Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:32:00 (4023)


     Hrafnkell A. Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson skýrði ýmislegt fyrir mér sem ég hef ekki skilið áður. Hann rakti þankagang okkar sjálfstæðismanna til þess á hverju við sitjum. Okkar hugsunarferill er hérna uppi í höfðinu en ýmsir hugsa eitthvað neðar. Það kann að vera að sé skýringin á ýmsum þeim athugasemdum sem hv. þm. Framsfl. hafa staðið að í gegnum árin.
    Eins vil ég gjarnan upplýsa hv. þm. um það að þegar sjálfstæðismenn móta sínar skoðanir þurfa þeir ekki að láta skrifa upp á það. Það er aðall okkar sjálfstæðismanna að við stöndum keikir fyrir frjálsri skoðanamyndun og þurfum ekki að ganga fyrir hvers manns dyr í okkar flokki til að láta skrifa upp á það hvaða skoðanir við höfum eða hverju við höldum fram.
    Hv. þm. tíundaði ýmis afreksverk Framsfl. á undanförnum árum en eftir sem áður hef ég ekki fengið svör við því hvers vegna við búum ekki betur en við gerum í dag eftir alla þessa uppbyggingu. Skýringanna er ekki að leita í því sem gerst hefur undanfarna mánuði. Þær eiga sér lengri rót. Ég er búinn að starfa að kjaramálum í á annan áratug og það er engin ný bóla að hér sé láglaunafólk, t.d. í fiskvinnslunni og reyndar vítt og breitt í þjóðfélaginu. Það er ekkert að gerast núna á síðustu vikum eða mánuðum. Hvers vegna hefur okkur ekki tekist að skapa öllum landslýð betri kjör en raun ber vitni? Eftir sem áður get ég tekið undir þau orð sem vitnað var til hér áðan og hæstv. forsrh. mun hafa látið falla í sinni stefnuræðu að við búum í einhverju besta þjóðfélagi á jörðinni --- þrátt fyrir 20 ára stjórnarsetu Framsfl.