Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:37:00 (4046)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Reykv. sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna nú þegar möguleika á því að ljúka uppbyggingu hringvegarins á næstu tveimur árum. Þjóðhagsleg arðsemi framkvæmdarinnar verði könnuð sérstaklega, svo og hagkvæmni þess að vinna verkið nú þegar fyrirsjáanlegur er mikill samdráttur í allri verktakastarfsemi. Þá verði reynt að leggja mat á hvaða ný sóknarfæri skapast í atvinnulífi landsmanna við þessa framkvæmd. Stefnt verði að því að niðurstöður þessarar könnunar liggi fyrir það snemma að hægt verði að hefja framkvæmdir á næsta sumri ef niðurstaða gefur tilefni til.``
    Þessi tillaga er komin fram af nokkuð líkum rótum og voru að baki þeirrar umræðu sem var verið að fresta áðan. Grunnhugmyndin á bak við þetta er sú að við þær aðstæður sem við búum við núna, samdrátt í þjóðfélaginu, þá kunni að vera hagkvæmt að ríkið grípi inn í og grípi til framkvæmda sem að flestra mati eru þjóðhagslega hagkvæmar. Það er líka vert að geta þess að nú eru þær aðstæður í okkar þjóðfélagi að við eigum öflug verktakafyrirtæki, stór og smá um allt land sem eiga tækjakostinn til að gera stórátak í vegagerð. Þessi tækjakostur mun að öllum líkindum úreldast lítt notaður á næstu árum ef ekki verður gripið til einhverra slíkra aðgerða auk þess sem það er hagkvæmara fyrir ríkið að fara út í slíkar framkvæmdir á þessum tímum þegar væntanlega er hægt að ná mun hagkvæmari samningum en annars hefði orðið því að allir eru sammála um að hér er um að ræða verkefni sem hlýtur að verða hrundið í framkvæmd á næstu árum.
    Nú er það svo að það eru fleiri en við flm. þessarar tillögu sem hafa komið auga á og bent á þennan möguleika. Og ég vil benda í þessu sambandi á hluta af niðurstöðum atvinnumálahópsaðila vinnumarkaðarins og ég ætla að lesa upp hluta af ályktun þeirra um vegamál. Þar segja þeir, með leyfi forseta:
    ,,Höfuðmarkmiðið er að ljúka hringveginum og tengingu helstu kaupstaða landsins með uppbyggingu á bundnu slitlagi og endurnýjun þeirra brúa sem eru svo lélegar að þær þola ekki þennan aukna þunga. Við forgangsröðun þessa verkefnis skal fyrst og fremst litið til arðsemis þeirra. Heildarkostnaður þessara verkefna er áætlaður 4--5 milljarðar kr. til viðbótar við þá fjármuni sem ætlaðir eru til nýframkvæmda í vegamálum á næstu árum. Ljúka þarf þessu verkefni á næstu árum svo að við Íslendingar drögumst ekki um of aftur úr þjóðum Vestur-Evrópu á þessu sviði. Því telur nefndin rétt að athuga hvort ekki sé rétt að flýta þessari þróun m.a. með því að athuga erlendar lántökur í þessu skyni.``
    Ég vil í framhaldi af þessu benda á það að öflugar samgöngur eru forsendan fyrir þróun í atvinnulífinu. Þetta er löngu viðurkennt meðal annarra þjóða og ég bendi til að mynda á hlutverk þýsku hraðbrautanna við uppbyggingu atvinnulífs í Þýskalandi eftir seinni
heimsstyrjöldina. Við getum litið okkur nær. Ég bendi á að ef ekki hefði verið komin til sú uppbygging vega sem hefur verið á Suðurlandi á síðustu árum þá væri ekki möguleiki á að flytja út Hekluvikur í dag

og nýta þar með þá auðlind sem þar er. Ég bendi líka á það að flutningur á eldisfiski frá Silfurstjörnunni í Öxarfirði til flugstöðvarinnar í Keflavík byggir á þeim framkvæmdum sem þó er búið að vinna á hringveginum en meira þarf til.
    Ég vil líka benda á það að ég tel nokkra hættu á því að með þeirri áherslu sem lögð hefur verið á jarðgangagerð á síðustu árum og er lögð á á næstunni, nú vil ég taka það fram að ég vil á engan hátt draga úr áherslu á nauðsyn slíkra framkvæmda, en það er hætta á því ef við uggum ekki að okkur að þetta verði til þess að hið almenna vegakerfi sitji nokkuð á hakanum á næstu árum og með því mundum við dragast verulega aftur úr öðrum þjóðum hvað samgöngur snertir.
    Hver skyldi svo vera arðsemi slíkrar framkvæmdar? Tillagan snýst reyndar um að það verði kannað þannig að ég vil ekki fullyrða neitt um það. En ég vil þó benda á að líkur eru á því að arðsemi þessarar framkvæmdar sé veruleg. Í fyrsta lagi eru margir af þeim köflum sem eftir eru á hringveginum með þeim arðsömustu vegaframkvæmdum sem um er að ræða og eftir er að framkvæma í okkar vegakerfi í dag. Ég vil í öðru lagi benda á það að ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem þó hefur gert það að verkum að samdráttur þjóðartekna var ekki meiri en raun bar vitni á síðustu árum. Ég vil nefna það í þessu sambandi að forsenda öflugrar ferðaþjónustu eru góðar samgöngur.
    Þá ætla ég að nefna að mönnum var tíðrætt í umræðunni fyrr í dag um ný tækifæri í sjávarútvegi. Menn benda á það réttilega að okkar stærsti og næsti markaður, Evrópumarkaðurinn, muni á næstunni m.a. kalla á ferskar matvörur í meira mæli en hefur verið. Til þess að það verði ekki bara suðvesturhorn landsins, svæðið frá Vestmannaeyjum og upp til Akraness sem liggur best við samgöngum til og frá landinu, sem njóti þessarar þróunar þá þurfa að koma til stórbættar samgöngur. Það er m.a. forsenda þess að um allt land geti orðið sú þróun að við hliðina á þeim öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru að byggjast upp geti þrifist og byggst upp smærri fyrirtæki í sérhæfðari vinnslu sem þurfa að leita hráefnis víðar en nú er og hafi möguleika á að koma sínum afurðum á fljótan hátt á markað. Ég mun koma frekar að þessu atriði í lok ræðu minnar.
    Ég vil þá benda á það að stærsti þröskuldurinn sem enn er og stendur því fyrir þrifum að við getum talað um hringveginn sem alvöruveg eru samgöngurnar milli Norður- og Austurlands þar sem svo háttar til að vegi er ekki haldið opnum nema yfir sumarmánuðina. Ég tel reyndar að það kosti ekki mikla peninga að stíga fyrstu skrefin í bættum samgöngum milli Norður- og Austurlands. Það þurfi raunar ekki annað til en taka ákvörðun um að halda þeim vegi opnum yfir vetrarmánuðina eins og kostur er. Staðreyndin er nefnilega sú þó að mönnum vaxi ferðalag um Hólsfjöll oft í augum að víða er verið að halda opnum miklu snjóþyngri vegum en þarna eru og þrátt fyrir allt er lengsta vegalengd á milli byggðra bóla á leiðinni frá Mývatnssveit og austur á Jökuldal ekki nema 45 km. En hvaða möguleika mundi slíkur vegur opna? Ég ítreka aftur það sem ég sagði áðan varðandi ferðaþjónustuna. Það styttist í það að flugvellir verði bæði á Akureyri og Egilsstöðum sem geti þjónað beinu millilandaflugi og tekið á móti ferðamönnum beint. Ég minni einnig á að höfn Norrænu á Íslandi, þess fyrirtækis sem sér um samgöngur ferðamanna á sjó við önnur lönd, er á Austurlandi. Þetta mundi skapa stóraukna möguleika á samvinnu þessara landshluta í ferðamálum.
    Ég vil þó í öðru lagi benda á annan þátt og ekki síður mikilvægan sem tengist því sem ég ræddi áður, þ.e. varðandi útflutning á ferskum matvörum og þá kannski fyrst og fremst ferskum sjávarafurðum. Það er nú einu sinni staðreynd að með siglingu frá Austfjörðum er hægt að spara allt að sólarhring. Það tekur sólarhring styttri tíma að koma vörunni til Evrópu. Ef við tökum þetta síðan út frá sjónarmiði Norðlendinga þá mundu greiðar samgöngur við útflutningshöfn á Austurlandi geta sparað allt að öðrum sólarhring sem annars mundi taka að koma vörunni til útskipunarhafnar á Suðurlandi. Ég tel því að þarna liggi miklir möguleikar í þá veru um leið að Mið-Norðurland með því fjölbýli sem þar er og þeirri þjónustu sem þar er geti veitt Austfirðingum nokkra þjónustu sem þeir þurfa að sækja lengra í dag og Austfirðingar geti tekið að sér það hlutverk að verða að nokkru útflutningshöfn fyrir Norðurland. Ég bendi á í þessu sambandi að áhugi íbúa á Norður- og Austurlandi varðandi þetta atriði hefur að undanförnu verið mjög vaxandi. Ég benti á að ég hef fengið undirskriftir allra aðila sem stunda ferðaþjónustu í Mývatnssveit og þeir skora á þingmenn að fylgja þessu máli eftir. Ég nefni samþykkt sveitarstjórna í Fellahreppi og Egilsstaðakaupstað í þessa veru, sömuleiðis átaksverkefnis í atvinnumálum í Mývatnssveit. En nú segir kannski einhver: Höfum við fjárráð til þess að ráðast í framkvæmd sem þessa? Hvernig á að fjármagna verkið? Ég ætla ekki að benda á marga þætti en vil þó benda á nokkra ára gamalt frumkvæði 2. flm. þáltill. um sérstaka happdrættisskuldabréfaútgáfu til vegaframkvæmda við eflingu hringvegarins. Ég tel æskilegt að kanna slíkt aftur.
    Ég nefni einnig það sem kemur fram hjá vinnuhópi aðila vinnumarkaðarins að líklega er þessi framkvæmd það arðbær að verjanlegt er að taka til hennar sérstök erlend lán. Ég held hins vegar að ef það yrði gert væri æskilegt að áætla á hvern hátt við ætlum að endurgreiða lánið. Ætla má umferðinni að gera það að hluta og bent hefur verið á að hækkun bensíngjalds um eins og 2 kr. gæti staðið undir afborgunum og vöxtum af nokkuð myndarlegu láni til slíkra framkvæmda.
    Virðulegi forseti. Með sérstöku tilliti til umræðunnar í þjóðfélaginu nú, sem kallar á að gripið verði til einhverra aðgerða vil ég leggja sérstaka áherslu á að þetta máli fái skjóta afgreiðslu í meðförum Alþingis. Um leið legg ég til við hæstv. forseta að þessu máli verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.