Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:41:00 (4161)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er, eins og komið hefur fram hér hjá mörgum hv. þm. sem hafa talað, til þess að auka enn á aðstöðumun í þjóðfélaginu, auka enn á framfærslukostnað þeirra sem búa lengst frá höfuðborgarsvæðinu. Það versta er að þetta er ekki eina sendingin af þessu tagi sem við höfum fengið hér í vetur. Þetta er eitt frv. í langri röð aðgerða. Nefna má annað frv. sem er til umræðu þessa dagana í Alþingi. Það er frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það frv. getur haft í för með sér, ef að lögum verður, svo gríðarlegan aðstöðumun milli ungs fólks í dreifbýli og þéttbýli að ekki sér fyrir endann á því. Nefna má smærri atriði eins og vörugjald sem lagt er á í höfnum landsins sem eykur aðstöðumuninn í flutningsgjaldi frá Reykjavík og út á landsbyggðina. Þetta frv. er því miður aðeins eitt í langri röð slíkra aðgerða á tímum þegar mjög miklir erfiðleikar eru í byggðamálum og fólk flytur frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, m.a. í öllu þessu tali um lægri framfærslukostnað. Þessi flutningur fólks er nú kominn á það hátt stig að það fer að verða og er kannski þegar orðið neyðarástand í atvinnumálum hér í Reykjavík.
    En það virðast ekki vera neinir tilburðir hjá hæstv. ríkisstjórn til að reyna að snúa þessum málum við heldur kemur hver aðgerðin eftir aðra sem eykur þennan mun í þjóðfélaginu. Það er það alvarlega við málið. Ég ætla ekki að slá neina skjaldborg hér um það kerfi sem var í olíuviðskiptum, að þar megi ekki gera neinar breytingar á. En hins vegar hygg ég að það hafi ekki verið ekki mikill þrýstingur frá almenningsálitinu í þjóðfélaginu að afnema flutningsjöfnun á olíuvörum. Það hefur ekki verið mikil umræða um þetta í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Ég hef ekki heyrt það. Það er að vísu eitt atriði sem hefur verið til umræðu í þessu sambandi: Útgerðin hefur kvartað undan þessari verðjöfnun og sagt að hún hafi borið skarðan hlut frá borði vegna hennar. Það þarf ekki að breyta verðjöfnuninni vegna útgerðarinnar því að fullar heimildir eru til fyrir olíufélögin til að gefa magnafslátt til stórra viðskiptavina. Það eru ekki forsendurnar fyrir því að breyta verðjöfnuninni.
    Nokkrar innantökur voru hjá þingmönnum Sjálfstfl. út af þessu frv. og sumir hv. þm. þess flokks áttu í erfiðleikum með að kyngja því. Nú er komið í ljós og hefur komið í ljós við þessa umræðu hver gulrótin var handa hv. þm. dreifbýlisins í röðum Sjálfstfl. til að friða samvisku sína. Það var að hvert olíufélag ætti að selja olíu á sama verði á öllum sínum útsölustöðum og sjá þar með um verðjöfnunina. Hv. 2. þm. Vestf. hefur rakið hér vel hvernig olíufélögin geta farið í kringum það ákvæði. Hv. 3. þm. Vestf. var að hugga sig með því að Olíufélagið hf. mundi sjá um þessa verðjöfnun til að halda ímynd sinni í þjóðfélaginu. Ég er talinn samvinnumaður og ég kannski talinn talsmaður þess félags. En ég get fullyrt það hér að ekkert er á það að treysta að Olíufélagið hf. haldi uppi þessari verðjöfnun til að halda einhverri ímynd. Hin olíufélögin hafa ekkert þurft á því að halda, til að halda einhverri ímynd, að selja olíu uppi á Möðrudal eða uppi á Grímsstöðum eða annars staðar. Ég veit ekki hvort hægt er að ætlast til þess að Olíufélagið sjái endilega um þessa verðjöfnun. Það verður auðvitað þannig með þessu fyrirkomulagi að olíufélögin loka að sjálfsögðu þeim stöðvum sem borgar sig ekki að afgreiða olíu á. Sveitafólk úti um allt land þarf að keyra langar leiðir til þess að kaupa sér olíu og bensín. Það gerir það að sjálfsögðu núna en það keyrir enn þá lengra eftir eldsneyti þegar búið er að loka þessum stöðvum. Þetta er eitt af því sem eykur aðstöðumuninn í þjóðfélaginu og gerir það að verkum að erfiðara er að veita viðspyrnu í dreifbýlinu. Það er sú nöturlega staðreynd sem fylgir frv. Að sjálfsögðu má auka að mun frelsi í olíuviðskiptum án þess að afnema þessa verðjöfnun, það er allt annað mál.
    Hins vegar hafa komið athyglisverðar yfirlýsingar fram við þessa umræðu. Borist hafa í tal viðskipti okkar við Sovétríkin sem nú eru liðin undir lok og hv. 3. þm. Reykv. lýsti því yfir að það komi til greina að skipta við þau lýðveldi, ef hægt er að kalla þau það, sem eru þar austur frá nú og hafa tekið við

af því ríkjabákni sem þar var. En ég skildi hans orð svo að ríkisvaldið ætti alls ekki að hafa þar nein afskipti af. Ég hygg að ekki sé svo þróaður markaður fyrir austan enn þá að ríkisvaldið verði ekki að koma eitthvað að því máli ef menn ætla yfirleitt að halda samböndum inni á þessum stóra markaði. Ég er hissa á því ef nágrannaþjóðir okkar líta svo á að ríkiðsvaldið eigi ekki að koma nálægt viðskiptum þar austur frá. Mér býður í hug, ég veit það reyndar og hef hlýtt á ræður peningamanna og bankamanna um það efni, að ýmsar nágrannaþjóðir okkar vilji nokkuð á sig leggja til að halda samböndum á þessum stóra markaði og það sé ekki skynsamleg pólitík að útiloka að einhver viðskipti eigi sér stað fyrr en þarna er komin á fullkomin einkavæðing á öllum hlutum. Ég held að það sé hættuleg hugsun og ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála því að við eigum að gefa allan Rússlandsmarkað upp á bátinn þangað til komið er kapítalískt þjóðfélag þar sem nær máli hjá hv. 3. þm. Reykv. Þetta er alvarlegt mál, og ég dreg enga fjöður yfir það, út af viðskiptum með síld m.a., þar sem þetta er stærsti saltsíldarmarkaður líklega í veröldinni. Það er óhætt að fullyrða það og ég trúi því að við eigum mikla möguleika í því að framleiða saltsíld. Síldarsöltun er sú atvinnugrein sem gefur okkur mjög mörg atvinnutækifæri, svo ekki sé meira sagt, á meðan söltun stendur yfir.
    Það er svo að Rússlandsmarkaðurinn hefur verið kröfuharður um saltsíldina. Þess má geta að Rússar hafa t.d. gert kröfu um það að minnka saltmagnið í síldinni. Þetta gerði það að verkum að það þurfti að byggja yfir allar birgðir af síld og síldarsaltendur þurftu að kosta miklu til, m.a. að hafa kælingu þar. Því var einkennilegt að heyra því haldið fram úr ræðustól á Alþingi að þessi markaður geri engar kröfur. Þess má geta að svartolían sem við höfum keypt frá Rússlandi er líklega sú eina sem nothæf er með góðu móti í okkar fiskiskip. Ég held að þeir sem hafa stundað útgerð, einhverjir sem hér eru inni hafa gert það, og eru að hlusta á þessa umræðu núna geti staðfest það að sú olía er sú besta. Ég held að við ættum að passa okkur á svona staðhæfingum og ég held að ráðamenn ættu að huga að því að loka ekki öllum dyrum inn á þessa stóru markaði. Nýju lýðveldunum vex vonandi einhvern tíma fiskur um hrygg og geta verslað við okkur áfram. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála því sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að við ættum ekki að sinna þessum mörkuðum fyrr en, að mér skildist, að þar væri komið almennilegt kapítalískt þjóðfélag.