Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:13:00 (4155)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil koma inn á það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í upphafi. Ef ég hef tekið rétt eftir trúi ég varla mínum eigin eyrum þannig að ég vil fá það staðfest. Lítur hann svo á að þetta frv. sem hér um ræðir og þær breytingar sem verða í olíuviðskiptum þýði að viðskipti við Sovétríkin séu aflögð? Ég tók svo eftir í ræðu hans. Á hvaða rökum byggir hann að þau viðskipti hafi verið óhagkvæm í gegnum árin? Liggja einhverjar kannanir þar að baki að þau hafi heft vöruþróun eða verið óhagkvæm? Eru einhverjar tölulegar kannanir þar að baki? Mér blöskraði reyndar alveg þegar hv 3. þm. Reykv. talaði um að Sovétmarkaðurinn hefði ekki gert neinar kröfur.
    Ég hef gengið um margar síldarsöltunarstöðvar og gaman væri að sjá framan í þá menn sem þar eru ef sagt væri við þá að Sovétmarkaðurinn hafi ekki gert neinar kröfur. Hann hefur gert það miklar kröfur að margir hafa átt í það miklum erfiðleikum með að standa undir þeim og orðið að leggja í miklar fjárfestingar vegna þeirra og þróað vörur sínar vegna þeirra. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna ræðu hv. þm.