Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem einungis til þess að lýsa í stuttu máli ánægju minni með þessa þáltill. sem hv. þm. Steingrímur Jóhann hefur haft frumkvæði að því að flytja ásamt nokkrum öðrum þingmönnum. Það sem mér finnst liggja einkum til grundvallar því að efla Akureyri og svæðið í kring sem miðstöð fræðslu og rannsókna er sú staðreynd að nú þegar er komið mjög gott rannsóknarumhverfi á Akureyri og á svæðinu þar í kring. Þar hefur þegar skapast vísir að því rétta andrúmslofti og þeim réttu kringumstæðum sem þarf til þess að búa til góða rannsóknamiðstöð og í senn góða fræðslumiðstöð. Við höfum í fyrsta lagi hina nýju sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri sem er mjög að eflast og sem hefur fengið til liðs við sig afskaplega gott fólk og það er alveg ljóst á því tiltölulega takmarkaða efni sem þegar er byrjað að streyma út úr þeim skóla að þar er á ferðinni mannval sem kann vel til verka.
    Það er auðvitað viss hefð fyrir því að menn efli menntasetur á þessu sviði og jafnframt nýja tækni og nýjar rannsóknir á þessu svæði. Ég minni á það til að mynda að það voru Eyfirðingar sem höfðu frumkvæði að þeim miklu og ábatasömu veiðum á úthafsrækju sem hófust einmitt upp úr 1970 og mig minnir að um nokkurra ára skeið hafi það einkum verið Eyfirðingar sem héldu þeim uppi. Nú er þetta orðin mjög úbreidd og arðsöm iðja.
    Það er líka alveg ljóst að þarna hefur annars konar framþróun átt sér stað eða er að eiga sér stað að því er varðar einmitt lúðueldi sem tekist hefur nokkuð vel hjá Eyfirðingum og þar er auðvitað á ferðinni þáttur sem skiptir verulega miklu máli. Og ég vænti þess auðvitað að ef hægt væri með einhverjum hætti að efla þarna góða rannsóknamiðstöð þá mundi það ekki síst verða lyftistöng undir ýmsar greinar þeirrar atvinnugreinar sem ég ber hvað mest fyrir brjósti og ekki á mjög auðvelt uppdráttar núna, þ.e. fiskeldisins. Það væri út af fyrir sig fagnaðarefni ef tækist með einhverjum hætti að þætta þær rannsóknir inn í þá miðstöð sem væntanlega verður þarna reist.
    En það sem ég vildi undirstrika líka er að við höfum þarna allt til staðar. Við höfum sjávarútvegsdeildina á Akureyri, við höfum líka ágæta sjómenntabraut á Dalvík, bæði skipstjórnarbraut og fiskvinnslubraut sem ég hygg að jafnist alveg á við til að mynda mun eldri fiskvinnslubraut sem rekin er í Hafnarfirði. Við höfum ýmiss konar smærri fyrirtæki sem hafa í skjóli þessa umhverfis tekist að vinna ýmiss konar framleiðslu tryggan sess. Ég nefni bara fyrirtæki eins og DNG. Ég minni líka á það að í nokkuð brösóttri sögu niðurlagningariðnaðar á Íslandi hefur þetta svæði skipt nokkru máli og ég minni bara á litla hluti eins og hina nýju smápakkalínu sem verið er að þróa á Dalvík sem er nú orðin ein aðaluppistaðan í frystihúsi á staðnum og er með framleiðslu sem er stöðugt að vinna sér betri sess á erlendum mörkuðum. Þetta skiptir allt saman máli en það sem vantar raunverulega inn í til þess að lyfta Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu sem öflugri fræðslu- og rannsóknamiðstöð er viðbót við þá rannsóknastarfsemi sem er að finna við háskólann og þess vegna tel ég að hluti af þeirri könnun sem ætti að fara fram, verði þessi tillaga samþykkt, hljóti að felast í því hvort ekki sé kominn tími til að stjórnvöld íhugi það í fullri alvöru að flytja Hafrannsóknastofnun til Akureyrar. Ég hygg að hvarvetna þar sem menn hafa séð sama umhverfi eins og þarna er, þ.e. öflugan iðnað, öflugan sjávarútveg og þann vísi að góðum rannsóknamiðstöðvum sem þarna er og ef menn fengju e.t.v. þá miklu viðbót sem fælist í því að flytja Hafrannsóknastofnun þarna á svæðið, þá held ég að við værum búin að byggja alþjóðlega miðstöð rannsókna og fræðslu á sviði sjávarútvegs sem mundi innan einhverra áratuga standa öllum á sporði.