Sveinn Þór Elinbergsson :

    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér í upphafi máls míns að segja að á mínum stutta þingtíma, þessari viku sem er að líða hér, þá er þetta þskj., að öllum öðrum málum ólöstuðum, eitt það markverðasta sem ég hef barið augum á þessum dögum. Það skýrist kannski af því að ég kem sjálfur úr svipuðu umhverfi og vísað er til í þessari tillögu, þar sem ég starfa m.a. að fræðslumálum í sjávarútvegsbyggð þar sem allt snýst um sjávarútveg, veiðar og vinnslu. En einmitt í þeim skóla, í Ólafsvík, höfum við fylgst með farsælli uppbyggingu fræðslustarfs á Dalvík um sjávarútvegsmál, m.a. til þess að hafa til hliðsjónar við skipulagningu svipaðs náms í okkar skóla, þ.e. í námi vélstjóra og skipstjórnarmanna. Okkur er líka ljós þörfin á þess háttar stofnun í atvinnugreininni sem vísað er til í tillögunni og greinargerðinni sem henni fylgir. Ég tel því heimamenn verðuga þess háttar miðstöðvar sem hér er verið að ræða, enda er þörfin á slíkri stofnun mjög brýn ef við eigum að ná einhverri framþróun í þessum mikilverðasta atvinnuþætti okkar. Ég held að heimamenn eigi að njóta frumkvæðis, þekkingar og reynslu sinnar. Auk þess er ég fylgjandi uppbyggingu opinberra stofnana atvinnulífsins úti á landi. Mitt mat er því að þar fari rétt stofnun, á réttum stað og á réttum tíma.