Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:06:00 (4062)

     Sveinn Þór Elinbergsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að öll almenn rök mæli með samþykkt þessarar þáltill. og mér finnst persónulega sjálfsagt að láta framkvæma þessa könnun. En ég verð að segja það í ljósi þess að við höfum takmarkað ráðstöfunarfé til vegaframkvæmda og í rauninni skert vegafé til framkvæmda sem nauðsynlegar eru úti um landsbyggðina, þá hljótum við, eins og fram hefur komið m.a. hjá hæstv. fyrrv. samgrh. Steingrími J. Sigfússyni í umræðunni, að viðhafa ákveðna forgangsröð í ljósi þess hversu naumt fjármagn við höfum. Mín skoðun er sú að brýnast í slíkri forgangsröð, brýnna en að tengja saman kjördæmi, hljóti að vera það að tengja saman byggðarkjarna, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja víða úti á landsbyggðinni. Við eigum að nýta þessa takmörkuðu fjármuni frekar í að tengja saman byggðarkjarna en kjördæmi

ef svo má að orði komast. Helstu rök fyrir því hljóta að vera þær aðstæður sem ríkja hjá mörgum sveitarfélögum. Þau sjá hag sínum best borgið í náinni framtíð, á næstu árum, jafnvel á næstu missirum, í því að sameinast með einum eða öðrum hætti annaðhvort formlega eða fjölga samstarfsverkefnum, samnýta þjónustukjarna sína sjálfum sér og öðrum til hagræðingar. Þess vegna held ég, eins og dæmi eru til um, að brýnast sé að ráðstafa mjög takmörkuðum fjármunum í að tengja saman byggðarkjarna þar sem það þykir hagkvæmt, m.a. með rökum heimamanna ef þeir þá vilja það sjálfir. Dæmi um slíkt svæði er einmitt norðanvert Snæfellsnes þaðan sem ég kem og þekki best til. Þar eru fjórir þéttbýliskjarnar þar sem stutt er á milli. Tveir þeirra eru tengdir með afbragðs góðum vegum sem eru Hellissandur og Ólafsvík. Það dæmi sýnir öðrum Snæfellingum og sannar hvers megnugir við værum ef við gætum tengt hina tvo byggðarkjarnana við þessa tvo þannig að úr yrði 4--5 þúsund manna þéttbýliskjarni, svæði sem væri megnugra að annast sín verkefni og sína þjónustu en það er við óbreyttar aðstæður.