Sala raforku til skipa í höfnum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:53:02 (4116)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. iðnrh. Eins og þekkt er er mjög mikil ónýtt raforka í landinu og mjög mikilvægt að leita allra leiða til að bæta stöðu orkusölufyrirtækjanna með því að stækka markað þeirra fyrir raforku. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnrh. hvað hann hyggist gera til þess að skapa möguleika fyrir bæði fiskiskip og önnur skip í höfnum landsins til þess að eiga aukin viðskipti við raforkufyrirtæki og geta keypt raforku í stað þess að nýta olíu fyrir skipin þann tíma sem þau eru í höfnum landsins.