Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:55:00 (4058)

     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þáltill. sem liggur hér frammi og lýsi stuðningi við hana og greinargerða sem henni fylgir.
    Það var gaman að hlusta á hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson rifja upp gamla sögu um það stórátak í vegaframkvæmdum sem var gert hér á árunum áður. Ræðan hans var skemmtileg alveg þar til hann kom að kaflanum um útfærslu landhelginnar. Þar var dálítið langt seilst í umræðum um vegagerð. En hann minnti okkur á að það þarf sérstaka fjárveitingu í svona stór verkefni og með tilliti til þess niðurskurðar sem hefur verið núna í vegaframkvæmdum, þá rúmar sú fjárveiting varla jafnstórt átak og verið er að tala um hér. Því þarf sérstaka fjárveitingu í þetta, annaðhvort með þeim hætti sem Eyjólfur vitnaði til áðan eða með lántöku.
    Hvað varðar vegarstæðin sjálf, þegar verið er að tala um hringveginn, þá þarf að endurskoða ýmsa kafla hans sem eftir eru, m.a. frá Mývatni að Héraði með tilliti til tengingar Vopnafjarðar inn á það vegarstæði. Því vil ég skora á ríkisstjórnina að skoða þessa þáltill. vel og standa myndarlega að þessu verkefni.