Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 15:06:00 (4098)


     Árni Johnsen :
    Herra forseti. Mér þykir augljóst þegar frv. sem hér er til umræðu er grannt skoðað að það þurfi verulegrar uppstokkunar við í meðferð Alþingis. Þrátt fyrir mörg ágæt ákvæði og atriði sem fjallað er um í frv. og eru til bóta er sýnt að sérfræðingaveldið hefur markað þetta frv. fyrst og fremst án þess að til hafi verið kallaðir þeir sem búa yfir reynslunni, reynslunni við veiðar, veiðimennsku og almenna umgengni á veiðisvæðum. Það stangast margt á í frv., agnúar eru á því sem þarf að laga, sumum atriðum þarf að breyta verulega og fyrst og fremst vil ég vara við þeim anda sem er í frv., að auka eftirlit á eftirlit ofan varðandi veiðiskap. Ég held nefnilega að það sé sýnt ef þetta frv. nær fram að ganga eins og það er, muni ekki líða á löngu þar til fleiri eftirlitsmenn verða á veiðisvæðum landsins en veiðimenn. Ef það er tilgangurinn þá er það markmið út af fyrir sig en ég hygg að það sé ekki tilgangur frv. Það þarf kannski að fara bil beggja milli þess sem nú er í fugla- og veiðiverndarlögum og svo hins sem reynslan hefur sýnt að ástæða er til að taka á.
    Með þessu frv. mundi embætti veiðistjóra fljótlega þenjast út og nóg er nú komið af slíkum embættum hvort sem talað er um Bifreiðaskoðun Íslands, Vinnueftirlitið eða aðrar stofnanir sem eru mjög djarfsæknar eftirlitsstofnanir á miðstýringargrunni.
    Ég held að í sambandi við ákvæði um veiðileyfi í frv. sé gengið einum og langt. Það er sjálfsagt að hafa strangt eftirlit með byssuleyfum eins og er í þjóðfélaginu í dag. En veiðileyfi, kvóti, atriði þar sem

sagt er í lögunum að skráð verði á veiðileyfiskort hvers veiðimanns hve mörg dýr hann megi veiða af hverri tegund er náttúrlega fjarri öllum raunveruleika hjá þeim sem vita hvernig veiðar eiga sér stað. Það er út í hött að ætlast til þess að veiðimenn fari að standa í slíkri skýrslugerð á a.m.k. allflestum þeim tegundum sem veiddar eru. Aðrar stofnanir fylgjast með viðgangi þeirra tegunda sem hafa viðkvæma stöðu í landinu. Ber þar fyrst að nefna Náttúrufræðistofnun Íslands og þá sérfræðinga sem þar fylgjast grannt með stöðu stofnanna, hvort sem það er rjúpan eða hinn alfriðaði fugl fálki. Þeir hafa góða mynd af öllu sviðinu og að mínu mati þarf ekki að fjölga eftirlitsstofnunum eða stofnun eins og er bent á. ( GHelg: Laxinn hefur verið skráður af veiðimönnum sjálfum sem veiða hann.) Þetta frv. fjallar nú ekki um laxveiði ( GHelg: Nei, ég veit það.) og þess vegna er nú svolítið annað þar á að líta en hér er fjallað um. Ástæða er til að vara við að auka sífellt á skýrslugerð og yfirbyggingu í þjóðlífi okkar, hvort sem er í tómstundum þar sem allmargir veiðimenn með byssuleyfi stunda veiðar um allt land eða í einhverju öðrum.
    Það eru nokkur atriði sem mig langar að víkja að. Í 9. gr. er til að mynda fjallað um að það megi hafa háf til lundaveiða. Þar ætti jafnframt að tilgreina langvíuveiði, ef menn vildu vera nákvæmir. Síðar í frv. kemur fram að gersamlega er bannað að veiða lunda og vík ég að því síðar.
    Í frv. er ráðgert að þeir sem stundi veiðar á villtum dýrum þurfi að hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr og umhverfi þess og hæfni til veiða. Þannig er í rauninni verið að ýja að því að setja eigi upp skóla þar sem menn þurfi að fara á námskeið til þess að læra um hinar aðskiljanlegu tegundir og skotfimi. Þarna er komið að mjög dýru verkefni sem vart er ástæða til að stilla upp nema þá á sviði áhugafélaga því að þau eru til staðar. Þar fer fram ákveðin þjálfun og reynslu í skotfimi afla menn sér á almennri umgengni á veiðisvæðum. Þó auðvitað séu alltaf undantekningar er kannski best að treysta veiðimönnunum sjálfum fyrir því sem þeir eru að gera á ákveðnum veiðisvæðum. Því allur þorri veiðmanna ofgerir ekki veiðisvæðinu heldur reiknar með að geta komið þangað aftur.
    Í 18. gr. frv. segir að umhvrh. geti í reglugerð aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra tímamarka sem síðan er getið um. M.a. segir að frá 1. sept. til 1. maí megi aflétta friðun á álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda. Þetta þýðir að lundinn, sem er mest veiddi fugl landsins, sé alfriðaður yfir þann tíma sem hefðbundið veiðitímabil stendur yfir. Það er skýrt tekið á um þetta á þennan hátt. Þó að það komi fram í 19. gr. að hlunnindi veiti rétt til veiða á öðrum tímum en um getur í hugsanlegum reglugerðarbreytingum ráðherra, segir þar:
    ,,Á takmörkuðum svæðum þar sem kópaveiði, eggja- eða ungataka súlu, dílaskarfs, toppskarfs, fýls, skúms, hvítmáfs, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda, telst til hefðbundinna hlunninda, skulu friðunarðákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis.``
    Þarna er einungis sagt að á hefðbundnum veiðisvæðum megi stunda eggjatöku eða ungatöku. Lundaveiðin byggist ekki á ungatöku. Að vísu er kofutekja við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og víðar, en t.d. í öflugasta veiðisvæðinu, lundaveiðisvæðinu í Vestmannaeyjum, er lundapysja ekki tekin, hún er ekki veidd. Hefð er fyrir því og ekkert bendir til að það muni breytast. Almenn lundaveiði er samkvæmt þessu gersamlega bönnuð í frv. Þetta eru ,,lapsusar`` sem ég er alveg sannfærður um að koma inn hjá sérfræðingum sem þekkja ekki reynsluna í málinu. Er þetta gott dæmi um atriði sem þarf að breyta.
    Ég þykist viss um að frv. geri ekki ráð fyrir því í reynd að lundaveiði sé bönnuð. (Gripið fram í.) Þetta er í 19. gr. Ég skil engin rök fyrir því af hverju fjallað er um ákveðnar tegundir þarna vegna eggja- og ungatöku á skúm, ritu og teistu. Þessar veiðar eiga sér ekki stað, engin hefð er fyrir því neins staðar að eggja-eða ungatekja sé á þessum tegundum. Þarna kemur inn eitthvert tölvuprógramm sem er úr takt við allt sem heitir raunveruleikinn í veiðum og nytjum á Íslandi. ( Gripið fram í: Fýlsegg voru . . .  ) Já, ég taldi ekki upp fýlinn. Fýlsegg eru tekin, álkuegg og langvíuegg, en hvorki lunda-, teistu- né stuttnefjuegg. Mávaegg eru tekin en ekki aðrar tegundir sem þarna eru og ekki egg súlu, enda verpir súla á þriggja mánaða tímabili. Enginn íslenskur fugl verpir á eins löngum tíma á meðan til að mynda langvían verpir á viku tímabili. Þess vegna er kannski auðvelt að nytja langvíueggin. Þetta eru atriði sem ég vildi benda á og mætti þó tína ýmislegt fleira til sem orkar tvímælis.
    Þó svo að meginhluti frv. sé eðlilegur grunnur og til bóta eru þarna grundvallaratriði, sérstaklega sem varðar miðstýringuna. Slátra á þeirri hugmynd, þessari ströngu kortlagningu og skýrslugerð sem veiðimönnum er ætlað að framfylgja. Eðlilegt er að hafa eftirlit með stöðu stofna og fylgjast með því að hlutir fari ekki úr böndum en það eru bara aðrar stofnanir sem gera það. Það þarf ekki að fara að neyða menn í tómstundum sínum til að stunda skýrslugerð á fjöllum. Menn eru vart að fara upp á fjöll til þess að sitja þar við skýrslugerð á hnjánum og til þess er í raun ekki leikurinn gerður. Menn eru í flestum tilvikum að afla fæðu með vopnum og auðvitað er grundvallaratriði að halda því innan ákveðinna marka en þetta er langt út yfir allt sem hægt er að telja eðlilegt, að búa til sérfræðiapparat sem á að hlaða sérfræðingum á heiðar og fjöll í stað þess að þar séu ósköp sakleysislegir veiðimenn að sinna sínum tómstundaáhugamálum.
    Það segir í grein um ísbirni að eðlilegt sé að heimilt sé að fella birni við ákveðnar aðstæður þegar þeir ganga á land, en áhersla er lögð á það að til veiðanna séu notuð heppileg vopn eftir því sem hægt er. Ég hef verið nokkrum sinnum með hópum veiðimanna sem veiða ísbirni á Norður-Grænlandi og þegar maður hefur verið þar þá þykir mér mjög broslegt að tekið skuli fram í lagafrv. að lögð sé áhersla á að nota heppileg vopn eftir því sem hægt er. Ef menn þurfa að berjast við ísbjörn undir einhverjum kringumstæðum þá held ég að menn séu ekki að hugsa til þess hvað sé heppilegt eftir laganna bókstaf, heldur einfaldlega hvað þeir geti gert í þeirri stöðu. Það er líklega ekkert dýr á jörðinni sem er eins grimmt í návígi og björninn og þetta er vægast sagt barnalega tekið til orða og sýnir kannski hvað okkar ágætu sérfræðingar í þjóðfélaginu gera sér lítið grein fyrir því að við erum veiðimannaþjóð og lifum fyrst og fremst á veiðum þó að það sé ekki daglegt brauð að tala um það í huggulegheitunum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson kom inn á atriði sem varða selveiði. Ég held að þar sé einmitt atriði sem mætti kannski kveða fastar á um í slíku frv. vegna þess að hagsmunir bænda og sjávarútvegs rekast á. Í lögum er skýrt kveðið á um fyrir hönd bænda að þeir hafi rétt til þess að veiða við og á sínum landareignum. Bændur hafa haft tekjur af sölu selsskinna fyrst og fremst sem er mjög slök og hefur verið slök um langan tíma og ekki hefur verið nein búbót í sjálfu sér fyrir bændur að sinna þeim hlunnindum að drepa sel. Á hinn bóginn er sýnt að mjög þarf að fækka sel við landið og ganga að honum á ákveðnum svæðum þar sem aukning hefur orðið mjög mikil vegna þess að þar veldur selurinn gífurlegu tjóni á fiskstofnum. Svæðið í kringum Surtsey í Vestmannaeyjum er gott dæmi þar sem selur hefur aukist jafnt og þétt síðan sú eyja reis úr hafi. ( Gripið fram í: Þeim mun hafa fjölgað.) Þeim hefur fjölgað, fjölgað mjög markvisst eða ákveðið. Það er orðið venjulegt að afli báta sem veiða á þessum fengsælu miðum þar í kring sé verulega skemmdur af selbiti. Þetta er eitt dæmi um það að rök eru til þess að kveða fastar á í þessum efnum og hreinlega að skipuleggja fækkun á sel mun ákveðnar en til að mynda sjútvrh. hefur gert.
    Það má heldur ekki lenda í þeirri gildru að það sé ekki heimilt fyrir sjávarútvegsaðila að drepa sel ef það stangast á við hlunnindarétt bænda. Það stangast á eins og þetta er í dag. Og við skoðun á frv., sem mér finnst nú fyrst og fremst vera lagt fram til kynningar og skoðunar, held ég að það kosti mikla vinnu að ná þessu fram þannig að það verði öllum fullsæmandi.