Minning Guðlaugs Gíslasonar

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 13:31:00 (4087)

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Guðlaugur Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri, andaðist síðastliðinn föstudag, 6. mars, 83 ára að aldri.
    Guðlaugur Gíslason var fæddur 1. ágúst 1908 á Stafnesi í Miðneshreppi. Foreldrar hans voru hjónin Gísli útvegsbóndi þar Geirmundsson bónda á Kalmanstjörn í Gerðum Gíslasonar og Þórunn Jakobína Hafliðadóttir bónda í Fjósum í Mýrdal Narfasonar. Árið 1913 fluttist hann til Vestmannaeyja með foreldrum sínum og átti þar heimili upp frá því. Að loknu námi í barna- og unglingaskóla gerðist hann lærlingur í vélsmiðju Hafnarsjóðs Vestmannaeyja. Áður en því námi lyki réðst hann árið 1925 til skrifstofustarfa við verslun og útgerð Gísla J. Johnsens og starfaði þar til 1930. Veturinn 1930--1931 stundaði hann nám í kaupmannaskólanum í Kaupmannahöfn og lauk þar brottfararprófi um vorið. Hann var kaupmaður í Vestmannaeyjum 1932--1934, bæjargjaldkeri þar 1935--1937 og hafnargjaldkeri 1937--1938. Framkvæmdastjóri verslunar Neytendafélags Vestmannaeyja var hann 1938--1942. Árið 1942 stofnaði hann með öðrum hlutafélagið Sæfell og síðar hlutafélagið Fell, útgerðarfélög, og var framkvæmdastjóri þeirra 1942--1948. Eftir það rak hann eigin verslun til 1954. Árið 1954 var hann ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og gegndi því starfi til 1966.
    Guðlaugur Gíslason var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum á árunum 1938--1946 og 1950--1974. Hann var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var kjörinn þingmaður Vestmanneyinga vorið 1959. Eftir það var hann þingmaður Suðurlandskjördæmis frá hausti 1959 til 1978, sat á 21 þingi alls. Síðasta kjörtímabilið var hann aldursforseti Alþingis. Vararæðismaður Svíþjóðar var hann árin 1944--1975 og sat í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1961--1978. Hann var skipaður í fiskveiðilaganefnd 1971 og kosinn í stjórn Viðlagasjóðs 1973.
    Guðlaugur Gíslason var athafnamaður frá ungum aldri, stundaði fiskvinnu og fleiri störf jafnframt skólanámi þegar á barnsárum, iðkaði íþróttir, knattspyrnu framan af og golf á síðari árum. Hann var gjörkunnugur atvinnulífi í Vestmannaeyjum og var því vel búinn undir það að vinna að hagsmuna- og framfaramálum bæjarfélagsins, bæði heima í Vestmannaeyjum og á Alþingi. Hann stóð fyrir miklum framkvæmdum af hálfu bæjarfélagsins þann rúma áratug sem hann var bæjarstjóri. Í upphafi setu sinnar á Alþingi beitti hann sér fyrir því að ríkið seldi Vestmannaeyjakaupstað allt það land sem það átti í Vestmannaeyjum. Á Alþingi hafði hann einna mest afskipti af sjávarútvegsmálum. Með dugnaði, áhuga og ósérhlífni kom hann miklu í verk um ævidagana. Sjálfur taldi hann bæjarstjórastarfið áhugaverðast af störfum sínum. Þar naut hann þess að sjá árangur forstöðu sinnar í miklum verklegum framkvæmdum. Eftir að hann lét af opinberum störfum sjötugur sinnti hann ýmsum áhugamálum sínum. Hann skráði æviminningar sínar og ýmsan fróðleik um Vestmannaeyjar og komu út þrjár bækur frá hans hendi á því tímabili.
    Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Guðlaugs Gíslasonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]