Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 10:57:00 (4034)


     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég var ekki viðstaddur umræðu um þetta mál í gær en ég fagna framkomu þáltill. og tel vakið máls á verðugu viðfangsefni sem ástæða er til að leita lausnar á. Um ástandið á Suðurnesjum var víst ekki mikið rætt í gær. Mér skilst að umræðurnar hafi aðallega snúist um ástandið á landinu öllu. Þess vegna er ugglaust ástæða til að benda á að ef hér í Reykjavík, á Reykjavíkursvæðinu, væri atvinnuleysi slíkt sem er á Suðurnesjum, þ.e. í fullu hlutfalli við það sem þar er, þá væru í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu í dag um það bil 6.000 manns atvinnulausir því íbúafjöldi hér á þessu svæði er nánast tífaldur við það sem er á Suðurnesjum og þar eru 600 manns án atvinnu. Meiri hluti þeirra er konur eins og hér er bent á og enn eru réttar upplýsingar að meira en 8% vinnufærra kvenna á Suðurnesjum eru án atvinnu og hafa verið lengi. Þetta ástand er að nálgast eins árs afmæli og ég verð að viðurkenna ásamt þeim sem hér hafa gert þetta að umtalsefni að það er svolítið umhugsunarefni hvaða athygli þetta hefur fengið í fjölmiðlum og hjá stjórnendum landsins.
    Því miður eru hér ekki viðstaddir umræðuna þeir ráðherrar sem ættu að vera viðstaddir og þess vegna ástæða til að fresta lokum hennar en það verður þó að geta þess að fyrir fáeinum dögum gengu á fund félmrh., sem fer með atvinnumál, konur sem höfðu áhyggjur af sinni atvinnu í Reykjavík. Þær voru ekki atvinnulausar en höfðu áhyggjur af að þar að gæti komið. Ráðherranum þótti sjálfsagt að taka málið inn á fund ríkisstjórnar. Þær voru ámóta margar og þá þegar voru atvinnulausar á Suðurnesjum og höfðu verið um mánaðabil. Ráðherrann hafði ekki tekið það til athugunar.
    Það er augljóst af þessu að athygli manna er ekki bundin af viðfangsefnunum eða ástæðum til að taka sér viðfangsefni heldur einhverju öðru. Ég er ekki viss um hvað veldur, en ég er þeirrar skoðunar að umræður af þessu tagi í þessum þingsal ættu að beinast að viðfangsefnunum, ekki að fréttamati eða því hverjir koma í viðtalstíma.
    Vegna þess að minnst var á fund tveggja ráðherra á Suðurnesjum fyrir nokkrum mánuðum þá verð ég að viðurkenna að ég veit að það var að frumkvæði þeirra en ekki heimamanna. Það segir hins vegar ekkert um fundinn eða niðurstöður hans. Ég hygg að þær hafi verið nokkuð raktar, a.m.k. sé ég ekki ástæðu til að bæta úr um þá frásögn en ég vil líka geta þess að það er rangt til getið að Suðurnesjamenn sjálfir hafi talið álver hugsanlega lausn allra mála. Þeirra skoðun hefur verið sú að ef og þegar að slíkri framkvæmd kemur á Keilisnesi, þá sé líklegt að mikill hluti þeirra sem þar muni starfa komi frá Reykjavíkursvæðinu. Það er augljóst þegar litið er á landakortið að það er jafnskammt frá Reykjavíkursvæðinu og frá Suðurnesjum að Keilisnesi og það er alveg ljóst þeim sem ferðast um þessi svæði hvaðan umferðin er greiðari.
    Um það hvort stórar lausnir eða smáar séu við hæfi verðum við náttúrlega að geta þess að hinar stóru lausnir eru yfirleitt þau verkefni sem leiða til ákveðinnar tækniþróunar og ég hef veitt því athygli að í máli þeirra manna sem mest hafa mælt fyrir því að álver verði reist á Íslandi hefur það verið talið mjög líklegt til þess að leiða fram ákveðna þróun í tæknikunnáttu landsmanna og veita hugsanlega önnur atvinnutækifæri heldur en hér hafa verið mest áberandi. Og þá vel að merkja verðum við að veita því athygli líka að samdráttur hefur verið í sterkasta atvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum, og allar forsendur sem við sjáum um hans rekstrarskilyrði eru slíkar að svo virðist sem sá samdráttur haldi áfram. Hann notar minni mannafla, bæði vegna þróunar og vegna líffræðilegra forsendna.
    Það verður að viðurkennast að það er ekkert nýtt fólgið í því að það séu aðilar vinnumarkaðarins sem komi fram með frumkvæði í atvinnu- eða efnahagsmálum. Þetta mátti síðasta ríkisstjórn upplifa og hafði þá nýlega talið sín eigin verk tímamótaverk þegar aðilar vinnumarkaðarins komu fram með nýjar hugmyndir, gjörólíkar, og reyndust hafa rétt fyrir sér. Það sýna umræður manna í dag um það hver eru keppikeflin í umræðum um kjaramál.
    Á Suðurnesjum er sitthvað verið að gera af hálfu heimamanna. Þar á meðal eru verkefni sem lúta sérstaklega að hugsanlegum atvinnutækifærum kvenna. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesjamanna, sem er þeirra eigið skilgetið afkvæmi, hefur stöðugt unnið að þessum verkefnum ásamt öðrum heimamönnum en vissulega haft þar tiltekna fjármuni úr ríkissjóði sem félmrn. og Byggðastofnun fer með og hefur veitt í þetta verkefni. Hins vegar eru fleiri mál líkleg til þess að taka til atvinnuþátttöku kvenna. Verið er að undirbúa framkvæmdir sem væntanlega sjá dagsins ljós, þær fyrstu á næstu árum, við Bláa lónið. Flugleiðir hafa þegar hafið byggingu flugskýlis við Keflavíkurflugvöll og þó að byggingarframkvæmdir eða framkoma verktaka við það hafi þótt nokkuð gagnrýniverð og jafnvel ekki allir þeirra viðskiptahættir trausts verðir, þá er alveg ljóst að til Suðurnesja flyst umtalsverður fjöldi af atvinnutækifærum. Hins vegar hefur komið fram við athugun á því að þar er einn sá vinnustaður Íslendinga sem er fjölmennur sem hefur hvað minnst af konum starfandi þó að ekkert segi til um það að þau störf geti ekki verið vel unnin af konum. En það segir mér fólk sem þar hefur starfað að þær séu ekki margar meðal umsækjenda.
    Það verður að benda á og það er nauðsynlegt að við veitum því athygli að það er samdráttur í starfsemi varnarliðsins. Fyrir þjóðarbúið hafa þær tekjur í raun verið útflutningstekjur.
    Það hefur verið bent á þegar við ræðum um lífskjör okkar í heild, þjóðfélagsins, að útflutningstekjur okkar, viðskiptin við aðrar þjóðir eru nokkru minni en margra annarra þjóða sem við gjarnan berum okkur saman við, ekki endilega að þær reynist hafa meiri auðlindir til að spila úr, heldur hegða þær sér öðruvísi í viðskiptum og í atvinnustarfsemi. Ég hygg að það sé rétt að stjórnvöld hafi ákveðið frumkvæði, ekki endilega í því að gera hluti svo sem að koma á fót atvinnustarfsemi heldur að beina hugum manna sem mundu starfa í atvinnulífinu að ákveðnum hlutum, að ákveðnum upplýsingum, að ákveðnum hugmyndum.
    Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög trúaður á atvinnustarfsemi ríkis eða annarra opinberra

aðila, miklu frekar fyrirtækja sem einstaklingar taka sig saman um. Ég tel frumkvæði þeirra miklu eðlilegra. Slíkt fyrirtæki er fljótara að bregðast við breyttum aðstæðum og það hlýtur ævinlega að vinna samkvæmt voninni um hagnað og það er hagnaðurinn sem við síðan í framhaldinu byggjum á næstu framkvæmdir hvort sem það eru ný fyrirtæki, stækkun fyrirtækja eða nýjar framkvæmdir.
    Við höfum rætt hér alloft um Evrópskt efnahagssvæði, þá samninga sem til þess hafa leitt að það er nú líklegt. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Við Suðurnesjamenn teljum okkur þar hafa mikla möguleika, raunar eins og aðrir Íslendingar. En við höfum þar fyrst og fremst bent á nábýli sjö fiskihafna og flugvallar og þann kost að flytja út daglega nýjar afurðir, ekki óunninn fisk eins og nú er gert heldur unnar afurðir á disk þeirra sem af okkur kaupa.