Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:26:00 (4069)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessar góðu umræður sem tillaga okkar hv. 4. þm. Reykv. hefur fengið og ég vil ítreka það að hún fái hraða meðferð þannig að hæstv. samgrh. geti fengið það berlega í ljós hver er vilji Alþingis og stuðningur Alþingis við þau áform að ljúka versta þröskuldinum á hringveginum.
    Örfá orð varðandi ræðu hv. 5. þm. Austurl. Gunnlaugs Stefánssonar. Hann eyddi öllu púðrinu á framsóknarmenn og skildi ekki hvers vegna ég væri að leggja það til nú loksins, að loknum 20 ára stjórnarferli Framsóknar, að ljúka hringveginum. En ég vil þó benda hv. þm. á að forsenda þess að hægt væri að ljúka hringveginum á til þess að gera skömmum tíma eru þær framkvæmdir sem unnar hafa verið í samgöngubótum á landinu síðustu 20 ár. Ég vil bara biðja hv. þm. að fara svo sem 20 ár aftur í tímann og kanna það hvernig var háttað samgöngumálum okkar og hvaða stórvirki í vegaframkvæmdum hafa verið unnin í stjórnartíma Alþfl. meðan viðreisnarstjórnin sat við völd. Nú vil ég bara í mestu vinsemd biðja hann að kanna þetta. Ég er nokkuð viss um hv. þm. mundi þá komast að því að þau stórvirki sem hafa verið unnin í samgöngum á landi á okkar landi hafa flestöll verið gerð í stjórnartíð Framsfl. þannig að ég vil biðja hann í mestu vinsemd að skoða þetta.
    Í öðru lagi lít ég þannig á að hans ræða áðan hafi verið dauð og ómerk þar sem formaður þingflokks Alþfl. talaði næstur á undan honum og lýsti þar ekki bara sinni stefnu heldur stefnu og skoðun þingflokks Alþfl. á því máli sem hér liggur fyrir þannig að það er það sem ég tel að hv. samgn. eigi að hafa sem veganesti þegar þessi tillaga verður tekin til umfjöllunar.