Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:34:00 (4024)


     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta var mjög skemmtileg ræða sem hv. þm. Stefán Guðmundsson flutti hér áðan og fróðleg fyrir ýmissa hluta sakir. Við heyrðum aldeilis ágætt viðtal við flokksformann hans í gærkvöld sem mér líkaði mjög vel og gat tekið undir í flestu. En ég get ómögulega tekið undir það að Framsfl. hafi haft einhverja meginforustu í landhelgismálum. Við vorum reyndar fulltrúar allra flokka á hafréttarráðstefnu og þar var Þórarinn Þórarinsson svo sannarlega nýtur og gegn fulltrúi Íslands meðal annarra sem þarna voru. Þar var t.d Lúðvík Jósefsson líka og hann var ekki síðri í landhelgisbaráttunni. Og þar var Benedikt Gröndal.
    Svo held ég að við sjálfstæðismenn höfum töluvert látið til okkar taka, a.m.k. í 200 mílunum og á ýmsum öðrum sviðum hafréttarins. Þetta er kannski smáatriði nú. Við erum búin að fá þessar 200 mílur. Þær heyra fortíðinni til og eru enginn fortíðarvandi og verða aldrei.
    En það er nauðsynlegt að vekja athygli á því að einn flokkur á ekki að reyna að eigna sér það sem hann alls ekki á og hann hafði sko aldeilis ekki neina forustu í landhelgismálunum. Við skulum bara láta

markþað liggja á milli hluta hverjir af okkur, sem vorum þarna í heilt ár samanlagt, alltaf tvisvar á ári, einn mánuð að vetri og annan að sumri, hafi staðið sig best.
    Ég held að við höfum verið sammála um alla baráttuna um það er lauk. Við eigum þetta öllsömul. En þetta eru svo lítil mál núna vegna þess að stórmálin eru fram undan. Við getum friðað allan Reykjaneshrygginn, 350 mílur. Ég sagði það hér fyrr í dag. (Forseti hringir.) Þetta er allt saman í hendi, um það eigum við að sameinast og ekki að rífast um það sem liðið er. Nú hringir forseti í mig en af því að hv. þm. Stefán Guðmundsson fékk að tala hálfa mínútu umfram tímann, þá ætla ég að tala í 20 sekúndur og segja: Verum sameinuð í landhelgismálunum og vinnum þá sigra sem eru í hendi.