Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:22:00 (4068)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Því miður þurfti ég að víkja aðeins frá þessari umræðu og hef því ekki hlýtt á mál allra ræðumanna sem hér hafa talað. En þessi ágæta tillaga sem hér um ræðir hefur fengið mikla umfjöllun og menn hafa farið nokkuð víða, heyrist mér, núna upp á síðkastið. Ég vil koma aftur að tillögunni og koma inn á eitt atriði sem ég heyrði að kom fram í ræðum sumra þeirra hv. þm. sem talað hafa.
    Þeir óttast og kannski eðlilega að þær framkvæmdir sem tillagan gerir ráð fyrir, ef í verður ráðist, dragi áhersluna frá öðrum nauðsynlegum vegaframkvæmdum í tengingu byggða. Ég get alveg skilið þessar áhyggjur og mitt fylgi við þessa tillögu byggist á því að hér sé um sérstakt átak að ræða í vegamálum sem komi til viðbótar við þau áform sem uppi eru samkvæmt þeirri vegáætlun sem til umfjöllunar er í hv. Alþingi. Undir merkjum vegáætlunar er unnið að ýmsum bráðnauðsynlegum verkefnum í tenginu byggða hér á landi og auðvitað eru þær framkvæmdir allar mjög nauðsynlegar. En þessi tillaga gerir ráð fyrir því að það verði gert sérstakt átak í uppbyggingu vega sem tengist m.a. því atvinnuástandi sem

er núna og vannýttum tækjakosti sem er í landinu sem er upplagður til þess að ráðast í svo stór verkefni sem hér um ræðir. Það er visst hlé núna í stórframkvæmdum. Auðvitað kemur það niður á atvinnuástandinu í landinu og það væri æskilegt að hægt væri að beita þeim tækjum og mannafla að arðvænlegum verkefnum. Það er einmitt það sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Ég vildi undirstrika það að ég tel að þessi tillaga eigi ekki að breyta áherslum í vegamálum. Hún gerir að vísu ráð fyrir að verði ráðist í sérverkefni vegna þess að vegáætlun gerir ekki ráð fyrir slíkum sérverkefnum. Það hefur verið viss stefnubreyting varðandi núv. vegáætlun. Þau stórverkefni sem voru að nokkru leyti utan vegáætlunar áður eru nú dregin inn í vegáætlunina og fjármögnuð af vegafé. Það er í sjálfu sér aðferð og ég ætla ekki að orðlengja um það en það er viss stefnubreyting frá því sem áður var þegar var áformað t.d. að fjármagna hluta af gerð Vestfjarðaganga með lánsfé utan vegáætlunar. Þessi tillaga gerir ráð fyrir slíku verkefni og það er á þeim forsendum sem ég styð hana.
    Ég skil ákaflega vel að ýmsir hv. þm. vilji ekki hverfa frá þeim áherslum sem hafa verið í tengingu byggða og eru alveg bráðnauðsynlegar. Við höfum t.d. mikið af slíkum verkefnum ólokið á Austurlandi þannig að ég skil mætavel að hv. þm. vilji leggja áherslu á að halda dampinum uppi í vegamálum.