Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 16:19:00 (4146)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég vil í nokkrum orðum taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á frv. Mér finnst gæta mótsagna í því og í reynd ekki alveg ljóst að hverju er stefnt með flutningi þess.
    Það hefur komið fram að ein af forsendum þess að frv. er flutt sé sú breyting sem orðið hefur á olíuviðskiptum milli Íslands og annarra landa og þá sérstaklega sú staðreynd að viðskipti milli Íslands og Sovétríkjanna hafa breyst mikið, nánast lagst af --- eða réttara sagt hafa viðskipti við þau lýðveldi, sem nú hafa tekið við af hinum gömlu Sovétríkjum, ekki komist í það horf sem áður var.
    Ég vil minna á þá staðreynd að þessi viðskipti voru Íslendingum hagstæð. Þau tryggðu markað fyrir vöru sem ekki var annars staðar, t.d. saltsíld og þau tryggðu jafnframt góðan markað fyrir karfa, sem dýrt er að vinna í neytendapakkningar hér á landi en hefur reynst hagstætt að flytja út t.d. til Sovétríkjanna ef ekki hefur þurft að leggja eins mikla vinnu í viðkomandi vöru og gengur og gerist með markaði á Vesturlöndum.
    Okkur er að sjálfsögðu mikilvægt að komast inn á þessa markaði á nýjan leik. Við verðum að líta til þeirrar staðreyndar að gjaldeyrir í hinum nýju ríkjum er af mjög skornum skammti og langlíklegast að hægt sé að koma þar á viðskiptum með einhvers konar vöruskiptum eins og kunnugt er. Mér finnst þess gæta í of miklum mæli að það sé talið af hinu góða að þessi viðskipti séu ekki lengur fyrir hendi. Ég tel mikilvægt að þeim möguleikum sé haldið opnum og óttast að hæstv. núv. ríkisstjórn telji frjálsræðið svo mikils virði í þessum efnum að lítið megi af mörkum leggja til að endurheimta eitthvað af þessum viðskiptum. Ég minni t.d. á hvernig staðið var að síldarmálinu sl. haust.
    Að öðru leyti á að sjálfsögðu ekki að blanda þessum málum saman eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. tók hér fram. Aðalspurningin er þessi: Eru hv. þm. meðmæltir því að jöfnuður eigi sér stað á ýmsum sviðum í landinu eða eru menn á því að hin frjálsa samkeppni og markaðurinn eigi að leysa öll mál? Ég býst við því að flestir aðhyllist frjálsa samkeppni og undirstriki mikilvægi markaðarins á þessu sviði en því eru þó nokkur takmörk sett hvað þessi lögmál geta leyst í okkar strjálbýla landi. Það hefur komið mjög skýrt fram að undanförnu að vöruverð úti um land er mun hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur t.d. komið fram að ákveðnir söluaðilar selja vörur á mun hærra verði út á land en hér á höfuðborgarsvæðinu til dreifingaraðila. Landsbyggðin stendur þannig undir þeim herkostnaði sem því fylgir að stunda hina miklu samkeppni á þessu svæði. Þetta er vissulega gott fyrir þá aðila sem hér búa en jafnslæmt fyrir þá sem eru lengra frá höfuðborginni.
    Á vissum sviðum hefur þó verið bærileg samstaða um að jafna lífskjörin. Það á við um orkugjafa að nokkru leyti og á það hefur verið lögð áhersla að halda áfram á þeirri jöfnunarbraut. Rafmagn var selt á sambærilegu verði víðs vegar um landið þótt þar skorti allmikið á í dag. Það hefur átt við um vörur eins og sement og það hefur átt við olíu og bensín.
    Nú verð ég að ætla það að hæstv. viðskrh. sé þeirrar skoðunar að jöfnun að þessu leyti eigi að vera til staðar í landinu. Mér fannst hins vegar að hann legði afskaplega mikið upp úr því í sinni ræðu að fjalla hér um frjálsa samkeppni og samkeppni milli aðila en legði minna upp úr því að ræða hvernig sæmilegri jöfnun yrði komið á. Það þarf ekki að vera svo, hæstv. viðskrh., að þessi orð standi hvort gegn öðru. Þau geta farið saman og það er viðfangsefni sem menn hafa hér að glíma við.
    Eins og fram hefur komið þá stendur til, svo ég taki dæmi samkvæmt drögum að reglugerð sem hér fylgir með, að gasolía á Norðausturlandi, t.d. á Vopnafirði eða Bakkafirði, eða a.m.k. á Vopnafirði, Þórshöfn og Raufarhöfn, verði seld á sama verði og gasolía annars staðar í landinu. Það er gert ráð fyrir því að verðjöfnun nái til þessara hafna.
    Hæstv. viðskrh. segir að verðjöfnun muni ná að því er bensín varðar til viðkomandi hafna í gegnum verðjöfnun olíufélaganna sem þar selja með því að gert sé ráð fyrir því að þau auglýsi sama verð um allt land. Nú er flutningskostnaður á bensíni til þessara staða upp undir 7 kr. á lítra eða miklu hærri en nemur heildarálagningu. Er það mjög líklegt að olíufélögin vilji stunda slík viðskipti? Gengur hæstv. viðskrh. út frá því sem vísum hlut að olíufélögin séu full af slíkri sanngirni og góðsemi að þau gangi út í það eins og ekkert sé að selja bensín með bullandi tapi á þessum stöðum? Gerir hæstv. viðskrh. ráð fyrir því að miklu meiri sanngirni ríki hjá olíufélögunum en hjá núv. ríkisstjórn? Það má vel vera að það sé miklu meiri sanngirni hjá olíufélögunum en í ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Ég er farinn að halda að það geti jafnvel verið svo að það sé rétt hjá hæstv. viðskrh. að meiri sanngirni muni gæta hjá oíufélögunum.
    Ég verð að játa, hæstv. viðskrh., þótt ég hafi miklar efasemdir um sanngirni í ráðuneyti Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., að ég hef enga sannfæringu fyrir sanngirninni hjá olíufélögunum, enga sannfæringu fyrir því. En það má vel vera að hæstv. viðskrh. sé búinn að starfa svo lengi með þessum aðilum að hann treysti á það í blindni. Mér sýnist að allur málatilbúningurinn geri ráð fyrir að því megi teysta. Ég óttast hins vegar að það verði niðurstaðan að menn muni ekki standa lengur í því að selja bensín á þessum stöðum, þeir muni hætta því og þá sé ekkert annað að gera en að viðkomandi aðilar sæki sér þetta bensín með miklu meiri kostnaði eða þá skipta yfir í dísilbifreiðar. Auðvitað er hægt að breyta yfir í dísilbifreið og nota gasolíu. En þá er nauðsynlegt að breyta skattlagningunni á þeim bifreiðum þannig að einhverrar sanngirni sé gætt og gefa mönnum aðlögunartíma að því.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Mér sýnist að þar sé í reynd gert ráð fyrir því að þeir sem fjærst búa höfuðstöðvum landsins eigi að greiða hærra bensínverð þótt það sé ekki sagt. Væri miklu heiðarlegra að gera það beint. Ég er andvígur slíkri stefnu þótt ég viðurkenni það vissulega að þörf er á að gera hér einhverjar breytingar. Það er ekki sama ástæðan til þess að vera með verðjöfnun uppi á hálendinu svo ég nefni dæmi, hæstv. viðskrh., og á Vopnafirði, svo ég taki það sem dæmi. Þar er engu saman að jafna. Ég get ekki fallist á það að fólk sem býr á Vopnafirði eigi annaðhvort ekki að fá bensín eða fá það fyrir mun hærra verð en gildir t.d. á Reyðarfirði eða Húsavík eða þá að þessir staðir séu alveg komnir upp á náð olíufélaganna. Mér er fullkunnugt um það að margir á þessum stöðum treysta ekki mjög vel ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Ég held að ekki muni fara neitt öðruvísi fyrir þeim en mér, ég held að viðkomandi aðilar muni heldur ekki treysta góðsemd olíufélaganna.
    Að öðru leyti mun ég fjalla um málið í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. sé tilbúinn til að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hér eru fram færð af stjórnarandstöðunni. Mér var sagt að um þetta mál hafi verið mikill ágreiningur í stjórnarflokkunum. Það er ekki að sjá á viðveru hv. þingmanna hér í dag að ágreiningur hafi verið mikill. Mér er fullkomlega óljóst um um hvað sá ágreiningur var ef þetta er niðurstaðan og lausnin á þeim ólíku sjónarmiðum, að niðurstaðan sé sú að allir hafi verið sáttir við það að treysta bara olíufélögunum. Ég trúi því vart að það geti verið tilfellið og vænti þess að takast muni að ná fram nauðsynlegum breytingum á málinu í meðferð efh.- og viðskn. og hæstv. viðskrh. sýni þar nokkurn sveigjanleika og töluvert meiri sanngirni en fram kemur í þessu frv.