Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 15:25:00 (4099)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. umhvrh. mælir fyrir og leggur fram er á margan hátt mikil nýjung og gerir ráð fyrir töluverðum breytingum á skipan þessara mála frá því sem áður hefur verið. Ekki fer á milli mála að margir hv. þm. sem hafa fjallað um þetta frv. á undan mér hafa varað mjög eindregið við ákveðinni miðstýringaráráttu sem væri falin í frv. Án þess að ég vilji gera lítið úr þeirri aðvörun vil ég þó taka fram að full þörf er á því að gera breytingu á skipan þessara mála og að mörgu leyti er nú rétti tíminn til þess. Það er svo að víða er ekki gripið til ráðstafana á þessu sviði fyrr en það er orðið heldur seint. Ég hef átt þess kost að kynnast svolítið veiðum á fuglum og spendýrum erlendis og þekki nokkuð til þeirra mála t.d. í Frakklandi og þar verður að segjast eins og er að þar er hið ömurlegasta ástand. Þar er búið að ganga svo nærri fjölmörgum stofnum fugla og dýra að það verður að flokkast undir meiri háttar slys. Það er með öðrum orðum ekki nógu gott að bíða þar til menn standa frammi fyrir slysinu og reyna þá að grípa til aðgerða. Það er rétt að grípa til aðgerða á meðan ástandið er tiltölulega viðunandi. Þannig er það á Íslandi að ástandið á stofnum fugla og raunar spendýra, þó að þar sé tegundavalið miklu fátæklegra, er tiltölulega gott. Hér er mikið af villtum dýrum ólíkt því sem er í Evrópu. Maður getur ferðast um Evrópu og um villt svæði Evrópu nánast dögum saman án þess að sjá eitt einasta kvikindi. Þar er veiðimennskan búin að ganga mjög nærri stofnunum en hér er ekki svo. Hér er einkum og sér í lagi mjög auðugt fuglalíf og að mörgu leyti er því rétt að taka á málum á meðan ástandið er tiltölulega gott.
    Að því er varðar þetta frv. þá gerir það ráð fyrir þó nokkurri miðstýringu, og þó nokkru valdi ráðherra í þessum efnum. Ég vil taka fram að mér finnst full ástæða til þess að skoða mjög rækilega hvort þarna er um að ræða of mikla miðstýringu eða of mikið vald sem ráðherra er fengið. Ég vil þó ekki lýsa því yfir hér og nú.
    Hins vegar ætla ég að segja strax að mér finnst það atriði mjög jákvætt í þessu frv. er varðar 11. gr. og er ég þá kannski ekki einkum og sér í lagi að fjalla um það hvernig hún er orðuð í frv. heldur þann anda sem á bak við greinina er. Það er mjög mikils virði fyrir stjórnvöld og fyrir málaflokkinn almennt að upplýsingar berist réttum aðilum frá þeim mönnum sem gerst þekkja. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að nýta með ýmsum hætti þá miklu þekkingu sem veiðimenn hafa á fuglastofnum landsins og dýrastofnum. Það er raunar svo að ég býst við að enginn einn hópur manna eða flokkur hafi eins mikla þekkingu á þessum málum og veiðimennirnir. Fyrir utan það er í hópi veiðimanna að finna vaxandi fjölda manna sem hafa jafnmikinn áhuga á umhverfismálum og á veiðum og eru hinir dyggustu umhverfismálamenn og áhugamenn um umhverfisvernd þó að þeir séu á sama tíma veiðimenn. Ég vona að menn geri sér grein fyrir þessu.
    Að því er varðar þessa grein sérstaklega þá langar mig til þess að benda, með leyfi forseta, á eftirfarandi málsgrein er varðar veiðikort: ,,Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, svæðis sem kortir gildir á, gildistímabils, tegunda og fjölda dýra af hverri tegund sem viðkomandi hefur leyfi til að veiða.``
    Mér finnst að orðanna hljóðan gefi tilefni til að ætla að tekið verði upp of flókið kerfi. Ég hygg að almennt sé til bóta að það sé gefið út almennt veiðikort. Það veiðikort gefi mönnum leyfi til þess að stunda allar almennar veiðar. Ég á þá t.d. við að ekki á að gefa út sérstakt veiðikort á rjúpu og svo annað á grágæs heldur eiga menn að hafa, ef þeir hafa veiðikort, leyfi til þess að stunda veiðar á þessum fuglum almennt samkvæmt lögum sem segja þá til um það hvernig slíkt skuli fara fram. Ef hins vegar er um

að ræða veiðar á tegundum sem þarf að þrengja rammann um gildi um það sérstök ákvæði.
    Eins tel ég rétt að fullkomlega sé skilið á milli heimildar til að eiga skotvopn og fara með það annars vegar og veiðikorts hins vegar. Margir menn fara með skotvopn en skipta sér ekkert af veiðum. Á landinu eru starfandi nokkrir skotklúbbar þar sem menn iðka íþróttir sínar án þess að það komi nokkuð veiðum við í sjálfu sér þó að margir þeirra stundi veiðar líka. En það er rétt að hafa þetta fullkomlega aðskilið.
    Ýmis atriði í þessu frv. orka tvímælis og verða vafalaust felld út úr frv. í meðferð þess í þinginu og öðru þarf að breyta. Ég vil taka undir það sem hv. 3. þm. Suðurl. sá athugavert við 17. gr. sem fjallar um hvítabirni en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af. Sé þess nokkur kostur skal nota til þess riffil af stærðinni cal. 243 eða stærri.``
    Þetta er að sjálfsögðu heilræði og má spyrja hvort eðlilegt sé að slík heilræði eigi erindi inn í lagatexta fyrir svo utan það að einnig má efast um það að sú stærð á hlaupvídd sem þarna er nefnd komi að gagni. Þarna er verið að tala um 243 sem eru þá 0,243 úr tommu. Þetta er minni hlaupvídd en Grænlendingar nota sem þekkja þessi dýr og skjóta svolítið af þeim þó að það sé undir ströngu eftirliti. Mér er kunnugt um það að hjá þeim er notuð hlaupvíddin 0,306 sem er þó nokkuð miklu stærri kúla en að sjálfsögðu er alltaf gert ráð fyrir því að með slíkum vopnum sé hægt að fella skepnuna. Ef menn á annað borð hafa hug á því að skjóta inn í lagabálkinn heilræði til þeirra sem ætla að bjarga lífi sínu undan þessum skepnum þá þykir mér nú skemmtilegra að heilræðið sé þá sett fram af fullri þekkingu á málinu þannig að hlaupvíddin dugi til að stöðva dýrið. En annars legg ég til að atriði eins og þetta verði fellt brott úr lagatextanum. Ég tel að löghlýðnir Íslendingar lendi í vandræðum með þennan lagatexta ef þeir mæta ísbirni.
    Í 18. gr. frv. eru einnig atriði sem þarf að skoða nokkuð frekar. Ég hafði því miður ekki tækifæri til þess að hlýða á ræðu hv. 3. þm. Suðurl. þar sem hann gerði einmitt sérstaklega lundaveiðarnar að umtalsefni en ég vil hins vegar geta þess að í greininni er heimildarákvæði til umhvrh. sem getur í reglugerð aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra tímamarka sem svo eru tilgreind. Og 3. liður þessara tímamarka er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Frá 1. sept. til 1. maí. Álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.``
    Mér er kunnugt um að á Norðurlandi er svartfugl einkum og sér í lagi skotinn í byrjun maí þannig að ef þetta yrði að lögum þá væri verið að þrengja mjög verulega að svartfuglsveiðum, t.d. Grímseyinga, án þess að nokkur ástæða sé til þess að mínu mati.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að svartbakur, sílamávur, silfurmávur, kjói og hrafn eru nánast réttdræpir allt árið en svo er ekki um hettumávinn en ég tel nú lítil rök standa til þess að hettumávurinn sé undanskilinn því. Aftur á móti er bjartmávur í hópi með hettumávinum og ritunni og er spurning hvort ekki er ástæða til að leyfa bjartmávinum að vera í friði allt árið af því að hann er afar sjaldgæfur fugl.
    Þá er það 19. gr. sem mig langar til þess að gera að umtalsefni en 7. kaflinn fjallar um nýtingu hlunninda. Í þessari grein er að finna atriði sem ég vil afla upplýsinga um og væri gott að fá svar við því í orðum hæstv. umhvrh. hér á eftir. Tekið er fram þar hvernig skuli fara með egg sem tekin eru í andavarpi. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, þá málsgrein sem um þetta fjallar:
    ,,Á takmörkuðum svæðum þar sem andavarp er mikið skal veiðirétthafa heimilt að taka andaregg en við eggjatökuna skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Undanþága þessi tekur ekki til gargandar, skeiðandar, skutulandar, hrafnsandar, straumandar eða gulandar. Þá skal og taka grágæsar- eða heiðagæsareggja heimil en þó skal ávallt skilja eftir í hreiðri eigi færri en tvö egg. Egg sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.``
    Ég vil í fyrsta lagi spyrja að því hvort ekki sé nóg að setja ákveðnar reglur um það með hvaða hætti skuli vera heimilt að nýta þessi hlunnindi. Ég sé ekki í fljótu bragði ástæðu til þess að þrengja heimildir þeirra sem hafa þessi hlunnindi til þess að selja eggin ef þeir hafa tekið þau með lögmætum hætti eða ráðstafa þeim á annan hátt. Að vísu segir um þessa grein: ,,Flest þessara hlunninda skipta litlu máli fyrir afkomu manna nú á tímum.`` Það er nú svo. Ég sé ekki að þetta séu í sjálfu sér efnisleg rök í málinu þó að þetta skipti litlu máli fyrir afkomu manna nú á tímum. Það kann að vera að menn líti svo á að þarna sé um að ræða rétt sem menn hafa. Ef þeir fara að lögum, þá eigi þeir að hafa ráðstöfunarrétt á þessum hlunnindum.
    Ég vil einnig taka fram að það orkar að mínu mati nokkurs tvímælis hvort rétt er að láta undanþágu þessa ekki taka til hrafnsandar. Það er nú svo að Mývetningar hafa lengi nýtt þessi hlunnindi. Þeir hafa einkum og sér í lagi nýtt eggjatöku hjá þremur andategundum. Þeir hafa farið í hreiður dugganda, húsanda og þeirra tegunda sem Mývetningar kalla gráendur. Gráendur finnum við ekki í fuglabókum en gráendur nefna Mývetningar rauðhöfðaönd og grænhöfðaönd eða stokköndina og þeir hafa nýtt þessar fjórar tegundir samkvæmt fuglabókunum eða þrjár samkvæmt hefðbundinni orðanotkun Mývetninga. En auk þess hafa þeir nýtt hrafnsandaregg þegar vel árar. Þeir hafa hins vegar sett strangari reglur um nýtingu þessara hlunninda en hér er gert ráð fyrir því að Mývetningar hafa alla jafnan sett sér þá vinnureglu að skilja eftir sex egg í hreiðri í staðinn fyrir fjögur eins og hér er sett. Ég held að það ætti að taka betur til athugunar hvaða tegundir þarna er um að ræða. Mestu máli skiptir að þeir sem hlunnindin eiga fari vel með stofninn og ef þeir fara þar að lögum á þeim að vera heimilt að nota hlunnindi sín eins og þeim sýnist,

tel ég vera.
    Ég held að ég hafi í stuttu máli fjallað um nokkur atriði sem mér sýnist að sé full ástæða til að taka til nánari endurskoðunar. Hins vegar sýnist mér að þegar þetta frv. fer til umfjöllunar í umhvrn. sé rétt að skoða frv. í heild út frá því hvort þar felist of mikil miðstýring en ég tel hins vegar ekki að þær athugasemdir sem hafa komið fram hrófli við frv. í grundvallaratriðum. Það er mjög eðlilegt að slík athugun fari fram í nefnd þegar verið er að taka á máli sem hefur lotið lítilli stjórn hingað til og verið er að skoða það frá nýjum sjónarhóli.