Ný störf á vegum ríkisins

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:50:00 (4134)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ég held að allir þingmenn séu sammála um að ákvæði 64. gr. þingskapalaga eru ótvíræð og þeim þingmönnum sem eru á þingfundi ber að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Öllum þingmönnum sem ekki hafa lögmæt forföll ber að taka þátt í starfsemi fundarins og þá verður eitt yfir alla að ganga. Það vakti athygli mína að hæstv. umhvrh. gekk út úr þingsalnum. (Gripið fram í.) Þá er það upplýst. Eftir sem áður er trekk í trekk búið að vera misræmi í niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar miðað við þá tölu sem hæstv. forseti hefur gefið upp um fjölda viðstaddra þingmanna í þingsalnum. Við höfum horft á þingmenn ganga út og inn úr salnum og taka ýmist þátt í atkvæðagreiðslunni eða ekki. Ég hygg því, herra forseti, að ef koma á skikk á þá framkvæmdatilhögun sem verið er að prófa verði að koma reglu á það að menn sitji um kyrrt inni í þingsalnum og taki þátt í atkvæðagreiðslunum. Ef ekki vill betur til verður að loka dyrum þingsalarins þannig að þessu rápi út og inn úr salnum linni. Ella mun það sýna sig að þessi tilhögun er óframkvæmanleg og tekur það langan tíma að við yrðum fljótari að ljúka öllum atkvæðagreiðslum með nafnaköllum. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að hann reyni að tryggja það að sami fjöldi þingmanna haldist inni í þingsalnum á meðan á atkvæðagreiðslunum stendur.