Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 15:26:00 (4143)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara sem er á þskj. 432. Frv. er flutt í framhaldi af ákvörðun um að gefa innflutning á öllum olíuvörum frjálsan. Eins og kunnugt er hefur viðskiptafrelsi verið aukið á síðustu árum, bæði í vöruverslun og á fjármagnsmarkaði. Að landbúnaðarvörunum slepptum voru innflutningstakmarkanir á olíuvörum í reynd síðustu leifarnar af ríkisafskiptum af innflutningi. Sl. haust voru síðustu hömlurnar á innflutning olíuvara til landsins felldar úr gildi með reglugerð. Þessi breyting tók gildi um síðustu áramót. Ég vek athygli þingheims á því að þá féllu einnig úr gildi síðustu samningarnir við sovéska ríkisolíufélagið, sem gerðir voru af viðskrn. fyrir hönd olíufélaganna, um kaup á gasolíu og svartolíu. Allt frá árinu 1953 gerði viðskrn. samninga um olíuinnkaup frá Sovétríkjunum en framseldi þá síðan í hendur olíufélögunum. Á sama tíma voru jafnan í gildi hömlur á frjálsum innflutningi olíuvara.
    Upphaflega voru viðskiptin við Sovétríkin í formi vöruskiptaverslunar en frá 1. jan. 1976 hafa þau

farið fram í frjálsum gjaldeyri, venjulega Bandaríkjadollurum. Verðviðmiðunin á olíuvörum var síðustu árin bundin við skráningu olíuverðs á markaði í Vestur-Evrópu. Frjáls innflutningur á olíuvöru hafði það jafnframt í för með sér að viðskrn. hefur ekki verið samningsaðili að olíukaupum frá sl. áramótum. Íslensku olíufélögin annast nú sjálf olíukaupin til sinna þarfa eins og eðlilegt má telja.
    Af fullu frjálsræði í olíukaupum leiðir að taka þarf afskipti verðlagsyfirvalda af ákvörðun olíuverðs til endurskoðunar frá sl. áramótum og hefur Verðlagsráð fjallað um það efni nú að undanförnu. Til þess að tryggja aukna verðsamkeppni í sölu olíuvara á Íslandi þarf einnig að taka lagaákvæðið um jöfnun innkaupsverðs og um jöfnun flutningskostnaðar til endurskoðunar. Það er einmitt tilgangur þess frv. sem við ræðum í dag. Frv. er ætla að koma í stað laga um Flutningsjöfnunarsjóð fyrir olíu og bensín nr. 81 frá 4. júlí 1985. Samkvæmt þeim lögum hefur flutningsjöfnunin náð bæði til sjóflutninga og landflutninga þannig að verðið á hverri olíutegund hefur verið hið sama hvar sem er á landinu meðfram allri ströndinni og inn á hálendið. Opinber flutningsjöfnun er þannig til komin að talið hefur verið rétt að jafna misþungan flutningskostnað einstakra olíufélaga með greiðslum úr svonefndum Flutningsjöfnunarsjóði. Í dag hefur sjóðurinn haft tekjur af sölu olíuvara á stöðum nærri innflutningshöfnunum en þeim mun meiri kostnað af dreifingu olíuvara því fjær sem sölustaðurinn er frá innflutningshöfn. Flutningsjöfnunargjaldið á hverri olíutegund hefur því endurspeglað meðalflutningskostnað á hvern lítra eða hvert tonn þegar litið er á landið í heild á hverjum tíma. Stjórn sjóðsins hefur gert tillögur til Verðlagsráðs um upphæð flutningsjöfnunargjaldsins einu sinni eða oftar á ári. Gjaldið er um þessar mundir 1,04 kr. á lítra af bensíni, 1,20 kr. á lítra af gasolíu og 1,08 kr. á hvert kg af svartolíu.
    Virðulegi forseti. Þær meginbreytingar sem frv., sem hér liggur frammi, felur í sér frá gildandi lögum, eru þrjár.
    Í fyrsta lagi er lagt til að horfið verði frá því að jafna flutningskostnað við landflutninga á olíuvörum. Þessi kostnaður nemur um 40% af heildarkostnaði við flutningsjöfnun á olíuvörum eins og dreifingarkerfið er nú. En ég vek athygli á því að ekki er þar með sagt að þetta hljóti að vera svo vegna þess að flutningskerfið, dreifingarkerfið, er að sjálfsögðu að hluta til afleiðing af jöfnunarkerfinu sem hefur verið við lýði um langan aldur. Ég vek líka athygli á því að samkvæmt tillögum frv. yrði áfram flutningsjöfnun á olíuvörum sem fluttar eru með skipum til allra meginhafna á landinu, þ.e. hafna þar sem birgðastöðvar eru í dag. Þetta frv. gerir því efnislega ráð fyrir að a.m.k. 60% af flutningskostnaðinum verði áfram jöfnuð. Því til viðbótar má gera ráð fyrir að olíufélögin jafni sjálf kostnað á flutningi með bifreiðum af sinni álagningu enda eru þau víða í samkeppni á stöðum sem þurfa á landflutningum að halda.
    Í öðru lagi felur frv. það í sér að öll núgildandi lagaákvæði um innkaupajöfnun verði úr gildi numin. Innkaupajöfnunarreikningur svonefndur er í dag látinn jafna sveiflur á verði bensíns og brennsluolíu á milli einstakra olíufarma sem til landsins berast. Þar sem verðlagning og innflutningur á olíuvörum hefur nú verið gefinn með öllu frjáls hverfur að sjálfsögðu þörfin fyrir sértök lagaákvæði um innkaupajöfnun þar sem olíufélögin hafa það nú sjálf í hendi sér hvernig þau standa að sinni verðlagningu. Niðurfelling þessara lagagreina um innkaupajöfnun er því rökrétt framhald af því að olíuflutningur til landsins og verðlagning á olíu hefur nú verið gefin frjáls. Með þessu er auðvitað að því stefnt að samkeppni aukist milli olíufélaganna um innkaupsverð á olíuvörum til landsins þannig að þau hafi frjálsari hendur um innkaup og verðlagningu en verið hefur og keppi á því sviði þar sem þau eiga að keppa, að útvega landsmönnum sem ódýrastar olíuvörur.
    Þriðja breytingin sem frv. felur í sér er sú að hér er lagt til að afnumið verði ákvæði í gildandi lögum um það að söluverð á olíuvörum skuli vera hið sama til sömu nota hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans hvar sem er á landinu eins og nú er í lögum. Í stað slíkra ákvæða er hér lagt til að komi ákvæði þess efnis að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum afgreiðslustöðvum hans. Hér er að minni hyggju e.t.v. gengið skemmra en æskilegt hefði verið til þess að auka samkeppni í sölu á olíuvörum en ég leyfi mér að benda á að hið auglýsta verð, samkvæmt þessum lagaskilningi eða skilningi á þessu ákvæði frv., er hámarksverð og hver söluaðili getur veitt afslátt frá því verði, t.d. í sambandi við útboð eða stóra viðskiptasamninga.
    Virðulegi forseti. Þeim breytingum sem frv. felur í sér er, eins og þær bera með sér, ætlað að efla samkeppni í sölu á olíuvörum. Eins og ég hef þegar nefnt var stigið mikilvægt skref í þessa átt um áramótin síðustu þegar innflutningur á olíuvörunum var gefinn frjáls en sú ákvörðun lagði jafnframt grunn að því að verðmyndun yrði gefin frjáls á þessum vörum. Í framhaldi af þessu ákvað Verðlagsráð í byrjun síðasta mánaðar að afnema verðlagsákvæði af þessum vörum. Þessar tvær mikilvægu ákvarðanir um frelsi í innflutningi og afnám verðlagsákvæða vega þyngst í því að efla samkeppnina á þessu sviði. Gildandi lög um flutningsjöfnun á olíu og bensíni hafa verið ákveðin hindrun í því að þessi samkeppni næði að þróast og frá frjálsum innflutningi á olíu fá olíufélögin aðhald þar sem stórnotendur, eins og t.d. fiskmjölsverksmiðjur, geta nú, ef þær svo kjósa, sjálfar flutt inn olíu ef þær telja það hagkvæmara fyrir sig.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á 10. gr. frv. en þar er í 1. mgr. ítrekað að lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti gildi um olíuviðskipti með því eina fráviki sem af jöfnun flutningskostnaðar leiðir sem þetta frv. fjallar um. Verðlagsráð mun fjalla um verðlagningu á olíuvörum á þann hátt að því ber að fylgja því eftir og líta eftir því að frjáls samkeppni ríki á þessu sviði og hefur að sjálfsögðu heimildir til að grípa inn í ef um er að ræða samráð söluaðila eða misnotkun á markaðsaðstöðu.

    Í 2. mgr. 10. gr. segir að þó skuli miða við að ,,auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum hans um allt land. Hið sama gildir um gasolíu og bensín, sem afgreitt er í birgðageyma við lögheimili aðila, er þar stunda fasta staðbundna starfsemi.``
    Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir, eins og ég hef þegar nefnt, að olíufélögin veiti einstökum kaupendum afslátt í samningum. En þau hafa jafnan borið fyrir sig orðalag í núgildandi lögum þegar reynt hefur verið að bjóða út olíukaup stórra kaupenda og talið sig skorta lagaheimildir til þess að bjóða hagstæðara verð, selja á mismunandi verði. Hið auglýsta verð er hins vegar hámarksverð og eins konar trygging neytenda og það er ekkert því til fyrirstöðu að veita frá því afslætti eins og ég hef þegar lýst. Þetta auglýsta verð mun gilda fyrir alla almenna afgreiðslustaði olíufélaganna en seljandi getur haft annað verð utan þeirra, t.d. ef nauðsyn krefur að flytja olíuvörur til neytenda sem eru með verktakastarfsemi inni á hálendinu, svo ég taki dæmi, þar sem núgildandi flutningsjöfnunarkerfi hefur að mínu áliti leitt til óeðlilegrar verðmyndunar.
    Með þeim breytingum sem þetta frv. felur í sér er enn frekar dregið úr þeim opinberu samkeppnishömlum sem ríkt hafa á þessu sviði undanfarna áratugi. En um leið er þó tryggð áfram að verulegu leyti jöfnun á flutningskostnaði þessarar mikilvægu vöru.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.