Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:59:00 (4199)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Þessu máli var eins og fram hefur komið vísað til efh.- og viðskn. Frv. fylgdi afar stutt og augljós greinargerð, aðeins fimm línur, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt núgildandi lögum skal skattskylt mark til sérstaks eignarskatts breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattvísitala er ákveðin í fjárlögum fyrir ár hvert. Skattvísitala var ekki ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1992 og hækkaði því ekki skattskylt mark til sérstaks eignarskatts á milli áranna 1991 og 1992. Hér er lagt til að þetta mark verði hækkað um 6%.``
    Um þetta var nefndin algjörlega sammála eins og fram kemur í nál. Það kom fram ósk um að fá greinargerð frá fjmrn. hvernig tekjum af þessum sérstaka eignarskatti hafi verið varið frá því að lögin voru sett á árinu 1989 og hver sé staða framkvæmda við þær byggingar sem fengið hafa fjármagn af þessum skattstofni. Mér var sagt að það tæki nokkurn tíma að taka þetta saman og ég hygg að það sé á bak við líka að fá frekari upplýsingar um hvernig framkvæmdir við þessa merku byggingu standa og hvað eigi eftir að gera.
    Nefndarmenn sáu enga ástæðu til þess að frv. fengi ekki eðlilega afgreiðslu. Þessar upplýsingar koma til nefndarinnar og þá verður auðvelt að koma þeim til þingmanna í öllum þingflokkum í gegnum nefndarmenn þar sem allir þingflokkar eiga fulltrúa í nefndinni. Ég hélt að við þetta mætti vel una.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á það að afgreiðsla frv. sé ekki látin bíða þar til upplýsingarnar liggja fyrir. Það breytir engu um samþykkt frv. þegar þessar upplýsingar liggja fyrir og koma þá þvert á alla þá sem mæla með samþykktinni.