Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. til eflingar Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs. Það er 152. mál á þskj. 164.
    Fyrir það fyrsta, herra forseti, hefði ég gjarnan kosið að hæstv. sjútvrh. og jafnvel hæstv. menntmrh. hefðu verið viðstaddir. Það er umræðuvert að hér er tekið fyrir hvert málið á fætur öðru og um þau hafa orðið ágætar málefnalegar umræður, kannski betri vegna þess að hæstv. ráðherrar eru í burtu, en engu að síður er það slæmt að ekki skuli vera a.m.k. einn fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar viðstaddur þegar hvert þingmálið á fætur öðru fær hér meðferð. Þetta mál er endurflutningur á tillögu sem var lögð fram á 113. löggjafarþingi. Þá flutt af Birni Val Gíslasyni, varaþingmanni Alþb. úr Norðurl. e. Tillögugreinin sjálf er nú flutt nær óbreytt og lítils háttar aukið við greinargerð.
    Tillögugreinin sjálf er einföld, hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu skuli byggja upp miðstöð fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs.
    Alþingi felur því ríkisstjórninni að láta gera tímasetta áætlun sem miði að uppbyggingu sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsbrautarinnar á Dalvík og eflingu hvers kyns rannsókna- og þróunarstarfsemi á svæðinu.``
    Það er rétt að taka fram að flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Jón Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Jóhann Ársælsson.
    Þannig standa að tillögunni tveir þingmenn allra flokka, nema Sjálfstfl. Eins og fram kemur í greinargerð kom fram þegar leitað var til þingmanna Sjálfstfl. um meðflutning að þeir hefðu skylt mál í undirbúningi.
    Að baki tillögunni liggur sú hugmynd að með þessum aðgerðum megi slá a.m.k. tvær flugur í einu höggi, það er að sækja fram á sviði sjávarútvegsins til aukinnar þekkingar og þróunar í þessari höfuðatvinnugrein landsmanna. Jafnframt megi með þessu efla byggð og styrkja uppbyggingu háskólanáms og rannsókna í miðstöð slíkrar starfsemi á landsbyggðinni. Þetta tvennt eitt og sér er nú ærið að mínu mati, herra forseti, og réttlætir, þótt ekki kæmi fleira til, að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar.
    Ég hygg að nánast sé óþarfi að rökstyðja fyrir hv. þm. hvers vegna menn horfa til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins í þessu efni. Þar stendur sjávarútvegur mjög sterkum fótum og hefur verið í sókn á undanförnum árum. Þar eru rekin nokkur af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þau hafa um margt verið í fararbroddi hvað snertir nýsköpun og þróun á sviði sjávarútvegs. Útgerð og fiskvinnsla við Eyjafjörð eru mjög fjölbreytt. Þaðan er gerður út öflugur togarafloti 20 til 30 skipa sem hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum. Það er einnig gerður út floti nóta- og rækjuskipa auk mikils fjölda annarra báta.
    Samanlagt skapar allur þessi floti og vinnsla sem honum tengist mjög fjölbreytta sjávarútvegsstarfsemi á svæðinu. Þar eru öflug hefðbundin vinnslufyrirtæki. Þar eru vinnslufyrirtæki sem hafa á undanförnum árum sérhæft sig í vinnslu á afurðum í neytendapakkningar. Síðan er rétt að líta til allrar þeirrar þjónustustarfsemi sem byggst hefur upp kringum sjávarútveginn á Eyjafjarðarsvæðinu og er tvímælalaust sú öflugasta í landinu. Þar nægir að nefna Slippstöðina hf. á Akureyri sem í áratugi hefur verið leiðandi aðili í skipasmíðum, viðgerðum og þjónustu við skipastólinn í landinu. Þar má nefna fyrirtæki eins og Sæplast á Dalvík sem er eitt öflugasta og kröftugasta útflutningsfyrirtæki á framleiðsluvörum, eða vörum fyrir sjávarútveg. Það hefur vaxið ört á undanförnum árum og má heita ævintýri hvernig fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð firna sterkri stöðu á markaði hér innan lands og einnig erlendis. Á þessu ári er talið að um helmingur allrar framleiðslu fyrirtækisins fari beint til útflutnings. Þar er staðan þannig í dag að fyrirtækið hefur verið rekið með dágóðum hagnaði undanfarin ár og tveggja vikna afgreiðslufrestur er á afgreiðsluvörum fyrirtækisins það ég best veit í dag, framleiðslan er sem sagt seld jafnóðum.
    Þá má nefna fyrirtæki eins og Fiskmiðlun Norðurlands sem hefur verið að taka sölumál og fleira í sínar hendur á þessu svæði. Nefna má fyrirtæki eins og DNG, sem framleiðir færarúllur og reyndar fleiri vörur fyrir sjávarútveg, og það má nefna hið merka framtak Fiskeldi Eyjafjarðar sem hér var til umræðu á hv. Alþingi í gær, þar sem verið er að brjóta blað í grunnrannsóknum og nýsköpun á þessu sviði.
    Margt fleira mætti tína til sem tengist ýmiss konar þjónustu og umsvifum við sjávarútveg á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég hygg að þetta nægi til að rökstyðja að þarna eru einhverjar allra heppilegustu aðstæður á einum stað á landinu til að byggja upp slíka miðstöð.
    Þá er að nefna sjálfan skólaþáttinn eða rannsókna- og fræðsluþáttinn. Þar vil ég fyrst nefna að á Eyjafjarðarsvæðinu er skipstjórnarnám við skipstjórnarbrautina á Dalvík og þar hafa þeir einmitt verið að fá heimildir ráðuneytisins til frekara náms en áður hefur verið. Ég nefni Fiskvinnsluskólann sem er nýlega tekin til starfa á Dalvík. Það er eini skóli sinnar tegundar utan Reykjavíkursvæðisins. Ég nefni svo síðast en ekki síst sjávarútvegsbrautina við Háskólann á Akureyri sem miklar vonir eru bundnar við, ekki bara á því svæði heldur almennt innan atvinnugreinarinnar. Þar hafa ýmis nýmæli verið tekin upp í kennslu og er það fyrsta og eina sérhæfða kennslan í sjávarútvegsfræðum á háskólastigi í landinu. Ég nefni til viðbótar það sem unnið hefur verið í samstarfi háskólans og fyrirtækja á sviði gæðamála, gæðastjórnunarbrautina sem háskólanum var heimilað að taka upp núna fyrir skömmu. Til meðferðar hér á Alþingi eru ný lög á um Háskólann á Akureyri og það var samdóma álit hv. alþm. í umræðum um það frv. hér á þingi á dögnum að þessi lög mundu styrkja Háskólann á Akureyri mjög í sessi sem fullburða rannsóknastofnun, fullburða akademíu. Þar með væri Háskólinn á Akureyri kominn á fastan framtíðargrunn, þ.e. með setningu þeirra laga.
    Þá ber enn að nefna að starfsemi helstu rannsóknastofnana sjávarútvegsins fer nú fram í samstarfi og samvinnu við Háskólann á Akureyri og undir sama þaki. Þar er bæði á ferðinni útibú Hafrannsóknastofnunar og auk þess er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins með starfsemi á sama stað.
    Það er ljóst að samstarf þessara aðila, Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Háskólans á Akureyri er að mynda kjarna faglegrar þekkingar og rannsókna á þessu sviði sem fyrirfinnst ekki annars staðar í landinu. Ég hvet menn eindregið til þess, sem til þess hafa aðstöðu og eru áhugasamir um málefni sjávarútvegsins, að heimsækja þennan stað. Ég veit og treysti því að þar verði mönnum tekið opnum örmum. Það er ákaflega fróðlegt að skoða húsakynni sjávarútvegsbrautarinnar og fylgjast með og fræðast um það ágæta samstarf rannsóknastofnananna og háskólans sem þarna er að vaxa úr grasi. Allt þetta ber að sama brunni, herra forseti, ég tel að á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu séu nánast kjöraðstæður fyrir hendi til þess að byggja upp þá rannsókna- og fræðamiðstöð á sviði sjávarútvegsins sem er okkur Íslendingum auðvitað til vansa að hafa ekki fyrir löngu komið á fót. Það verður að heita með ólíkindum að nú fyrst á síðustu árum skuli skipulögð háskólakennsla í málefnum höfuðatvinnugreinar landsmanna vera að líta dagsins ljós.
    Það var viðtal við framkvæmdastjóra fiskvinnslufyrirtækis og útgerðarfyrirtækis í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum, Finnboga Jónsson í Neskaupstað, og hann leyfði sér að nefna það þeim orðum að í raun og veru hefði Háskóli Íslands, með fullri og mikilli virðingu fyrir honum sem nemendum hans er skylt að bera eins og mér, hefði fyrst og fremst verið fram eftir öldinni að mennta embættismenn í hefðbundnum stíl, lækna, lögfræðinga og presta. Og má til sanns vegar færa. Það er ekki við Háskóla Íslands að sakast heldur fyrst og fremst þá sem ráðið hafa mennta- og atvinnumálum þjóðarinnar á undanförnum áratugum, þar á meðal hv. alþm., að þessum málum skuli ekki hafa verið betur sinnt fyrr en nú. En betra er seint en aldrei og ég tel að næsta skref í uppbyggingu þessara mála eigi að vera stefnumörkun og ákvarðanataka af því tagi sem hér um ræðir, sem sagt ákvörðun um að á þessu svæði byggist upp slík miðstöð rannsókna og fræða.
    Enginn vafi er á því að möguleikar okkar Íslendinga til verðmætasköpunar og velsældar á næstu árum eru sem fyrr að verulegu leyti bundnir við frekari verðmætasköpun sem á rót sína að rekja til sjávarútvegsins.
    Það hefur jafnan reynst svo að þessi grein hefur þurft að standa undir aukinni velmegun og verðmætasköpun í landinu jafnvel þótt um áratugaskeið hafi fullyrðingar verið á lofti um að nú sé sjávarútvegurinn kominn að sínum endimörkum og þaðan verði ekki meiri verðmætasköpunar að vænta. Þessa klisju er búið að syngja lengi, hún var sungin þegar verið var að selja mönnum hugmyndina um fyrstu erlendu stóriðjuna á sjöunda og áttunda áratugnum og hefur verið sungin jafnt og þétt fram að þessu. Engu að síður er það svo að heimsókn í nokkur fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu mundi fljótt færa mönnum heim sanninn um það að enn þann dag í dag er í gangi þróun sem er að skila okkur stórauknum verðmætum í þjóðarbúið. Ég nefni þar sem dæmi fullvinnslu afurða í neytendapakkningar frá fiskvinnslufyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Upplýst er að einingaverð sé orðið um 600 kr. á kg þegar fiskurinn fullunnin er kominn í smáar neyslupakkningar.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að vona að tillagan fái hér málefnalega og þinglega meðferð og helst afgreiðslu. Ég held að því verði ekki á móti mælt að tímabært er að taka á þessum hlutum og nauðsynlegt að marka stefnu af þessu tagi til að styðjast við í uppbyggingu á þessu sviði á komandi árum. Annað er óþolandi en að til grundvallar liggi einhver markviss og meðvituð stefna um það hvernig að þessari starfsemi skuli hlúð og hún byggð upp á næstu árum. Á því er brýn og rík þörf. Ég er sannfærður um að það væri skynsamlega og vel valið að taka ákvörðun um að setja slíka miðstöð niður og byggja hana upp á því svæði sem hér um ræðir.
    Ég held að það sé óþarfi að rökstyðja frekar gildi þess að til verði slík fagleg miðstöð fræðslu og rannsókna á þessu sviði. Það er óþarfi að rökstyðja mikilvægi sjávarútvegsins fyrir landsmönnum, það hljóta allir hv. alþm. að þekkja. Ég tel mig hafa sýnt fram á að á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu séu ákjósanlegar aðstæður, kjöraðstæður, fyrir þessa hluti og þar eigi þeir að byggjast upp.
    Að lokum, herra forseti, velti ég því fyrir mér hvar væri eðlilegast að vista þessa tillögu í skipulagi þingsins hvað vinnu snertir. Ég hneigist að því að eðlilegast sé að sjútvn. fái tillöguna til meðferðar þótt sannarlega megi færa að því rök að menntmn. ætti einnig að koma að því máli. Er vonandi að með samvinnu þessara nefnda væri hægt að leysa úr þeim málum. Óumdeilanlega er þetta hagsmunamál sjávarútvegsins sem atvinnugreinar og málefni þeirrar greinar heyra undir sjútvn. Sömuleiðis eru á verksviði sjávarútvegsins og heyra undir sjútvrh. sumar af þeim stofnunum sem hér eiga í hlut, þ.e. rannsóknastofnanirnar þó svo að rannsóknamálefni almennt og að sjálfsögðu málefni menntastofnananna heyri undir menntmn. og menntmrh.
    Ég vil því að lokum, herra forseti, að lokinni þessari umræðu, sem ég vona að verði málefnaleg og málinu til framdráttar, jafnframt því að ég harma að hæstv. ráðherrar sem þyrftu að vera viðstaddir skuli ekki vera það, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. sjútvn. með óskum um að eftir því sem aðstæður leyfa og ástæða þykir til verði haft samráð við menntmn. um framgang málsins.