Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 16:50:00 (4149)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér hefur verið lagt fram er vissulega til þess fallið að auka frelsi í innflutningi og koma á frjálsari samkeppni og allt gott um það að segja svo langt sem það nær. Hins vegar er spurning hvort verið sé að fara inn á leið ójöfnunar og að frumskógarlögmálið verði að sumu leyti látið gilda. Í 2. gr. frv. segir að leggja skuli flutningsjöfnunargjald á allt bensín og olíu sem flutt er til landsins. Jafnframt er heimilað að greiða jöfnunargjald frá innflutningshöfnum til þeirra hafna sem jöfnun flutningskostnaðar nær til. Þ.e. leyfilegt er að greiða jöfnunargjald til þeirra hafna sem jöfnun flutningskostnaðar nær til en ekki talað um neina jöfnun á olíu sem flutt er með bílum á landi. Samkvæmt upplýsingum frá olíufélögunum er flutningskostnaður til ýmissa sölustaða, sem ekki falla undir drög að þeirri reglugerð sem fylgir með frv., mjög misjafn eins og sumir ræðumenn hafa komið inn á. Hæsta upphæðin sem nefnd er á flutningskostnaði olíuvara til slíkra hafna er á Norðurfirði á Ströndum þar sem flutningskostnaður á bensínlítra er 12 kr. og 5 aurar. Upphæðin er mjög misjöfn eftir stöðum og getur verið allt niður í innan við krónu, jafnvel nokkra aura. Mér finnst mjög ótrúlegt að olíufélögin séu svo góðhjörtuð að þau taki það að sér að selja olíu á sama verði um allt land á stöðum eins og ég nefndi áðan.
    Þá vil ég einnig nefna 10. gr. frv., sem mjög hefur verið vitnað í að eigi að taka af allan vafa um að auglýst verð hvers innflytjanda eigi að gilda á öllum afgreiðslustöðvum. Þetta finnst mér engan veginn nógu ákveðið. Ef 10. gr. er ætlað að ná fram þessari jöfnun þarf, eins og komið hefur fram í máli nokkurra stjórnarliða, að orða hana mikið betur. Þar stendur aðeins, með leyfi forseta: ,,Þó skal við það miðað, að auglýst verð hvers innflytjanda gildi . . .  `` Ég er hrædd um að hægt verði að fara í kringum svo óákveðið orðalag. Ég vil einnig ítreka það að þessi flutningsjöfnuður er einungis til flutninga með skipum frá innflutningshöfn til aðaltollhafna. Þetta er ekki hugsað sem flutningsjöfnuður á allri olíu um landið. Ég held að skoða þurfi þessi jöfnunarákvæði mikið betur. Einnig væri fróðlegt að vita hvaða skilgreining er á því hvaða staðir fái jöfnunargjaldið og hvers vegna ekki er hægt að setja jöfnunargjald á flutninga á landi frá höfnunum.
    Þetta leiðir svo aftur hugann að því að orkugjafar eru á mjög misjöfnu verði eftir því hvar þeir eru til sölu. Við vitum að það gildir um orkuverð á rafmagni og hita. En það verð er mjög misjafnt frá einum stað til annars. Þarna virðist mér vera farin öfug leið, þ.e. ójöfnuður í orkusölunni aukinn. Hingað til höfum við getað treyst því að bensín og olía væru á sama verði um allt land, ein af fáum vörutegundum sem það gildir um. Ef frv. verður samþykkt óbreytt er ekki hægt að treysta því lengur. Þess vegna sýnist mér að frv. gangi fremur í þá átt að auka ójöfnuð í landinu heldur en draga úr honum.
    Ég legg til að efh.- og viðskn., sem mun fá frv. til skoðunar, athugi vel þá agnúa sem á því eru og reyni að sníða þá af eftir því sem hægt er. Og að frv. komi til með að standa undir því að vera frv.

til laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara en verði ekki til að auka ójöfnuð í sölu og dreifingu þessara vara.