Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:38:00 (4207)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur umræðan um þetta mál verið nokkuð sérkennileg. Ég skil það alveg út af fyrir sig þó einstakir stjórnarliðar hafi gert athugasemdir við einstök atriði frv. og ég get alveg tekið undir það að dýraveiðar eru kannski ekki stórpólitísk mál á við ýmis önnur sem hér eru á ferðinni. Hins vegar er einn punktur í þessu máli sem er mjög sérkennilegur, að formaður umhvn. þingsins gefur það fyllilega í skyn í ræðu sinni að hann muni setjast á málið í nefnd. Það er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt, og væri gott fyrir hv. þm. áður en lengra er haldið að vita hvort þeir eigi að leggja vinnu í málið ef það á að svæfa það í nefnd af flokksmanni hæstv. umhvrh. Ég vildi gjarnan að hv. 5. m. Austurl. tæki af skarið um það að hann ætli að vinna málið áfram.