Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:03:00 (4166)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla bara að endurtaka að ég tel að það sé ekki einboðið, þó að verið sé að jafna á milli þriggja fyrirtækja, að hægt verði að ná góðum árangri í því að tryggja að fólk úti um landið hafi greiðan aðgang að olíu eða bensíni. Það er spurning hvort menn komast einhvers staðar skrefinu lengra. Ég ætla ekki að fara að þræta um það. En hins vegar held ég að það væri miklu heilbrigðara kerfi þar sem olíufélögunum þremur sem eru hér og kannski verða þau fleiri --- ætli þetta verði ekki allt saman gefið frjálst --- verði gert að bjóða sína vöru alls staðar á sama verði. Það verði þá um það að ræða að menn velja sér staði þar sem þeir afgreiða. Vitanlega fer það eftir því hvort þeir telja möguleika á því að hafa eitthvað út úr þessu. Menn líta ekki á þetta bara sem þjónustu og eru ekki tilbúnir að borga með því alls staðar. En mismunurinn á því sem menn eru að gera í dag og því sem menn gera í framtíðinni felst eingöngu í því að menn hafa upp á ákveðna flutningsjöfnun að hlaupa. Þegar hún dugar ekki lengur til, þá hætta menn að halda opnum bensínstöðvum í dreifbýlinu.