Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:52:00 (4195)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að það mál sem hér er til umræðu snýst um það að sjá til þess að skattar lækki, skattar á ákveðinn skattstofn lækki til samræmis við aðrar ákvarðanir í skattamálum. Upplýsingar sem hv. nefnd hefur beðið um hljóta auðvitað að berast nefndinni og ég skil ekki þann málflutning sem hér kemur fram að það eigi að bíða með að afgreiða frv. vegna þess að fjmrn. hafi enn ekki svarað viðkomandi nefnd. Ég bendi virðulegum þingmönnum á það, báðum úr Alþb., að nál. sem liggur fyrir er undirritað 26. febr. og þar af skrifar einn af þingmönnum Alþb., sjálfur varaformaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, undir nál. án alls fyrirvara.
    Þetta mál sem hér er til umfjöllunar snýst um það að lækka skatta til samræmis við aðrar ákvarðanir. Þær upplýsingar sem um hefur verið beðið munu að sjálfsögðu verða sendar nefndinni. Ef það er hins vegar vilji hv. þm. Alþb. að fresta því að gera þessa leiðréttingu með því að afgreiða ekki þetta frv. sem lög frá Alþingi, þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að verða ekki við þeim tilmælum. En ég bendi á að að sjálfsögðu mun nefndin halda áfram sínum störfum og að sjálfsögðu getur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon miðlað þeim upplýsingum til hv. þm. svo fremi sem enn séu haldnir þingflokksfundir í Alþb.