völd í þessi 20 ár. Vissulega hafa kraftaverk verið gerð á þessum tíma. En Framsfl. var ekki einn, hann átti í samstarfi við marga flokka, það er rétt. Hann átti í samstarfi við marga flokka og margir góðir menn lögðu hönd á plóginn við að breyta því þjóðfélagi sem þá var og gerðu það að því velferðarþjóðfélagi sem það er í dag og menn hafa nú lagt til atlögu við að brjóta niður. Hvar var landhelgi okkar Íslendinga þegar Framsfl. tók við fyrir 20 árum síðan? Hvar var hún eftir viðreisnarárin? 5.000 ferkílómetrar. Engar hugmyndir uppi eða að umræður hefðu farið fram um að við þyrftum eða ættum að reyna að stækka fiskveiðilögsöguna. Hver var fiskveiðilögsagan þegar Framsfl. fór frá? Hún var rúmir 5.000 ferkílómetrar en hún er nú 758.000 ferkílómetrar. Er þetta ekki grundvöllurinn að þeirri hagsæld sem hér hefur verið byggð upp? Hvar var togaraflotinn á þessum árum eftir viðreisnarárin? Það var ekki bara að hér væri atvinnuleysi um allt. Hvar var togaraflotinn? Hvað ætli það hafi verið margir togarar til í landinu þá? Við þurftum ekki fingur annarrar handar til að telja þá. Togaraflotinn var á þessum árum byggður upp frá grunni og meira en það. Allur frystiiðnaðurinn var einnig byggður upp frá grunni. Ég trúi

því ekki að hv. þm. hafi ekki glöggvað sig á þessu.
    Ég trúi því ekki heldur að hv. þm. hafi ekki áttað sig á því hvað hefur verið gert í heilsugæslumálum og sjúkrahúsmálum, vítt og breitt um landið. Í samgöngumálum, í skólamálum og svona gæti ég haldið áfram að telja. En því miður er tími minn hér of skammur til að telja upp öll afrek síðasta 20 ára tímabils Framsfl. Ég er stoltur af því. ( Gripið fram í: Það er talað um sukkið.) Já, það er kallað sukkið. Sumir hafa talað um ár hinna glötuðu tækifæra, þessi 20 ár sem Framsfl. hefur verið í ríkisstjórn, þegar honum tókst að endurskipuleggja það þjóðfélag sem hér var. ( Gripið fram í: Í samstarfi við aðra.) Ég var búinn að taka það fram, virðulegur þingmaður, að Framsfl. var ekki einn, margir komu hér að. Framsfl. tókst að beisla öfgarnar til hægri og vinstri. Þess vegna fengum við jafnákjósanlegt þjóðfélag og við höfum í dag. Það er miðjumoðið sem íhaldið talar gjarnan um. ( ÓÞÞ: Miðtaflið á skákborðinu.)
    Hv. þm. krafðist þess að Framsfl. gerði grein fyrir stefnu sinni varðandi það hvað nú ætti að gera. Það var ekki seinna vænna. Það eru fleiri en Matthías Bjarnason sem sjá að spyrja þarf Framsókn að því: Hvað eigum við að gera? Það eru fleiri en hann sem eru farnir að átta sig á því. Ekki eru nein ráð í þingflokksherbergi Sjálfstfl. á þýsku húsgögnunum. Nei, það væri betra að þeir hefðu setið á innlendri framleiðslu þar --- ég býst við að hugsunin væri skýrari ef það hefði verið. En það er sjálfsagt til að styrkja íslenskan iðnað, a.m.k. létum við framsóknarmenn okkur duga að kaupa innlendan iðnað þegar keypt voru húsgögnin í þingflokksherbergi. Enda er hugsunin skýr.
    En hvað ætlar Framsfl. að gera? Hv. þm. sagði að hann hefði . . .  (Forseti hringir.) ( Gripið fram í: Nú er forseta nóg boðið.) Gengur fram af virðulegum forseta, eða er tíma mínum að ljúka? ( Forseti: Tímanum er lokið.) Tímanum er lokið. Þá skal ég stytta mál mitt. En nú ætlaði ég að fara að fræða hv. þm. um ráð okkar framsóknarmanna. Það er illt að tíminn skuli vera búinn því að ég veit að virðulegur forseti hefði gagn af því að hlusta á þær tillögur sem Framsfl. er með.
    Þrátt fyrir minni afla sem við erum sammála um að draga úr hafinu hefur okkur tekist að fá aukið verðmæti úr því takmarkaða magni sem verið hefur. Við vorum að leggja grunn að því að ná stóraukinni hagræðingu í greininni. Og vegna þess --- og það eru mín lokaorð, virðulegi forseti, --- að hv. þm. hlustaði af mikilli athygli á formann okkar í gærkvöldi, og ég sé það á honum að hann hefur sofið vært og vel á eftir og er vel hvíldur eftir þann sjónvarpsþátt, þá var það eitt sem fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson gleymdi að geta um í þeim þætti, hann gleymdi að geta um ávinninginn. Á þessum stutta tíma tókst greininni, sjávarútveginum, að leggja til hliðar í Verðjöfnunarsjóðinn 3 milljarða kr. Núv. ríkisstjórn kemur sér ekki einu sinni saman um það hvert hún eigi að útdeila því aftur.