Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:09:00 (4128)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og haft hefur verið eftir talsmönnum Alþýðusambandsins m.a. á undanförnum fáum dögum þá kemur glöggt fram hjá þeim að þeir lýsa því að sá skilningur ríki að ríkisstjórnin hafi fullan hug á því að gera allt það sem í hennar valdi stendur til að stuðla að því að kjaraasamningar náist með skaplegum hætti. En það er auðvitað okkar markmið, ríkisstjórnarinnar eins og allra annarra, að sú skerðing á sameiginlegum tekjum þjóðarinnar sem orðið hefur verði ekki til þess að þeir sem verst standa fari enn verr út úr því áfalli en aðrir. Ég hygg að það séu allir samstiga í þeim efnum, þeir vilji leitast við að þeim sameiginlega skaða, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir, sé mætt með þeim hætti að hann verði ekki verri en ella. Það vita allir að við þessar aðstæður eru menn ekki að tala um kaupmáttaraukningu. Ég hygg að enginn geri því skóna að hægt sé að tala um kaupmáttaraukningu við þessar aðstæður. Við höfum hins vegar lýst því yfir að við munum leitast við að tryggja þann grundvöll að samningum sem aðilar vinnumarkaðarins telja mikilvægastan, þ.e. að gengisgrundvöllurinn sé tryggður, að skilyrði skapist til þess að vextir megi fara lækkandi og þar með skapist forsendur fyrir því að hjól atvinnulífsins nái að snúast. En það er meginverkefni okkar sem og þeirra sem eru að semja núna um um sanngjörn kjör miðað við erfiðar aðstæður, að reyna að stuðla að því að atvinnulífið í landinu styrkist.