Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:11:00 (4154)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé ágreiningur á milli 1. þm. Austurl. og mín um að nauðsynlegt sé að fá sem hæst verð fyrir íslenskar framleiðsluvörur og einnig sé nauðsynlegt að selja þær og vinna þannig að þær komist á þá markaði þar sem hæst verð er greitt. Að sjálfsögðu ætti það að vera sameiginlegt markmið okkar og ég tel þess vegna að það hafi verið tímabært fyrir löngu að draga úr Sovétviðskiptunum. Við höfum staðið í sömu sporum og þær þjóðir sem nú eiga í miklum erfiðleikum, að hafa framleitt fyrir markað sem gerði engar kröfur. Þetta er vandamál sem við stöndum frammi fyrir og verðum að laga okkur að.
    Varðandi stjórnmálaskoðanir mínar og viðskiptin við Austur-Evrópu og Sovétríkin vil ég láta þess getið að þau mál sem ég hef rætt um í þessum efnum á undanförnum árum hafa allt verið sérgreind mál, þar sem ég hef tekið fyrir einstök atvik sem upp hafa komið og fjallað um þau. Sérstaklega er mér minnisstæð hin harða deila sem varð sumarið 1982 um svokallaðan efnahagssamning við Sovétríkin. Vonandi fáum við tækifæri til þess að ræða einstök atriði síðar og þau breyta engu um það álit mitt að það hafi fyrir löngu verið tímabært að huga að öðrum mörkuðum en í Sovétríkjunum og að við stæðum betur að vígi nú ef það hefði verið gert fyrr. Og ég harma að hv. 1. þm. Austurl. skuli ekki hafa áttað sig á því.