Tilkynning um atkvæðagreiðslu

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:14:00 (4130)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Til að það komist skilmerkilega á framfæri hvaða hlut Alþb. hefur átt í þeirri umfjöllun sem hefur orðið um þetta mál mun ég lesa upp þau tvö bréf sem þingflokkur Alþb. hefur átt hlut að ásamt þingflokki Framsfl. og Kvennalistans.
    Fyrra bréfið er frá 3. mars og er svohljóðandi:
    ,,Þingflokkur Alþýðubandalags, þingflokkur Framsóknarflokks og þingflokkur Samtaka um kvennalista óska eftir því við forseta þingsins að forsætisnefndin verði kölluð saman og fjalli um þann alvarlega atburð sem átti sér stað við atkvæðagreiðslu á Alþingi fimmtudaginn 27. febr. sl. Einnig fjalli nefndin um þær umræður og yfirlýsingar sem hafa verið í fjölmiðlum í kjölfarið. Að lokinni þeirri umfjöllun óska þingflokkarnir eftir því að forsætisnefndin birti yfirlýsingu sína varðandi þennan atburð að höfðu samráði við fulltrúa þingflokka.
    Þar til niðurstaða forsætisnefndarinnar liggur fyrir fara fulltrúar þessara þingflokka fram á að rafbúnaður verði ekki notaður við atkvæðagreiðslur þingsins enda fari atkvæðagreiðslan fram skv. 2. mgr. 66. gr. þingskapalaga.``
    Síðara bréfið er frá 4. mars og það hljóðar þannig:
    Borist hefur bréf frá forsætisnefnd Alþingis dags. 4. mars 1992.
    Í bréfinu kemur fram að Matthías Bjarnason alþingismaður hefur sl. föstudag harmað mistök sín við atkvæðagreiðslu 27. febr. sl. og hefur beðið forseta afsökunar á þeim mistökum. Teljum við að þessi niðurstaða sé eftir atvikum með þeim hætti að við munum ekki aðhafast frekar í málinu af okkar hálfu.
    Það mál sem hér um ræðir er hins vegar svo alvarlegt að óhjákvæmilegt er að ganga skýrar frá niðurstöðum en forsætisnefndin hefur gert til þessa. Það er gagnrýnisvert að forseti Alþingis hefur ekki fyrr en í gær skýrt frá því að Matthías Bjarnason hafi beðist afsökunar á mistökum sínum 27. febr. sl. Uppgjör og greining þeirra mistaka er ekki aðeins mál milli forsetans, það er mál sem snertir virðingu Alþingis og er mál þingsins og þjóðarinnar. Atkvæðagreiðslur á Alþingi verða að ganga eftir svo öruggum brautum að þjóðin geti treyst því að rétt sé farið með formsreglur í einu og öllu. Hver þingmaður er bundinn af samvisku sinni og hver þingmaður undirritar eiðstaf er hann tekur sæti á Alþingi. Það er því hverjum einasta þingmanni skylt að taka þátt í uppgjöri máls af því tagi sem kom upp 27. febr. sl.
    Við teljum óeðlilegt að forsætisnefndin skuli ekki fjalla sérstaklega um ummæli einstakra þingmanna um þetta mál utan þingsins. Þannig hefur Árni Johnsen alþingismaður fullyrt að atburðir af þessu tagi, að einn þingmaður hafi greitt atkvæði fyrir annan, hafi komið fyrir aftur og aftur. Þá hefur komið fram að þingmaðurinn hafi beðið Matthías Bjarnason um að greiða atkvæði fyrir sig.
    Við teljum, eins og áður hefur komið fram af okkar hálfu, að forsætisnefndin hefði átt að fara yfir þetta mál og birta þjóðinni niðurstöður sínar um málið í heild. Það er hlutverk forsætisnefndarinnar og forsetans að gæta virðingar Alþingis og því hefði verið eðlilegra að taka á þessum yfirlýsingum sérstaklega. Því hafnar forsætisnefndin og það er fráleit afstaða að okkar mati.
    Þá hefur það komið fram í ummælum Árna Johnsen utan þings að atkvæðagreiðslur hafi mismunandi þýðingu og við teljum gagnrýnivert að forsætisnefndin tekur á vissan hátt undir þau sjónarmið í bréfi sínu með því að kalla sumar atkvæðagreiðslur ,,formsatriði``. Allar atkvæðagreiðslur hafa efnislegt innihald og eru því allar nauðsynlegar og það er beinlínis hættulegt að forsætisnefnd Alþingis geri minna úr einni tegund atkvæðagreiðslna en annarri.
    Að öðru leyti teljum við ástæðu til að gera ýmsar athugasemdir við bréf forsætisnefndarinnar þar sem við teljum svör hennar ófullnægjandi og óviðunandi að ýmsu leyti.
    Við umræður um þessi mál að undanförnu hefur athygli manna beinst að mörgum þáttum atkvæðagreiðslna með þeim nýja vélbúnaði. Þannig hefur verið bent á hve alvarlegt það er að þingmaður getur látið vera að greiða atkvæði, þó að hann sé í salnum, og þar með er hann skráður fjarverandi. Atkvæðagreiðsla með vélbúnaði getur því gefið ranga mynd af hinum pólitíska veruleika í þingsalnum. Við teljum það engu breyta um atkvæðagreiðslur með vélbúnaðinum og ekki bæta á neinn hátt úr ágöllum hennar þó að einstakir þingmenn fái yfirlit um niðurstöður hinna vélrænu atkvæðagreiðslna eftir á, eins og boðið er fram í bréfi forsætisnefndarinnar. Það ber að ítreka í þessu sambandi að opin atkvæðagreiðsla þar sem öllum er ljóst hvernig hver þingmaður greiðir atkvæði er grundvallarregla íslenskra þingskapalaga. Þá reglu ber að virða í einu og öllu og ekkert má gera af hálfu forseta Alþingis né þingmanna sem teflir því grundvallaratriði í tvísýnu.
    Af þessum ástæðum og með hliðsjón af fyrri umræðum er líklegt að þingmenn muni í vaxandi mæli í öryggisskyni óska nafnakalls og atkvæðagreiðslu með handauppréttingu sem er reyndar aðalregla skv 2. mgr. 66. gr. þingskapalaga.
    Við förum þess á leit við forseta Alþingis að gerð verði grein fyrir málinu í heild með ítarlegri yfirlýsingu af forsetastóli þar sem m.a. verði lesin upp í heild þau bréfaskipti sem fram hafa farið um mál þetta þannig að niðurstöður verði skráðar í þingtíðindi að svo miklu leyti sem þær liggja enn fyrir.