Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:18:00 (4159)

     Guðmundur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hefur verið lagt fram um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara er væntanlega til komið í kjölfar þess að innflutningur á olíu hefur verið gefinn frjáls hér á landi. Greinilegt er að markmiðið með þessu frv. er meiri hagkvæmni í kjölfar ákvörðunarinnar um frjálsan innflutning og auðvitað er hægt að fagna því að tilgangurinn er góður.
    Hins vegar sé ég ekki að ráðið sem beita á til þess að ná fram meiri hagkvæmni sé annað en að það eigi að skerða verulega og í sumum tilvikum afnema flutningsjöfnun á olíum og þó sérstaklega bensíni. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég sé ekkert eða a.m.k. mjög lítið samhengi á milli þess sem þarna er um að ræða. Ég tel a.m.k. að það að fella niður verðjöfnun sé engin forsenda þess að meiri hagkvæmni náist í olíuviðskiptum og verð geti lækkað hér á landi. Ég held þvert á móti að hagkvæmnin og þá væntanlega sú hagkvæmni sem stefnt var að með því að gefa innflutninginn frjálsan eigi að koma fram í innkaupum olíufélaganna og í rekstri þeirra og það sé á þeim grundvelli sem þau eigi að keppa. En í rauninni er ekkert hagkvæmnisatriði að fella niður verðjöfnun vegna þess að áfram mun kosta ákveðnar upphæðir að flytja olíur og bensín og við sem búum á þeim stöðum þar sem ekki verður full eða jafnvel engin verðjöfnun þurfum áfram að nota olíur og bensín nema meiningin sé að menn hafi sig bara þaðan brott og búi á ,,almennilegum`` stöðum á landinu. Ég held að alveg útilokað sé að ná niður verði á þessum vörum með því að íbúar og atvinnulíf landsbyggðarinnar beri herkostnaðinn. Það held ég að sé gert vegna þess að í grg. með frv. stendur, með leyfi forseta:

    ,,Er þá gert ráð fyrir að dreifingarkostnaður olíu greiðist að öðru leyti af álagningu dreifingaraðila.`` Náttúrlega er alveg ljóst að annaðhvort verður dreifingaraðilinn að sætta sig við lægri álagningu eða kaupandinn við hærra verð og hagkvæmni heildarinnar er vandséð með þessu móti.
    Ég tel með öðrum orðum að þetta frv. leiði til ójöfnuðar en ekki jöfnuðar eins og fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum. Ég sé ekki betur en jafnvel þó svo hér sé að sumu leyti gengið lengra í þeim drögum að reglugerð sem fylgja frv. en kemur fram beint í frv. sjálfu eru menn engu að síður komnir upp á ákvarðanir viðkomandi ráðherra og reglugerðarsetningu og þetta skapar a.m.k. óöryggi og óvissu.
    Í öðru lagi kemur reyndar líka fram í sömu greinargerð að öll þessi ráðstöfun eigi að leiða til aukinnar hagkvæmni í dreifingu olíuvara og lægri kostnaðar þegar á heildina er litið. Það kann vel að vera að það sé þegar á heildina er litið. En ég held samt sem áður að þetta sé ekki svona einfalt mál. Ég sé í sömu greinargerð að flutningsjöfnunargjald sé rétt rúm ein króna á lítrann. Flutningskostnaður á suma af þeim stöðum þar sem ekki er gert ráð fyrir að verði flutningsjafnað er margar krónur og þess vegna getur vel verið að á sumum stöðum verði hægt að lækka verð á þessum vörum en á öðrum stöðum þarf kannski að stórhækka það.
    Við þekkjum ýmis dæmi um mismun á vöruverði í Reykjavík og úti á landi. Ég vil í því sambandi minna á þá umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu þar sem fram kemur að svo virðist sem ýmsir heildsalar í Reykjavík selji til smásala úti á landi á hærri verði en útsöluverðið er í Reykjavík, a.m.k. á sumum útsölustöðum. Ef þetta er sá jöfnuður sem stefnt er að með þessari lagasetningu þá gef ég a.m.k. lítið fyrir hann.
    Hv. 1. þm. Vesturl. sagði áðan í ræðu sinni að ákvæðið í 10. gr. um að sama verð gilti alls staðar á útsölustöðum hvers söluaðila tryggði hagkvæmni í olíusölunni og lægra verð. Ekki veit ég hversu rétt þetta er, en ég held að það tryggi a.m.k. ekki meiri hagkvæmni en svo að það gæti tryggt hana á þeim stöðum þar sem þessar vörur yrðu til sölu. En ekki er víst að þær verði alls staðar til sölu. Nú er ég svo sem ekki að ímynda mér að það verði bara að loka öllum olíuútsölustöðum þar sem ekki er full flutningsjöfnun. En við höfum mörg dæmi um að svokölluðum ,,óhagkvæmum`` rekstrareiningum hafi verið lokað og við höfum reyndar líka dæmi um það í olíusölunni að olíusölustöðvar eru bara opnar hluta úr árinu. Hér hafa margir minnst á að olíusalan væri mikilvæg fyrir ferðamannastraum í landinu og mikið rétt, enda eru margir olíuútsölustaðir eingöngu opnir yfir ferðamannatímann. En því miður þarf að aka og gera ýmsa aðra hluti á öðrum tímum ársins og ekki hefur tekist allt of vel að lengja ferðamannatímann.
    Ég vil taka undir það sem hv. 1. þm. Austurl. sagði að í þessum efnum erum við algerlega háð velvilja olíufélaganna ef þessi verður skipan málanna. Ég vil reyndar bæta því við að við erum í reynd ofurseld lögmálum óheftrar samkeppni. Ég vil líka bæta því við að ég held að það sé alltaf álitamál hvað er hagkvæmt og hvað er heppilegt og ég held að það sé ekki gott að þurfa að lúta því um of hvað ráðherra þykir heppilegt og hagkvæmt. Það getur skipt máli hvaðan maður sér hlutina. Svo að dæmi sé tekið úr umræðunni í vetur þá getur vel verið að það hafi verið hagkvæmt eða heppilegt fyrir einhverja að skerða þjónustuna á sjúkrahúsinu á Blönduósi en ég efast um að það hafi verið sérstaklega hagkvæmt fyrir t.d. Blönduósinga eða Húnvetninga.
    Það þótti líka mjög óhagkvæmt að reka skóla í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar voru víst aðeins 15 eða 20 nemendur. Fyrir hverja var það óheppilegt? Ekki fyrir þessa nemendur og ekki fyrir þjóðfélagið í heild heldur nema það hafi verið ráðið að þeir hættu bara í skóla. Þeir hafa væntanlega þurft að fara eitthvert annað í skóla og það er dýrt alveg á sama hátt og það kann að hafa verið dýrt fyrir nemendur annars staðar að koma þangað. Það er alltaf álitamál hvað er heppilegt og hvað er hagkvæmt. Ég held að við verðum að hafa það öll að leiðarljósi að við erum að stefna að jöfnuði í landinu, ekki aðeins í heildina séð, heldur fyrir hvern og einn þjóðfélagsþegn eftir því sem við verður komið. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að hugsunin á bak við frv. sé jákvæð. En ég held að árangurinn yrði afar óheppilegur og í besta falli afar óljós ef það yrði að lögum óbreytt.