Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 14:16:00 (4095)

     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Frv. þetta um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum, mun seint verða talið pólitískt mál. Frv. er flutt sem stjfrv. en sjálfsagt er að geta þess við 1. umr. að bæði ég og ýmsir aðrir þingmenn í mínum flokki hafa fyrirvara um einstök atriði frv. Telja má eðlilegt og sjálfsagt mál að sett verði heildarlöggjöf um þetta efni eftir að þessir málaflokkar hafa færst undir nýtt ráðuneyti, umhvrn. Menn geta viðurkennt að það sé sjálfsagt enda þótt um það megi deila hvernig til hafi tekist um samningu frv.
    Hæstv. umhvrh. hefur nú mælt fyrir frv. og dregið fram ýmis þau atriði sem þar skipta máli og þær helstu nýjungar sem þar er að finna. Frv. byggir á því að nálega allar veiðar séu leyfisbundnar og að leyfi umhvrh. eða ráðuneytis þurfi til hvers konar veiða sem hér er fjallað um nema til þess að veiða rottur og mýs. Þær veiðar munu vera hverjum og einum frjálsar og sjálfsagðar eftir því sem hæfni og löngun stendur til hjá hverjum og einum.
    Ég verð að viðurkenna að mér finnst að það miðstýringarkerfi sem sett er upp um þetta efni sé ærið mikið og miðað við þann fjölda veiðimanna sem stundar veiðar á Íslandi þá þurfi að gefa út nokkuð mörg leyfi af hálfu umhvrn. ef þeir ætla allir að afla sér réttar til þess að stunda veiði. Nú vil ég gjarnan taka fram að ég er ekki sjálfur veiðimaður og hef örsjaldan, og það fyrir mörgum árum, gengið til veiða og ég tala þess vegna ekki út frá mínum persónulegu hagsmunum hvað þetta snertir.
    Annað atriði sem rétt er að vekja athygli á í þessu frv., og hæstv. ráðherra vakti sjálfur athygli á, er hversu gert er ráð fyrir að hæstv. ráðherra setji reglugerð við mörg atriði sem þar er fjallað um. Í greinargerð frv. eru talin upp hvorki meira né minna en 12 atriði sem hæstv. umhvrh. ýmist getur eða skal setja reglugerð um. Með þeim hætti er verið að setja löggjöf sem færir umhvrh. vald til setningar reglugerða að eigin vild um jafnmörg atriði og hér er talið upp. Nú ætla ég ekki að kasta neinni rýrð eða draga fram neinar efasemdir um það að núv. hæstv. umhvrh. fari með vald sitt samkvæmt bestu vitund og af fullri hlutlægni, en almennt finnst mér um löggjöf að það sé hæpið að hún feli í sér jafnvíðtækt reglugerðarvald til einstakra ráðherra og hér er gert ráð fyrir. Þetta mat mitt byggist vitaskuld á því að alls konar menn, venjulega hv. þm., sitja í sæti ráðherra og með því er verið að fela ráðherrum sem e.t.v. hafa breytilegar skoðanir frá einum tíma til annars vald til þess að breyta mjög til um framkvæmd á löggjöf sem hefur það rúm ákvæði eins og þessi löggjöf sem hér er til meðferðar í frumvarpsformi.
    Ég held að samning frv., sem að ýmsu leyti er vel orðað, beri þess vitni að þar hafa um vélað sérfræðingar og vitaskuld er eðlilegt að sérfræðingar komi að þessu verki. Þeir sem samið hafa frv. eru í fyrsta lagi veiðistjóri, sem er sérfræðingur, og auk hans tveir dýrafræðingar og starfsmaður nefndarinnar var þriðji dýrafræðingurinn og síðan fól hæstv. ráðherra Jóni Gunnari Ottóssyni að vera tengiliður milli ráðuneytis og nefndarinnar og starfaði hann með nefndinni að lokagerð frv. ( Gripið fram í: Hann er skordýrafræðingur.) Hann er einnig dýrafræðingur eða líffræðingur. Auðvitað tel ég að ástæða hefði verið til að einhver kæmi að samningu þessa frv. sem væri trúverðugur úr hópi þeirra sem stundað hafa veiðar á Íslandi á undanförnum árum til þess að sjónarmið þeirra gætu komið fram í nefndinni sem um þetta mál hefðu að fjalla.
    Ég skal ekki við 1. umr. fjalla um mörg einstök atriði frv. sem þó er ástæða til en ég vil þó aðeins víkja að örfáum atriðum. Ég skal ekki fara í orðhengilshátt um einstök orð eða setningar sem lúta að t.d. 1. gr. frv. um orðaskýringar, sem mætti betur fara að minni hyggju, en ég bendi á að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að ráðherra hafi til ráðgjafar við umsjón þessara mála svokallaða dýranefnd.
    Nú liggur fyrir að lög þessi taka aðeins til villtra dýra. Ef kosið er að kalla ráðgjafarnefndina dýranefnd þá hlýtur hún að verða að heita villidýranefnd því að ég mun ekki ljá máls á því að neitt af mínum húsdýrum taki sæti í þessari nefnd ef ég skyldi eignast húsdýr aftur. Þess vegna beini ég þessu til hæstv. ráðherra sem ég veit að er allur af vilja gerður til að láta þetta fara sem best úr hendi.
    Þá eru þessi ákvæði er varða það að öll dýr eru friðuð nema mýs og rottur nema ráðherra gefi heimild til samkvæmt leyfum eða reglugerðum. Á þessu hef ég þegar vakið athygli, en síðan segir í þeirri miklu upptalningu sem er í 17 liðum hvaða áhöld megi ekki nota til þess að veiða með og þar segir m.a. í 3. tölul.: Steina, barefli, eggvopn, skutla o.s.frv. en þá vek ég athygli á því að í næstu grein, þ.e. 10. gr., stendur: ,,Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur.`` Þá vildi ég nú spyrja hæstv. ráherra hvort þyrfti ekki að bæta við þennan málslið: Þó ekki með steinum, bareflum, eggvopnum, skutlum o.s.frv. sem bannað er að nota í næstu grein á undan, þ.e. skylt er að aflífa dýr en nota þá einhverjar aðrar aðferðir.
    Ég ætla ekki að gagnrýna að leitast sé við að koma á skráningu á veiðum á Íslandi. Ég held að það sé mjög þarft og tek undir með hæstv. ráðherra að stefnt sé að því. Ég vænti þess að farið verði að með eðlilegum hætti varðandi útgáfu þessara korta en bendi á að ráðherra, hver sem hann er, er í sjálfsvald sett að ákveða verð á slíkum kortum að eigin geðþótta og enginn veit á þessari stundu hvaða verð verður ákveðið.
    Ég bendi einnig á að ráðherra getur skipað þeim sem ætla sér að stunda veiðar eða sækja eftir að fá veiðikort að sækja námskeið eða skóla. Ég vænti þess að ekki verði haldið á þeim þætti málsins á þann hátt að vanir veiðimenn og trúverðugir verði skyldaðir á skólabekk til þess að þeir fái heimild til að stunda veiði áfram eins og þeir hafa gert kannski í áratugi. Ýmislegt í þessum efnum er þannig á valdi hæstv. ráðherra, hver sem hann er. Ekki er sama hvernig haldið er á því en ákvæðin skal setja í reglugerð eða beint samkvæmt ákvörðun ráðherra sjálfs hverju sinni.

    Ég bendi á að miðað við þessa reglu að enginn megi veiða dýr utan þess að hafa til þess leyfi hæstv. umhvrh. má ég ekki einu sinni drepa mink þó að hann hlypi fyrir fætur mér nema ég fengi til þess leyfi og ég mun ekki afla mér slíks leyfis. Dræpi ég mink án leyfis þá væri ég lögbrjótur. Þetta finnst mér of langt gengið í miðstýringu þessa frv. Ég hlýt að taka það fram að ég er svo gamall sem á grönum má sjá og hef alla tíð átt heima á eignarjörð minni, fyrrum eignarjörð foreldra minna. Þar er vatn í næsta nágrenni og þar eru veiðiár í grenndinni og í minni tíð hefur orðið gífurleg breyting á dýralífi og fuglalífi á þessu svæði, einkanlega fuglalífi. Ég minnist þess sem ungur maður að það var næsta óþægilegt verk þegar við vorum að heyja á engjum vegna mikillar mergðar af hvers konar ungum, þar á meðal andarungum sem voru í þéttum torfum, einnig ungum vaðfugla o.s.frv. Það var mikið andalíf við Húnavatn á þeim árum en síðan hvarf þetta að mestu. Fjöldi af þeim andategundum, sem þar voru algengar á fyrri tímum, er nú gjörsamlega horfinn. Það er eftir lítils háttar af hávellu, einstöku sinnum sést stokkönd, rétt einstöku sinnum toppönd en aðrar andategundir sjást ekki en fjöldi andategunda var þar mikill á fyrri tímum. Skýringin er væntanlega sú að á þessu tímaskeiði kemur minkurinn inn í hina villtu náttúru landsins. Minkurinn hefur að minni hyggju orðið gífurlegt skaðræðisdýr, hann umbyltir íslensku náttúrufari og íslensku fuglalífi, hann hefur jafnvel haft mikil áhrif á líf vatnafiska. Þótt hæstv. ráðherra segði hér áðan að gildandi lög hefðu sumpart miðað að því að útrýma einstökum tegundum sem ætlunin væri nú með þessu frv. að koma í veg fyrir, þá er ekkert vafamál að slík útrýming á aðeins við um eitt dýr og það er minkurinn. Ég held að ekki væri eftirsjá að honum úr íslenskri náttúru og því ætti að halda í lögum að gert sé ráð fyrir því að þessu dýri sé útrýmt.
    Ég nefndi vatnafiska. Ég minnist þess að fram um 1950 var silungsveiði í Húnavatni nokkuð jöfnum höndum bleikja og sjóbirtingur. Nú sést þar varla sjóbirtingur. Hvers vegna? Vegna þess að urrðinn, sjóbirtingurinn, hrygnir í straumvatni. Hann hrygnir í lækjum og skurðum sem renna í vötn og minkurinn hefur hirt að heita má hvert einasta seiði á þessu svæði og nú sést varla nokkurt seiði í þessum lækjum eða skurðum sem áður voru morandi í seiðum af öllum stærðum, upp í 15--20 sm silunga. Þannig er sú breyting og er vitaskuld því að kenna að minkurinn hefur unnið þessi spjöll í náttúrufari landsins. Bleikjan hins vegar lifir þetta af vegna þess að hún hefur hæfileika til þess að hrygna á kyrru vatni.
    Mér finnst nokkuð langt seilst að banna með löggjöf að hver sem er megi drepa þetta dýr án þess að hafa til þess leyfi hæstv. umhvrh. ef skilyrði eru til þess.
    Ég ætla ekki fjalla um veiði á hvítabjörnum sem hér eru sérstök ákvæði um þar sem sagt er að umhvrh. geti t.d. heimilað veiðistjóraembættinu að fanga slíka birni ef talið er að þeir séu ekki mjög hættulegir og flytja þá á einhverja staði þar sem þeir eru enn minna hættulegir. Önnur slík skringileg ákvæði eru í frv. sem mér sýnist varða þau dýr.
    En ég kemst ekki hjá því að víkja aðeins að 16. gr. frv. er varðar seli og rostunga. Hæstv. ráðherra sagði í sinni framsöguræðu að selir hefðu verið utan ráðuneyta til þessa, þó hefðu landbrn. og sjútvrn. haft áhuga fyrir því að telja þá heyra til mála innan sinna vébanda. Þetta er vitaskuld alrangt. Selir og selveiðar --- sem ég hef ekki kynnt mér hvort með lögum um umhvrn. eru færð undir það ráðuneyti og biðst ég velvirðingar á því --- hafa löngum fylgt landbrn. og selveiðar hafa verið meðal hefðbundinna hlunninda bænda á bújörðum. Það haggar auðvitað ekki því að sjútvrn. hefur á undanförnum árum verið með nokkra afskiptasemi af selum og selveiði en lögmæt getur afskiptasemi sjútvrn. af selum eða selveiðum aldrei tekið til annarra svæða en þeirra sem eru utan netlaga, utan 115 m frá stórstraumsfjöruborði. Þar innan er landareign jarða og jarðir eru, eins og allir ættu að vita, þannig í sveit settar í stjórnkerfinu að þær falla undir umsjá landbrn. og landbúnaðarlöggjöfina bæði að því er tekur til ábúðarlaga, jarðalaga o.s.frv. Þetta er því engin spurning. Í 16. gr. þessa frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhvrh. getur í reglugerð aflétt friðun landsels, útsels, blöðrusels og vöðusels á tilteknum svæðum og árstímum samkvæmt tillögum sjútvrh. Sjútvrh. stjórnar nýtingu selastofna og hefur umsjón með þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum.``
    Þótt þetta segi hér í þessu frv. getur afskiptasemi hæstv. sjútvrh., hver sem hann er, aldrei náð lengra en að landareignum jarða. Selveiðar hafa alla stund að yfirgnæfandi meginhluta, verið stundaðar innan landareigna jarða. Það er nær fágætt að selir séu skotnir eða veiddir á hafi úti utan við netlög, 115 m frá stórstraumsfjöruborði. Þessi afskiptasemi hæstv. sjútvrh., hver sem hann er á hverjum tíma, nær því mjög skammt um þetta efni. Landbúnaðarlöggjöfin er á hinn bóginn skýr að því er þetta snertir.
    Hæstv. ráðherra sagði það --- ég biðst velvirðingar, hæstv. forseti, að ég gerist helst til langorður --- um ákvæði um fuglaveiðar og friðun á fuglum að það væri mjög sniðið eftir því sem er í gildandi löggjöf og tel ég víst að það sé rétt. Ég tel hins vegar að það sé álitamál hvort ekki sé kominn tími til að taka þau ákvæði til endurskoðunar með tilliti til þeirra breytinga sem ég vék aðeins að í fuglalífi landsins, a.m.k. eins og ég sagði frá hér áðan og ég kem ekki nema að örfáum þáttum málsins. Um leið og fækkað hefur andategundum á því svæði sem ég þekki best til, eins og ég lýsti áðan, mófuglum og vaðfuglum, t.d. er óðinshani nærri því horfinn sem var afar algengur fyrir tveimur eða þremur áratugum, þá hefur mávum fjölgað gífurlega og ég tala ekki um gæsir og álftir. Minkurinn virðist ekki hafa ráðið við álftina og gæsina en það er slík mergð af gæsum og í sumum tilvikum álftum að álitamál er hvort ekki sé ástæða til að taka þessi ákvæði um fuglafriðun til endurskoðunar og friða meira heldur en frv. gerir ráð fyrir, t.d. ýmsar andategundir, egg þeirra og endurnar sjálfar, en ganga þá frekar á þá stofna sem hefur sannanlega stórfjölgað í á undangengnum árum.
    Ég held að það sé ekki fleira sem ég óska að taka fram við þessa umræðu. Ég endurtek að þótt ég hafi gert hér ýmsar athugasemdir sem ég tel mig hafa fullan rétt til því þetta mál verður, eins og ég sagði, seint pólitískt mál, þá er eðlilegt að stefnt sé að því að setja löggjöf um þetta efni, samræmda löggjöf með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu þannig að þau mál sem falla undir umhvrn. séu felld saman í við nýjan lagabálk.