Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:39:00 (4026)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég efast um að þegar hv. 9. þm. Reykn. mælti fyrir þessari þáltill. hafi hana órað fyrir að umræður færu á þann veg sem þær hafa nú farið. Þessi tillaga fjallar nefnilega um áhyggjur þingmanna Reyknesinga af atvinnuleysi kvenna á Reykjanesi en ekki um ágæti Framsfl. eða Sjálfstfl. eða annarra stjórnmálaflokka. Ég ætla því alveg að sleppa að lesa upp og skýra ágæti flokksformanns míns. Það er öllum landslýð ljóst hverju hann fékk áorkað þegar hann hafði til þess afl. Ég ætla ekki að gera það að meginefni. Það er líka ánægjulegt að sjá hér einn alþýðuflokksmann í salnum. (Gripið fram í.) Eru þeir orðnir tveir? Mér hafði satt að segja dottið í hug að auglýsa eftir þeim í hinu víðlesna blaði, Alþýðublaðinu, því að þeir hafa ekki sést hér lengi. Hins vegar er alveg augljóst að með komu varamanna Sjálfstfl. inn á þing virðist allur flokksagi hafa farið úr böndunum. Þessir menn standa hér og tala heilu og hálfu dagana vitandi það ekki að þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki opnað munninn hér í vetur að undanskildum ráðherrum. Ég ætla að biðja menn að ræða við þingflokkinn um hvort hér er eitthvað að fara úr böndunum hjá þeim.
    En svo ég víki að því máli sem hér er á dagskrá, þá get ég mjög vel skilið að þingmenn Reyknesinga hafi miklar áhyggjur af atvinnuleysi kvenna á Reykjanesi, en miklu meira áhyggjuefni er þó það atvinnuleysi sem við erum að horfa framan í á Íslandi í fyrsta skipti að því marki sem það nú er. Mér dettur ekki í hug að gera hér að umræðuefni hverjum það er að kenna. Hitt er annað mál að það er nýtt í Íslandssögunni, alla vega í sögu lýðveldisins, að svo alvarlegt atvinnuleysi blasi við sem nú gerir. Og ég held að menn ættu aðeins að hugsa það mál til enda.     Við þekkjum atvinnuleysi hundruð þúsunda manna í nágrannalöndunum en þar er dálítið önnur staða. Þar geta menn búið ævilangt í tiltölulega ódýrum íbúðum. Menn hafa ekki þann skuldaklafa á herðunum sem íslenskt fjölskyldufólk býr við. Mér er satt að segja óskiljanlegt hvað um það fólk verður sem missir atvinnu, þótt ekki sé nema í nokkra mánuði, með þær atvinnuleysisbætur sem boðið er upp á hér. Í Danmörku t.d. er atvinnulausum manni boðnar 10 þús. danskar kr. sem eru um 100 þús. kr. á mánuði. En það er auðvitað vegna þess að Danir hafa fyrir löngu horfst í augu við þá skelfilegu staðreynd að fólk verður að lifa við það að vera atvinnulaust til frambúðar og ætlast ekki til að fá vinnu.
    Okkar kerfi er allt öðruvísi og ég satt að segja skil ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn getur átt rólega stund þegar hugsað er til þess að hundruð manna missi atvinnu sína því að engin fjölskylda í landinu er undir þetta búin og ekkert þjóðfélagsafl getur komið þar á móti sem getur séð um að þetta fólk geti haldið áfram að lifa eðlilegu lífi þó að samfélagið geti ekki útvegað því atvinnu. Við vitum það öll hversu lítið íslenska fjölskyldan þolir af tekjumissi vegna þess að venjan er að um hver einustu mánaðamót er búið að ráðstafa hverri einustu krónu sem inn kemur. Það þarf auðvitað ekkert til þess að allur kastalinn hrynji yfir höfuðið á fólki. Og hvað ætla stjórnvöld þá að gera? Ég hlýt að spyrja. Það er auðvitað með öllu óskiljanlegt hvað menn virðast vera andvaralausir varðandi þetta vandamál. Hvað ætla menn að gera við allar fjölskyldurnar sem missa íbúðirnar sínar eftir örfárra mánaða atvinnuleysi? Hvar ætla menn að hýsa þetta fólk? Og á hverju á þetta fólk að lifa? Atvinnuleysistryggingar ráða ekki einu sinni við þær lágu atvinnuleysisbætur sem við höfum í landinu, hvað þá hærri bætur. Eiga sveitarfélögin að hlaupa undir bagga? Eru þau í stakk búin til þess að veita þessu fólki framfærslu? Ég er ansi hrædd um að það gæti orðið erfitt.

Ég býst við því að Félagsmálastofnunin í Reykjavík sé farin að finna allillilega fyrir þessu ástandi þar sem fullfrískt og vinnufúst fólk neyðist til að leita til Félagsmálastofnunar og fá lágmarksframfærslu sem er auðvitað ekki einu sinni fyrir mat, hvað þá öllu öðru sem fólk þarf að greiða.
    Síðan geta menn rifist um hvort þessi kreppa er raunveruleg eða óraunveruleg. Að mínu viti er hún gjörsamlega óraunveruleg vegna þess að eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. v. þá varð alls ekki sá halli á útflutningsgreinunum sem menn höfðu búist við vegna þess að þó að afli væri minni, þá var verðmæti aflans þeim mun meira.
    Auðvitað er alltaf hægt að búa til vandamál. En hvað eru menn að gera um leið og ástandið er að verða svona í atvinnumálum? Það er verið að minnka þjónustu við sjúklinga, það er verið að hækka greiðsluverð lyfja, það er verið að skera niður í skólakerfinu, það er verið að draga úr lánum úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Við hljótum að spyrja: Hvert er eiginlega verið að fara með þetta samfélag?
    Svo koma menn hér og þenja sig, hvort sem þeir hafa leyfi til þess að tala eða ekki. Ég sá að hæstv. forseta drauðbrá þegar ótíndir varaþingmenn Sjálfstfl. fóru að halda langar ræður. Menn voru að jagast um það hvað hæstv. fyrrv. forsrh. hefði gert og allir hans áar. Hvers konar ábyrgðarleysi er þetta? Ég bið menn að taka þá tillögu alvarlega, sem hér liggur fyrir, og yfirfæra hana á samfélagið allt og yfir bæði kynin vegna þess að hér er að skapast slíkt ástand í atvinnumálum að ég hygg að við höfum aldrei horft framan í annað eins.