María E. Ingvadóttir :
    Forseti. Ég vil bara lýsa ánægju minni yfir þessari framkomnu þáltill. um að gera skuli áætlun sem

miði að uppbyggingu sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri. Ég vil koma með þá tillögu að höfð verði í huga uppbygging sem miði að því að sá háskóli verði á alþjóðlegum mælikvarða. Mér líst mjög vel á að Akureyri geti orðið miðstöð sjávarútvegsfræða og ekki bara hérlendis heldur meðal sjávarútvegsþjóða. Ég vil leyfa mér að fullyrða að við séum fremst í framleiðslu tækja og tækni sem varðar sjávarútveginn og við vitum að sú framleiðsla okkar hefur virkilega slegið í gegn, ef svo má segja á erlendum mörkuðum. Mér finnst þess vegna að við ættum að stefna að því að á Akureyri verði háskóli sem standi undir því að verða á alþjóðlegum mælikvarða og þannig að við munum laða að okkur erlenda stúdenta frá sjávarútvegsþjóðum og verða áfram fremst í öllu sem varðar þekkingu á því sviði. Við erum fremst í því sem varðar tæknilega sérþekkingu á nýtingu sjávarafla. Við eigum bestu tækin og því eigum við að snúa vörn í sókn á þessum erfiðu tímum og sýna forustu meðal sjávarútvegsþjóða, bæði hvað varðar tækni, rannsóknir og þekkingu og ekki síst útbreiðslu þeirrar þekkingar sem við búum yfir.