Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:16:00 (4065)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það verður að virða hv. 3. þm. Austurl. það til vorkunnar að vera ekki vel að sér í sögunni, alla vega ekki sögu Sjálfstfl. þar sem hann hefur dvalið í fortíðinni ansi mikið fjarri honum og er meira að segja útskrifaður úr tveimur flokkum ef ég man rétt.
    Það sem ég vildi gera athugasemdir við eru þau sjónarmið sem hann gerir mér upp gagnvart einkavæðingu. Það er þannig með þessa ríkisstjórn að það er sáluhjálparatriði að leysa skal allt með því sem kallað er einkavæðing. Meira að segja bankastarfsemi og jafnvel Póst og síma svo að ekki sé minnst á fleiri fyrirtæki á að selja og afhenda athafnamönnum eins og það heitir með stóru a-i. Það er hins vegar rétt að halda því til haga að Sjálfstfl. hefur verið öðrum flokkum duglegri við það að fara ofan í sjóði skattborgaranna og moka úr þeim í gæluverkefni sín. Þar nægir að nefna flugstöðina sem varð montverkefni íhaldsins og milljörðum króna var sóað þar að þarflausu. Það má líka nefna Perluna í Reykjavík þar sem menn eru að moka milljörðum úr sameiginlegum sjóðum borgarbúa í verkefni sem engu skilar öðru en menn geta snúist þar í hring án þess að snúa stólnum. Þetta eru afrek Sjálfstfl. í þessu máli og tvískinnungshátturinn varðandi einkavæðingu er sá að það sem menn tala um í öðru orðinu og framkvæma í hinu er misvísandi eins og sagan kennir okkur.