Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:08:00 (4063)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Herra forseti. Ég var að vonast til þess eftir að hafa hlýtt á umræður hv. þm. hér að um þetta mál væri nokkuð góð eining. Nú ætla ég ekki að fara að bera blak af þeim framsóknarmönnum. ( Gripið fram í: Þú varst einu sinni í flokknum.) Þó að ég hafi kannski fæðst inn í Framsfl. þá er ég ekkert skyldugur til þess, þeir eru nógu margir hér til að gera það. En ég harma það hins vegar að menn skuli nota jafngagnmerkt málefni og þetta er til þess að fara út í einhvers konar uppgjör við þann stjórnmálaflokk. Ég tel hann satt að segja ekki þess virði. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu, hv. þm., átti ég við flokkinn.
    Ég fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Alþfl., lýsti yfir eindregnum stuðningi við þetta merka mál sem er hér til umræðu. Ég vonast til þess að það endurspegli álit hv. þm. Alþfl. til málefnisins. Vitaskuld geta menn velt vöngum yfir þessu stóra og alvarlega vandamáli sem alltaf er þegar kemur að uppbyggingu samgöngumannvirkja, þ.e. peningunum. Ég get ekki annað en tekið undir það með hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni að þegar farið er að bera saman framkvæmdir í samgöngum á milli landshluta, þá hallar nú dálítið á. Ég veit ekki hvort það er skynsamlegt eins og virtist koma fram í frammíköllum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Kristins H. Gunnarssonar að einkavæða þessi samgöngumannvirki en sjálfstæðismenn munu vafalaust ekki standa gegn því að það verði kannað til hlítar. ( Gripið fram í: Ekki allir.) Það eru greinilega ekki allir sem eru þeirrar skoðunar.
    Ég kem hér upp á nýjan leik til þess að leggja áherslu á að sú góða samstaða haldist sem endurspeglaðist framan af í umræðunum og málinu verði ýtt fram. Vel er hægt að skilja athugasemdir þeirra sem óttast að með stórátaki í lúkningu hringvegarins sitji aðrar mikilvægar samgönguframkvæmdir á hakanum. Hér hefur verið minnst á Snæfellsnes, byggðirnar á Norður- og Norðausturlandi, á Vestfjörðum og Ströndum. Allt er þetta satt og rétt. Ég held að við verðum að taka á þessu máli með öðrum hætti og til hliðar við hina almennu uppbyggingu vegakerfisins.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson rifjaði upp hvernig menn leystu þessi mál á sínum tíma með því að efna til happdrættis. Ýmsar leiðir eru vafalaust til ef skilningur er á því að þetta sé arðsöm aðgerð. Menn tala um að tengingin á milli Norður- og Austurlands falli ekki að tengingu byggðarlaga. En nú vill svo til að einmitt sú tenging mundi virka á þann veg að ekki minni byggðarlög en Akureyri og Egilsstaðir kæmust væntanlega í ársvegasamband sem mundi greiða verulega fyrir viðskiptum, bæði verslun og þjónustu, milli þessara staða og verða til hagsbóta ekki einasta þeim sem búa á þarna heldur öllum þeim sem búa á Norður- og Austurlandi.
    Ég vil enda mál mitt með því sem ég gerði í fyrri ræðu minni að ég lít ekki svo á að þetta sé málefni Austfirðinga og Norðlendinga einna. Þetta er málefni íslensku þjóðarinnar og við verðum að skilja að uppbygging samgangna og uppbygging byggða vítt og breitt um landið er ekkert einkamál þess fólks sem þar býr. Það er málefni þjóðarinnar og þannig verðum við að líta á það í lengd og bráð.