Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 15:01:00 (4031)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að heyra að hv. 2. þm. Vestf. var einkum með þetta alvarlega ástand á Suðurnesjum, atvinnuleysi kvenna þar í huga í ræðu sinni og ég tek hans útskýringar fullgildar. Mér er mjög minnisstætt þegar ég var fyrir liðlega ári síðan stödd í Grindavík í þann mund sem ekki hafði fengist úr því skorið hvort af síldarsamningum yrði. Það var skömmu fyrir jól 1990. Þetta var mikið áhyggjuefni fólks þar og það voru margar konur sem áttu alla sína vinnu á næstunni undir því einmitt að slíkir samningar næðust. Ég get því tekið undir með hv. þm. og þykir vænt um að hér er farið að beina sjónum sérstaklega að þessu sérhæfða vandamáli, atvinnumálum kvenna á Suðurnesjum, því að ég er ekki að draga úr því að atvinnuástandið í landinu er mikið áhyggjuefni, en ég er jafnframt að benda á það að þar sem mjög alvarlegt ástand skapast verður að grípa til aðgerða í samræmi við það.