Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:14:00 (4204)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu er um margt kostulegt mál og einkennileg frumvarpssmíð, enda hafa menn skemmt sér ágætlega við að fjalla um það fyrr í umræðunni og gert nokkuð grín að því. Ég ætla ekki að gera það, mér er ekki hlátur í huga þegar ég les þetta frv. Frekar finnst mér það dapurlegt og sorglegt hver stefnan er í frv. Það er eiginlega orðið þannig hér á landi eða stefnir hraðbyri í það að ekki nokkurn skapaðan hlut má gera. Það má ekki orðið dýfa krók í sjó án þess að hafa fyrir því leyfi og það má ekki labba upp um föll og firnindi að leita sér að einu stykki rjúpu án þess að hafa fyrir því tilskilin leyfi og borga fyrir það sérstakt gjald eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Ég verð að segja það eins og er að ég öfunda ekki hv. umhvn. að fá þetta frv. til meðferðar. Það er aðeins um tvennt að ræða fyrir hv. nefnd, annars vegar að afgreiða frv. ekki út eða hreinlega vinna nýtt frv. Og eftir að hafa hlustað hér á hv. formann umhvn., flokksbróður umhvrh., þá gat ég ekki betur skilið á hans máli en að þetta frv. mundi alls ekki koma aftur út úr nefnd. Hann viðhafði þau orð um frv. að hér væri miðstýringarárátta, hann mótmælti frv. og þó alveg sérstaklega vegna einnar greinar, 12. gr., þar sem hann sagði að verið væri að draga úr minkaveiðum og á vissum stöðum yrðu þær nánast alveg lagðar niður. Hann hafði þau orð um frv. að betra hefði verið heima setið en af stað farið. Þetta voru orð formanns umhvn., flokksbróður ráðherrans sem leggur frv. fram, um þetta frv. Hann sagði einnig að frv. yrði ekki afgreitt með 12. gr. eins og hún er þar orðuð. Um þá grein er reyndar hægt að hafa mörg orð og mun ég koma inn á það nokkuð seinna.
    Hér er verið að ræða um dýravernd almennt og menn hafa t.d. verið að ræða örlítið um laxveiði. Ég tel að menn megi líta á þann þátt ef menn bera virkilega hag dýrsins fyrir brjósti. Ég held að einhver sú ljótasta veiðiaðferð sem ég veit um, sé sjálf laxveiðin, og ég held að menn (Gripið fram í.) nei, sá sem hér stendur og talar stundar ekki þá veiði --- ég held að það sé einhver sú ljótasta veiðiaðferð sem til er þegar menn henda flugu upp í fisk og dunda svo við það og gorta sig af því hvað þeir geta kvalið hann lengi, hvað þeir eru lengi að hemja fiskinn. ( Gripið fram í: Hvað með maðkinn?) Hvort sem það er maðkur eða fluga eða hvað sem það er, þá er það metnaður manna að kvelja dýrið sem lengst og eftir því sem það tekur lengri tíma að ganga frá því þá verða menn stoltari. Ef menn bera í raun hag dýranna fyrir brjósti, þá ættu þeir að taka á þessum hlut.
    Þetta frv. er náttúrlega enn eitt kvótakerfið. Við erum með kvótakerfi í sjávarútveginum sem menn

eru missáttir við og eftir því sem ég best veit og skil er flokkur ráðherra nú ekki beint hrifinn af þeirri stefnu sem þar ríkir en það á að taka upp svipaða stefnu í veiðum á landi.
    Það er auðvitað freistandi að byrja á því að spyrja svona almennt hver kostnaðurinn við þetta kerfi allt verður, allt það leyfiskerfi, leyfisgjöld, eftirlitskostnaður og annað slíkt. Hér er auðvitað verið að skattleggja ákveðinn hóp manna sem eru veiðimenn og því vil ég mótmæla og get reyndar sagt það strax að ég leggst alfarið gegn þessu frv. eins og það nú liggur frammi og tel að ef það eigi að eiga einhverja möguleika, þá verði að gera á því gagngerar breytingar.
    Ég ætla aðeins að fá að hlaupa hér yfir nokkrar greinar frv. Það er auðvitað búið að fara yfir þetta mestallt. Mig langaði að byrja á 7. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Dýrafræðideild Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að láta veiða friðaða sem ófriðaða fugla og safna eggjum handa stofnuninni, hvar sem er, og án þess að endurgjald komi fyrir, enda geri þeir landeiganda viðvart fyrir fram og sýni skilríki sín, verði því við komið.``
    Mér finnst vald dýrafræðideildar Náttúrufræðistofnunar fullmikið þarna. Þeir geta vaðið inn á land landeiganda án þess að fá til þess leyfi sjálfs landeigandans. Mér finnst það algjört lágmark að þarna verði haft samráð við landeiganda þannig að menn vaði ekki bara inn á landið.
    Um 9. gr. og alla þá upptalningu sem þar kemur fram ætla ég ekki að fjalla mikið. Ég vil þó hvetja til þess að það verði skilgreint betur hvað í rauninni er átt við. Ég vil þó staldra við 16. liðinn þar sem segir að óheimilt sé að nota hunda til að hlaupa uppi bráð nema við minkaveiðar. Þetta finnst mér orka tvímælis. Hundar eru ekki eingöngu notaðir til þess að finna fuglana og reka þá upp þannig að hægt sé að skjóta þá aftur niður, heldur eru þeir ekki síður notaðir til þess að elta uppi særð dýr og ég held að það sé nokkuð mikilvægt. Þeir sem þekkja til rjúpnaveiða vita að það getur oft verið ansi erfitt að finna særða rjúpu.
    Í 17. lið 9. gr. kemur fram að vopn skuli vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 50 metra. Þetta finnst mér líka ákaflega hæpið að setja inn í lagabókstaf. Ég þekki vel til þess að bráðin er oft töluvert nær en þetta þegar komið er á veiðistað og ekki nokkur leið að ætlast til þess að veiðimenn virði svona lagabókstaf þegar þeir koma inn á veiðisvæði. ( ÓÞÞ: Hafa með sér tommustokk.) Það er kannski ráðið að stika fyrst og biðja rjúpuna að doka við á meðan en þær rjúpur sem ég hef rekist á gera það ekki. Hins vegar er auðvitað rétt að reka fyrir því áróður að menn séu með óhlaðin vopn nema við veiðarnar sjálfar. En veiðarnar geta sem sagt farið fram nær farartæki heldur en 50 metra.
    Í 10. gr. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína. Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt sært dýr fari inn á landareign sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð eign landeiganda nema annað sé tekið fram í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.``
    Mér finnst þetta allfurðuleg grein. Við skulum segja að ég sé að skjóta gæs eða rjúpu og hún særist og villist inn á land hjá einhverjum bónda. Auðvitað ber mér að elta rjúpuna eða gæsina og aflífa hana, en samkvæmt þessum lagabókstaf ber mér að labba heim í hlað og afhenda bóndanum bráðina. Mér finnst þetta alveg stórfurðuleg grein.
    Í 11. gr., sem er kannski sú sem umdeildust er segir, með leyfi forseta:
    ,,Umhvrh. ákveður með reglugerð að allir þeir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum og músum, skuli afla sér veiðikorts, gegn gjaldi sem umhvrh. ákveður. Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, svæðis sem kortið gildir á, gildistímabils, tegunda og fjölda dýra af hverri tegund sem viðkomandi hefur leyfi til að veiða. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum, svo og á leið til og frá veiðum. Hann skal framvísa því ef þess er óskað.``
    Það kemur reyndar ekkert fram hver getur óskað eftir því að viðkomandi framvísi korti. Það getur verið hver sem er nánast, hver sem er í þjóðfélaginu getur elt uppi veiðimann og sagt: Framvísaðu korti, vinur. En það er nú kannski ekki aðalmálið.
    Spurningarnar eru reyndar margar. Fyrir utan þann kostnað sem hér er verið að leggja á veiðimenn og þann skatt --- auðvitað er þetta ekkert annað en skattlagning á veiðimenn --- þá má spyrja: Hver stjórnar verðinu? Er það gert inni í ráðuneyti? Hvernig er með úthlutun svæða? Er úthlutað einu svæði í einu? Er hægt að fá úthlutað mörgum svæðum? Gildir það yfir langt tímabil? Við skulum halda áfram með rjúpuna. Ef ég kem í byrjun október og óska eftir veiðileyfi, get ég þá óskað eftir einu svæði eða get ég óskað eftir mörgum svæðum eða fæ ég bara eitt svæði? Gildir kvótinn sem ég fæ fyrir eitt svæði eða gildir hann fyrir mörg svæði? Hvernig á að framkvæma svona hluti? Er hægt að sækja um mörg svæði í einu eða er það bara eitt? Og er tiltekinn fjöldi dýra á svæði eða er það millifæranlegt?
    Seinna í þessari grein segir:
    ,,Umhvrh. er heimilt að ákveða í reglugerð um veiðikort að þeir sem stundi veiðar á villtum dýrum skuli hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða.``
    Þarna kemur náttúrlega enn einn möguleikinn á að hirða peninga af veiðimönnum. Nú eiga þeir að fara að taka sérstakt próf um villt dýr. Ég tel að með því að taka próf sem fylgir því að fá byssuleyfi eigi þetta náttúrlega að vera þar innifalið og það á bara að efla þá kennslu sem þar er ef menn telja að þess þurfi. Hins vegar er nú farið nokkuð yfir þetta þar. Ég vil einnig spyrja ráðherra: Hvernig ætla menn að

meta hæfni manna til að veiða? Hvernig verður hún metin? Er farið með menn upp um fjöll og firnindi og þeir metnir þar, teknir út? Ekki skeður það inni í skólastofu. Ég get ómögulega séð það. Þó er aldrei að vita. Það eru komnar slíkar tölvur og tæki að það getur vel verið að það megi gera. En ég get ekki séð að það sé hægt að meta menn á þann hátt. Auðvitað á það að vera þáttur í prófi sem menn taka þegar þeir fá byssuleyfi, þetta sérstaka skilyrði sem ráðherra vill hér setja, enda eru 90% af þeim sem sækja um byssuleyfi veiðimenn. Ég efast um að það sé meira en svona 10% sem eru í skotklúbbum eða hvað sem maður kallar það, að skjóta í mark. Ég sem sagt leggst alfarið gegn þessari kvótagrein og þeirri miðstýringu sem þarna kemur fram og vil neita því að sem Íslendingur geti maður ekki lengur orðið labbað hér um fjöll og firnindi og náð sér í eina rjúpu eða gæs án þess að þurfa að fara niður í ráðuneyti og borga fyrir það eitthvert sérstakt gjald eða fá úthlutað einhverju svæði. Og ég skil ekki svona miðstýringaráráttu í jafnfrjálslyndri stjórn og núna situr við völd. ( Gripið fram í: Frjálslyndri. Er þingmaðurinn frjálslyndur?) Þingmaðurinn er mjög bjartsýnn og fullur óskhyggju kannski.
    Ég tel að 12. gr., sem formaður umhvn. gerði sérstaklega að umtalsefni, beri að lesa saman við 33. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem nýlega var samþykkt. Í fyrsta lagi segir þar að það séu stjórnir sveitarfélaga sem annist eyðingu refa og minka. Hins vegar er þetta í því lagafrv. sem við ræðum nú komið í hendur umhvrh. án þess að ég hafi orðið var við breytingar á fyrri löggjöf. Í öðru lagi segir í bandorminum, með leyfi forseta: ,,Nú úrskurðar veiðistjóri reikninga rétta og hóflega og endurgreiðir ríkissjóður þá sveitarfélögum helming útlagðs kostnaðar við framkvæmd laga þessara.`` Hins vegar er í frv. því sem við erum hér að ræða einungis gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði einn fjórða hluta kostnaðar. Þetta passar ekki, þetta gengur ekki upp. Þetta tel ég að þurfi að lesa saman. ( Umhvrh.: Lesa betur.) Lesa betur. Þá les ég áfram í bandorminum: ,,Í sveitarfélagi, þar sem heildarkostnaður við refa- og minkaveiðar verður hærri en 3.000 kr. á hvern íbúa miðað við íbúafjölda 1. des. árið á undan, greiðir ríkissjóður þó allt að þremur fjórðu hlutum af kostnaði við framkvæmdina.`` Þarna er hann kominn upp í 3 / 4 . Þetta tel ég að hljóti að verða að lesa saman og lagfæra. En ef ég hef ekki lesið nógu vel eins og mér heyrist á innskoti ráðherra, þá leiðréttir hann mig auðvitað seinna í umræðunni.
    Hæstv. forseti. Menn hafa verið að gera hér grín að 17. gr. um hvítabirni og er búið að vera virkilega gaman að sitja hér og hlusta á menn velta sér upp úr þeirri grein. Ég ætla nú ekki að gera það frekar heldur en menn hafa gert. Ég vil þó benda á það sem segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af, er umhvrh. heimilt að fela veiðistjóraembættinu að fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar af honum hætta.``
    Þetta er ansi þröngt túlkað. Þarna er aðeins umhvrh. heimilt að fela veiðistjóraembættinu að fanga björninn. Það eru engin smávöld, það er aðeins einn maður á Íslandi sem getur veitt heimild fyrir því að hvítabjörninn verði fangaður. Aðeins einn og hugsið þið ykkur nú ef maðurinn er staddur erlendis, sem kemur nú fyrir okkar ágætu ráðherra. Hvað gerum við þá? Eigum við að hringja? Og ef við náum nú ekki sambandi? (Gripið fram í.) Ja, ekki förum við að brjóta lög, það er alveg á hreinu. ( ÓÞÞ: Embættið fer aldrei úr landi.) Það er ekki talað um embættið það er talað um umhvrh. (Gripið fram í.)
    Það eru margir furðulegir textar hér. Eins og í 18. gr.: ,,Óheimilt er að þeyta flautur að óþörfu í grennd við fuglabjörg.`` Ég skil ekki svona texta.
    Hæstv. forseti. Það er margt einkennilegt. Menn hafa t.d. talað um 19. gr., þar sem segir að mönnum sé heimilt að taka egg frá gæs og öndum en þeim er ekki heimilt að bjóða þau til sölu, selja þau, kaupa þau, gefa eða þiggja að gjöf. Það er eins gott að þetta sé ekki mikið magn því það eina sem menn geta þá gert er að reyna að éta eggin sjálfir. Þetta er aldeilis furðulegur texti. ( Gripið fram í: Ekki gefa gestum.) Nei, alls ekki, því þú mátt ekki þiggja það, hv. þm., ef þér væri boðið það. Hérna vantar viðurlögin, ef þú mundir þiggja það, hv. þm., hvað mundi þá gerast?
    Hér er náttúrlega um slíkt lagafrv. að ræða, virðulegur forseti, að mér finnst ekki hægt að eyða mikið fleiri orðum á það. Ég hvet virðulega umhvn. að taka hraustlega á þessu, eins og formaður nefndarinnar boðar og reyndar varaformaðurinn líka. Þeir höfðu báðir verulegar athugasemdir við frv. Varaformaðurinn talaði um að það væri full þörf á breytingum og var að reyna að miða þetta við milljónaþjóð eins og Frakkland, hvernig veiðar hefðu farið þar fram og hvernig ástandið væri þar. Ég held að slík viðmiðun sé afar varasöm, vægast sagt. En hann talaði um að það væru ýmis atriði sem orkuðu tvímælis og yrði að breyta og mörg atriði sem yrði að fella út þannig að það voru verulegar athugasemdir þar líka.
    Það má líka velta fyrir sér t.d. gæsaveiðitímabili og rjúpnatímabilinu, af hverju á það að vera í hendi ráðherrans núna allt í einu hvort það er heimilt að veiða yfir höfuð eða ekki? Þetta hefur verið í mjög góðu lagi til þessa. Við þurfum t.d. ekkert að vernda gæsina. Ef við förum að vernda hana of mikið þá erum við bara að gera það fyrir skotveiðimenn í Skotlandi sem bíða eftir því að hún komi héðan og skjóta hana alla niður þar. Þá held ég að það sé nær að við fáum að veiða hana hér.
    Ég get hins vegar tekið undir það með ráðherra að eftirlit þarf að vera með þessu á einhvern hátt og það er eðlilegt að hvetja menn til þess að skila inn veiðiskýrslum, þannig að hægt sé að fylgjast með veiði og fylgjast með veiðisvæðum og öðru slíku. Ég er alveg viss um það að veiðimenn almennt eru tilbúnir í slíka samvinnu. En ekki að setja upp eitthvert kvótakerfi hér og nánast orðið loka landinu fyrir Íslendingum. Maður spyr sig: Hvenær kemur kvóti á ánamaðka? Það hlýtur að fara að koma, það er alveg

útilokað annað. Mér finnst þetta alveg kostulegt. En ég er alveg viss um að veiðimenn væru tilbúnir til að halda veiðidagbækur.
    Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið að fulltrúi veiðimanna hafi ekki tekið þátt í starfi þeirrar nefndar sem undirbjó þetta frv. og tel að það hefði verið eðlilegt að þeirra sjónarmið hefðu fengið að koma þar fram. En því miður var það nú ekki. En þeir fá auðvitað að tjá sig í umhvn.
    Virðulegi forseti. Þó það sé hægt að fjalla um þetta mál mikið og í löngu máli þá ætla ég ekki að gera það nú. Ég ætla að treysta á að það komi verulega breytt út úr nefndinni, að öðrum kosti held ég að menn hljóti að þurfa að ræða málið alveg í botn.