Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:44:00 (4211)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir að hér er um stjfrv. að ræða og hefur það fengið allmikla umfjöllun og gagnrýni. En ég vil þó byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að láta sig þessi mál varða sem hér er um fjallað þó að e.t.v. vanti nokkuð á það að frv. sem er hér til umræðu sé nægilega vel unnið. Það er svo einkennilegt að í sama frv. er um það að ræða að þar eru miklar reglugerðarheimildir og eins er sá texti þar sem virkilega er tekið efnislega á málum og framkvæmdum en þar er einnig um mjög gallaðan texta að ræða og í mörgum tilfellum ákvæði sem eru nánast óframkvæmanleg eins og hér hefur þegar komið fram.
    Hæstv. ráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frv. að leitað hefði verið eftir sambærilegri löggjöf frá öðrum Norðurlöndum en ekki hefði verið hægt að byggja á þeirri löggjöf þar sem þar hefði ekki verið um rammalöggjöf að ræða. En það virðist vera lögð mikil áhersla á það að í þessu tilfelli, að íslenska löggjöfin eigi að verða rammalöggjöf. Og ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétta leiðin, ekki síst þegar það hefur verið upplýst að slík löggjöf sé ekki hjá okkar nágrannaþjóðum.
    Markmið frv. er í sjálfu sér gott og eðlilegt, þ.e. að viðurkenna tilverurétt villtra dýra og tryggja skipulag á veiðum og nýtingu dýra. En eins og hér hefur margkomið fram ber margs að gæta í þessum efnum og að sjálfsögðu erfitt að gera svo öllum líki. En það fer ekkert á milli mála að samkvæmt frv. fer umhvrh. með yfirumsjón með öllum málum er varða villt dýr. Þetta kemur fram í 3. gr. frv. Og hann hefur sér til ráðuneytis svokallaða dýranefnd, villidýranefnd, eins og hv. þm. Pálmi Jónsson vildi nú kalla hana. Búnaðarþing, sem nú situr að störfum eins og alþjóð veit, hefur fjallað um þetta frv. og gert við það nokkrar athugasemdir sem mig langar til að koma hér inn á. Í heildina tekið snýst búnaðarþing ekki gegn þessu máli en vill að sjálfsögðu gera á því einhverjar breytingar og hafa á því skoðanir. Búnaðarþingi þykir ekki eðlilegt hvernig þessi nefnd, dýranefnd, er saman sett og vill koma því á framfæri að það eru fimm rannsóknaraðilar sem tilnefna í nefdina á sviði náttúrufræða, en síðan eru skotveiðimenn með einn fulltrúa og Búnaðarfélag Íslands með einn fulltrúa. Með tilliti til þess að bændur eru nánast þeir einu í þessum hópi sem þarna eiga margþættra hagsmuna að gæta þykir búnaðarþingi eðlilegt að frekar sé tekið tillit til þess í sambandi við nefndarskipan en gert er í frv.
    Reyndar er best að taka það fram áður en lengra er haldið, hæstv. forseti, að hér er ekki um samþykktir frá búnaðarþingi að ræða heldur nefndarálit sem átti eftir að fara fyrir seinni umræðu.
    Við 4. gr. gerir nefndin athugasemdir við veiðistjóraembættið eða umfjöllun um það og finnst að það eigi að leika stærra hlutverk í framkvæmd fyrirhugaðra laga en eðlilegt getur talist. Á vegum þess eigi að stunda rannsóknir við hlið Náttúrufræðistofnunar, enda skuli veiðistjóri vera líffræðingur. Þeim aðilum sem fjölluðu um málið á búnaðarþingi fannst eins og það væri kannski ekki eðlilegt eða nauðsynlegt að þarna væri endilega um líffræðing að ræða og settu spurningarmerki við það þar sem miklu eðlilegra sé að Náttúrufræðistofnun sinni þeim rannsóknum sem óneitanlega þurfi að fara fram.
    Það er grundvallaratriði eða regla í þessu frv. að öll villt dýr skuli alfriðuð, að undanskildum rottum og músum, þ.e. sé ekki kveðið á um annað í reglugerð. En í lok 7. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Umhvrh. getur ákveðið að stefnt skuli að útrýmingu stofns eða tegundar sem flust hefur til Íslands af mannavöldum, enda telji dýranefnd það bæði æskilegt og gerlegt.``
    Hér gæti t.d. verið átt við minkinn sem er óneitanlega mikill skaðvaldur í íslenskri náttúru. Mér finnst, hæstv. forseti, að minkurinn eigi að vera réttdræpur hvar sem til hans næst og það þurfi engin veiðikort til þess að mega farga villimink í íslenskri náttúru. Eins vitum við að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni að minkar hafi komist í hænsnabú og gert þar æðimikinn skurk og það væri nú dálítið grátbroslegt ef bóndinn á bænum hefði ekki undir höndum veiðikort og mætti ekki drepa minkinn sem dræpi hænurnar hans. Þessari ábendingu vildi ég nú koma hér fram við 1. umr.
    Búnaðarþing fjallar einnig um 7. gr. og ef ég mætti, með leyfi forseta, lesa umfjöllun um þá grein frá umhverfisnefnd búnaðarþings, en hún er svohljóðandi:
    ,,Á því hefur borið í vaxandi mæli undanfarið að alfriðaðir fuglar valdi ærnu tjóni sem mönnum hefur þótt hart að þola bótalaust. Þar er einum átt við erni í æðarvarpi. Í öðrum löndum tíðkast að ríkið

taki ábyrgð á alfriðuðum dýrum og bæti tjón sem þau valda. Eðlilegra er talið að samfélagið beri það en einstaklingar. Eindregið er lagt til að í frv. verði ákvæði sem skilgreini ábyrgð og bótaskyldu ríkisins ef einstaklingar verða fyrir tjóni af völdum alfriðaðra dýra.``
    Ég ætla ekki að fara hér í hverja grein frv. því að þessu hefur verið gerð ágætlega skil hér af ýmsum þingmönnum. En 11. gr., þar sem fjallað er um svokölluðu veiðikort, er að mínu mati ein grundvallargreinin í frv. og þess vegna var það sem það kom mér mjög á óvart að heyra hv. formann umhvn. hafa svo miklar efasemdir um veiðikortin sem raun bar vitni. Ég er sammála þeim sem hafa sagt að hér sé kannski um of flókið kerfi að ræða í sambandi við veiðikortin og útgáfu þeirra en mér finnst að þetta sé samt hugmynd sem vert er að skoða mjög náið og ég vil á engan hátt mótmæla því að þessu kerfi verði komið á. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við þau próf sem einnig er fjallað um í 11. gr. hvernig hann hugsar sér að koma því kerfi á. Nú býst ég við að hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu sé þetta ekki svo mjög flókið en ef út í það verður farið að koma upp námskeiðum víðs vegar um landið, sem sé þá forsenda þess að viðkomandi fái slíkt veiðikort í hendur, þá verður af því nokkuð mikill kostnaður. En það væri forvitnilegt ef hæstv. ráðherra mundi tjá okkur í sínu máli hér á eftir hvernig hann hefur hugsað það kerfi.
    Í 12. gr. er fjallað um refi og ég skal viðurkenna það að mér fannst fyrsti málsliðurinn ,,Óheimilt er að eyðileggja greni``, dálítið sérkennilegur og þarna gæta ákveðinna verndunarsjónarmiða sem ganga kannski lengra en ástæða er til. Enda finnst mér að þessi málsliður sé í ákveðinni mótsögn við það sem síðar kemur fram í greininni.
    Um 16. gr. vil ég hafa nokkurt mál, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst koma fram mjög fróðlegar upplýsingar í umfjöllun búnaðarþings um málið og, með leyfi forseta, hljóðar það svo:
    ,,Í 16. gr. segir að umhvrh. geti aflétt friðun á tilteknum svæðum og árstímum samkvæmt tillögum sjútvrh. Sjútvrh. stjórnar nýtingu selastofna og hefur umsjón með þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum. --- Þetta verður að teljast einkennilegt ákvæði af fleiri en einni ástæðu. Og þá er það í fyrsta lagi: ,,Umhvrh. hefur umsjón með öllum málum er varða villt dýr``, segir í upphafi 3. gr. Og í 4. gr. stendur: ,,Veiðistjóraembættið hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra.```` Og svo í þriðja lagi, sem er alllöng lesning en fróðleg að mínu mati og þess vegna ætla ég að leyfa mér að lesa hana hér:
    ,,Selveiði hefur aldrei heyrt undir sjútvrh. Selalátrin tilheyra bújörðum og veiði í þeim hefur jafnan verið talin til hlunninda á viðkomandi jörðum og metin með öðru jarðargagni í fasteignamati. Einstaklingar hafa mátt skjóta sel utan friðlýstra svæða en aldrei hefur verið gert út á sel hér við land á borð við íshafsselveiðar sumra þjóða, enda engin aðstaða til þess við Ísland. Helst mætti þó nefna þar stórfellda selaslátrun sem greitt var fyrir á árabili í því skyni að fækka sel við landið. Þar var í mörgum tilfellum ýtt undir lagabrot einstaklinga og getur sá verknaður á engan hátt verið forsenda þess að selastofnarnir skuli eftirleiðis heyra undir sjútvrh. enda gengi slíkt þvert á ákvæðin tvö sem bent er á hér að framan.
    ,,Skotveiði skal ætíð bönnuð í látrum``, segir í frv. og er þar um sjálfsagt ákvæði að ræða í samræmi við eldri lög og hefðir. Jafnframt kynni að vera ástæða til að árétta að selalátrin tilheyra bújörðum eftirleiðis sem hingað til.
    Þá segir: ,,Öll skot eru bönnuð nær friðlýstum látrum en 2 km``. Samkvæmt gildandi lögum frá 1849 er bannað að skjóta sel nær selalátrum en svarar hálfri danskri mílu en það eru um 3,7 km. Æskilegt má teljast að miða áfram við svipaða friðhelgi selalátra. Ekki mætti þá skjóta sel innan hennar en umráðamönnum jarða væri heimilt að skjóta vargfugl til verndar æðarvarpi óháð því ákvæði en mjög víða eru selalátur og varplönd í nábýli.``
    Síðan koma hér heilmiklar upplýsingar um innanverðan Breiðafjörð og selalátur þar sem ég ætla ekki að tefja tímann með að lesa.
    Um 18. gr. er m.a. fjallað um það hvernig umhvrh. geti aflétt friðun hinna ýmsu fuglategunda og á hvaða árstíma það skuli gert. ,,Ástæða er til að ætla að heppilegra sé að ákvæði um friðun og ófriðun fuglategunda sé lögbundin fremur en að vera háð reglugerðum og að embættismenn geti hringlað með þau efni eftir geðþótta. Nauðsynlegt er að festa ríki um það hvað má og má ekki í þessum efnum þannig að menn hafi það á tilfinningunni. Þó er eðlilegt að yfirvöld geti gefið vissar undanþágur frá lögbundnum veiðitíma, t.d. í sambandi við ásókn gæsahópa í ræktarlönd á vorin. Margir telja að offjölgun hettumávs sé orðið vandamál víða og bitni illa á öðrum tegundum. Ástæða kynni að vera til að hafa hann ófriðaðan og jafnvel skúminn líka.``
    Þetta er mál sem hefur komið hér fram í umræðunni og minnist ég þess að hv. þm. Tómas Ingi Olrich nefndi einmitt þetta með hettumávinn.
    Ég vil í framhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðherra um álftina þar sem ekki er kveðið á um álft í þessari grein en það er ekkert launungarmál að hún veldur verulegu tjóni víða í túnum.
    Við 19. gr. er tillaga um að bæta inn, líklega í 5. mgr. sem hefst svo, með leyfi forseta:
    ,,Á takmörkuðum svæðum þar sem andavarp er mikið,`` komi til viðbótar: þar með talið æðarvarp, ,,skal veiðirétthafa heimilt að taka andaregg en við eggjatökuna skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri.`` Þarna vill búnaðarþing bæta inn í æðarvarpi.

    Það sem ég vildi segja að lokum, hæstv. forseti, er að spurningin sem vaknar nánast við hverja grein er þessi: Hvernig verður eftirliti háttað? Hér er verið að reyna að koma á mjög flóknum ákvæðum og nákvæmum um það hvernig mönnum beri að haga sér við veiðar, en geri þeir það ekki, fari þeir ekki að lögunum, hvað þá? Reyndar kom það fram í orðum hæstv. ráðherra áðan að ýmis þau ákvæði sem sett hefur verið út á hér eru nú þegar í lögum, en það veit bara enginn af því. Og það er kannski ástæða til þess að spyrja þá í framhaldi af þeim upplýsingum: Hvernig mun hæstv. ráðherra haga kynningu á samþykkt þessa frv., ef að lögum skyldi verða? Miðað við orð hv. formanns umhvn. á mánudaginn, fór ég að stórefast um að það væri ástæða til þess að eyða tíma í það að fjalla um frv. þar sem hann lýsti sig svo andvígan því í veigamiklum atriðum.