Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:46:00 (4027)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er kominn ágætur þingmaður austan af landi, hv. 3. þm. Austurl., og færir okkur ferska vinda inn í þessa stofu og það er vel. Hann hefur, eins og margir aðrir, áhyggjur af því hvað er að gerast í íslensku þjóðfélagi og það er líka vel.
    Hér er einnig kominn vestan af landi, frá Vestfjörðum, ágætur þingmaður, hv. þm. Pétur Sigurðsson og hann var einn af þeim sem þorði að kannast við fortíð sína og varði af karlmennsku það sem fyrri ríkisstjórn hafði gert í atvinnumálum.
    Ég ætla að svara í örfáum atriðum því hvað við framsóknarmenn hefðum gert hefðum við verið við völd.
    Eitt prósentustig í atvinnuleysi kostar íslenska ríkið 600--700 millj. eftir því sem hæstv. félmrh. segir okkur. Tvö prósentustig kosta þá 1.200, þrjú kosta 1.800, ef við veljum lægri töluna, fjögur kosta 2,4 milljarða og fimm prósentustig kosta í 3 milljarða. Spurningin er þessi: Allar þjóðir Evrópu hafa snúist þannig við að þær hafa notað tvær aðferðir til að sækja fram og verjast í slíkri stöðu. Annars vegar að greiða atvinnuleysisbætur og hins vegar að nota opinbert fé til stuðnings því að koma á atvinnu. Það var gert í Bretlandi undir stjórn Thatcher. Allt að 80% voru greidd úr opinberum sjóðum til þess að greiða vinnulaun ef menn sköpuðu ný störf. Þetta var stiglækkandi í fimm ár. En hvað segir frjálshyggjan á Íslandi? Hún segir bara: Við látum flatreka.
    En nú ætla ég að ganga svolítið nær þingmanninum. Ég ætla að fara beint austur. Íslendingar hafa saltað síld og selt hana Rússum. Við framsóknarmenn hefðum haldið áfram að salta síldina af því að það er veðrmætara að selja hana sem saltaða síld en setja hana í gúanó. Við seldum Stalín gamla síld. Hann þótti ekki góður. Við seldum Krússa síld. Það þóttu gallar á þeim manni. Við seldum Brezhnev síld og Gorbatsjov og svo tók Jeltsín við. Var ekki loksins kominn maður sem hægt var að skipta við, fulltrúi Sjálfstfl. í Rússlandi? Það þurfti ekkert annað en senda honum fálkann og auðvitað þá í silfri eða lifandi. En hvað var gert? Nei. Þá var sagt: Það er ekki hægt að salta síld á Íslandi. Og það var ekki fyrr en formaður viðskiptanefndar eða utanrmn., sennilega hefur það verið formaður utanrmn., því ég held að þetta hafi orðið utanríkismál, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, rak liðið úr Seðlabankanum frá jólaglögginu út til að selja síld. Það er ekki skrýtið þótt menn biðji um andsvar þegar því er haldið fram að framsóknarmenn hefðu viljað láta salta síld. Það er ekki skrýtið þó að nú sé nauðsyn að veita andsvar.
    Nei, það er nefnilega dálítið merkilegt að ég er sannfærður um það að ef hv. 3. þm. Austurl. hefði verið ráðherra og setið yfir þeim málum þá hefði hann barist fyrir því með oddi og egg að Íslendingar söltuðu síld. Það þarf nefnilega hagfræðimenntaða heimspekinga sem horfa fyrst í austur og svo í vestur til komast að þeirri niðurstöðu að það sé best að láta síldina fara í gúanó. Það komast ekki nema háskólamenntaðir menn með hagfræðipróf að slíkri niðurstöðu. ( Gripið fram í: Þó ekki allir.) Og þó ekki allir, er sagt. Ég ætla ekki að fara að lesa hv. 3. þm. Austurl. neinn pistil eða ráðast á hann persónulega í þessum efnum. Ég er nefnilega sannfærður um að hann kemur úr því andrúmslofti þar sem menn líta mjög líkt á þessi mál. Þeir líta á þessi mál þeim augum að íslenska þjóðin hafi aldrei átt nema eina leið og muni aldrei eiga nema eina leið og það er að vinna sig út úr þeim vandamálum sem fyrir stafni eru á hverjum tíma.
    En ef menn telja nú að það sé rétt --- að það sé ekki sjóðasukk, það sé sjálfsagður hlutur --- að meta svo íslenskar vinnufúsar hendur að það sé betra að hafa þær heima og borga þeim atvinnuleysisbætur heldur en láta þær salta síld þá eru menn komnir á annað svið, þá er stefnan orðin önnur. Og ég ætla að bæta við varðandi þetta atriði. Þegar Framsfl. ásamt öðrum, það skal fram tekið, var búinn að vera tíu ár í ríkisstjórn var Ísland samkvæmt þjóðartekjum á mann fjórða tekjuhæsta land í heimi. Þegar við yfirgáfum ráðherrastólana vorum við nr. 6 eða 7. Það verður fróðlegt að sjá hvar við stöndum í röðinni ef menn trúa því að það sé rétt að það sé innbyrðis vandi sjávarútvegsins ef þar er ekki rekstrargrundvöllur. Þannig tala sumir ráðherrar, að þetta sé bara skipulagsvandi innbyrðis. En hér stóð þó íslenski sjútvrh. sem nú er og þorði að segja sannleikann í þeim efnum. Hvað sagði hann? Hann sagði einfaldlega: Ef það væri enginn viðskiptahalli við útlönd gætum við sagt: Þessi slæmu fyrirtæki mega bara rúlla. En hver var viðskiptahallinn eftir að frjálshyggjan tók við? 14 milljarðar á seinasta ári. Er það þá bara orðinn vandi innan greinar sjávarútvegsins? Ég held nú síður. Það er þjóðarvandi þegar menn sigla á þennan hátt. Og hvað er orðið af iðnaðaruppbyggingunni sem átti að eiga er stað og ég sem ungur drengur heyrði talað um? Hvað er orðið af henni, forseti? Ég veit það ekki.