Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:41:00 (4177)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég átti þess ekki kost að vera við upphaf þessarar umræðu en vil þakka fyrir aldeilis bráðskemmtilegar umræður. Hefur þar margt vakið athygli mína, ekki síst sú yfirlýsing hæstv. viðskrh. að hann telji ekki rétt að ríkið sé að vasast í alls kyns jöfnunarkerfum og kemur mér það nokkuð á óvart að heyra hæstv. ráðherra segja það. En eitthvað eimir eftir af jafnaðarstefnunni í honum því að hann segir jafnframt að hann trúi ekki á göfugt innræti olíuforstjóra eingöngu í þessu máli. Og það er sennilega svarið við þeirri spurningu sem ég ætlaði að bera upp við hann aðeins til þess að hún sé bókuð í þingtíðindum. Það fer að verða athyglisvert að bera saman eða safna saman framtíðarspám hæstv. viðskrh. og hvernig þær hafa ræst. Ég vil spyrja hann: Telur hann að þessi svokallaði frjálsi innflutningur á olíuvörum muni lækka verð á olíu og bensíni og öðrum slíkum vörum? Ég vil fá svar ráðherra við því hvort hann er sannfærður um það.
    Ég vil í leiðinni leyfa mér að spyrja hann líka: Telur hann eins og margir aðrir sem hér hafa talað að viðskipti Íslands við Sovétríkin, vöruskipti á olíu og síld, hafi verið ófrjáls? Ég vil að ráðherra segi mér það hver kúgaði hvern í þeim viðskiptum. Ég hef aldrei orðið vör við annað en að tvær þjóðir hefðu sest niður og gert samninga og ég hef ekki heyrt það fyrr en nú að það hafi verið ófrjáls viðskipti.
    En lokaspurning mín og sú þriðja er þessi: Það eru engin lög um jöfnun á flutningskostnaði algengustu nauðsynjavara annarra en landbúnaðarvara. Af hverju gekk ekki hæstv. ráðherra alla leið og trúði olíuforstjórunum fyrir því að vera í raunverulegri samkeppni? Þetta frv., hæstv. forseti, ætti að heita Jöfnun á samkeppnisaðstöðu olíufélaga, því að um það er frv.