Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 15:17:00 (4214)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Um þetta mál hefur orðið allmikil umræða. Hún er að flestu leyti góð og gagnleg og hefur yfirleitt verið jákvæð. Ég vil leggja á það áherslu að hér er í fyrsta skipti verið að gera tilraun til þess að setja heildarlöggjöf um mjög mikilvægan þátt umhverfismála, um mjög mikilvægan þátt í lífríki landsins og það er verið að freista þess að ná utan um þetta með löggjöf þar sem tekið er á atriðum sem ekki hefur verið tekið á áður. En í ljósi breyttra tíma og breyttrar afstöðu flestra nútímamanna til umhverfismála og náttúruverndar er verið að taka hér tillit til nýrra sjónarmiða.
    Ég verð hins vegar að segja að það hefur komið mér svolítið á óvart, og sorglega á óvart að sumu leyti, að sumir þeirra sem talað hafa í þessari umræðu hafa kosið að vekja helst athygli á því sem eru kannski mest aukaatriði í málinu og jafnvel að skemmta sér við það sem ég leyfi mér að kalla hálfgerða aulafyndni sem er auðvitað ákaflega auðvelt í ýmsum tilvikum ef hv. þm. kjósa þá nálgun til málsins. Ég segi þetta ekki sérstaklega í tilefni orða síðasta hv. ræðumanns en m.a. geri ég það þess vegna. Raunar hafa ekki þingmenn einir fallið í þessa gryfju sumir hverjir heldur líka fjölmiðlar.
    Það er auðvitað eðlilegasti hlutur í heimi að um þetta mál séu skiptar skoðanir. Og þegar verið er að gera     því skóna að það sé eitthvað sérstakt að um stjfrv. af þessu tagi hafi stjórnarþingmenn ólíkar skoðanir, þá hefur það nú verið svo alla tíð um frumvörp af þessu tagi. Ég nefni deilur hér um friðun rjúpunnar t.d. Þar skiptust menn ekkert eftir flokkspólitískum línum og hv. þm., a.m.k. allir þeir þingflokkar og þingmenn sem einhvern tíma hafa átt aðild að ríkisstjórn, vita það auðvitað mætavel að þegar frumvörp af þessu tagi eru afgreidd í þingflokkum þá gerist það með fyrirvara einstakra þingmanna um afstöðu til einstakra mála. Það er auðvitað hið eðlilega. Það leiðir af eðli þessa máls að um það séu skiptar skoðanir og þar orki í rauninni margt tvímælis.
    Hins vegar, og ég endurtek það sem ég sagði hér í fáum orðum um þingsköp áðan, eru mörg þeirra ákvæða sem hér hafa verið gerð að umtalsefni þegar í gildandi lögum. Í framhjáhlaupi nefni ég tvennt, rétt Náttúrufræðistofnunar til eggjatöku sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson gerði að umtalsefni, það er óbreytt ákvæði frá gildandi lögum, og líka annað sem hann gerði að umtalsefni, þ.e. bann við því að skip þeyttu

flautur eða eimpípur í nágrenni við fuglabjörg. Þetta er engin breyting. Þetta er allt í þeim lögum sem eru lög landsins nú. Það getur vel verið að menn vilji breyta þessu og þá er það auðvitað sjálfsagt skoðunaratriði. Hér er ekki verið að brydda upp á nýjungum. En það er sagt að allt orki tvímælis þá gert er og það á auðvitað ekki síst við um mál af þessu tagi.
    Mjög margir þingmenn hafa sagt að hér væri verið að koma á fót gífurlegu miðstýringarkerfi. Stýring, stjórnun, miðstýring. Menn geta lagt ýmsan skilning í þau orð. En ef við ætlum að hafa stjórn á nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem land okkar býr yfir, hvort sem það er landið eða sjórinn, hvort sem það er fiskurinn í sjónum, fiskurinn í ám og vötnum, gróðurinn, landnýtingin, þá kallar það á stjórnun. Það verður ekki gert öðruvísi, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Menn geta kallað það miðstýringu ef þeir vilja en andstæðan við það er þá auðvitað stjórnleysi. Ég sé ekki hvernig við getum fram hjá því komist, ef við viljum hafa stjórn á þessum hlutum að þeir gerist með þessum hætti.
    Það hefur líka verið sagt og það hafa margir þingmenn nefnt, t.d. hv. þm. Pálmi Jónsson sem talaði hér fyrstur í þessari umræðu og hafði margt gott til mála að leggja, að ráðherra sé falið býsna mikið vald með þessum lögum til útgáfu reglugerða. Það er alveg rétt. Og auðvitað getur það verið umdeilt og menn geta haft á því margar skoðanir. En hér er um rammalöggjöf að ræða og ég held að það sé að mörgu leyti heppilegt og skynsamlegt að um mörg þau atriði, framkvæmdaatriði, sem hér koma til álita, séu settar reglur í reglugerð en ekki löggjöf vegna þess að það er handhægara að breyta reglugerðum með tilliti til breyttra aðstæðna.
    Ég mun, herra forseti, ekki nefna endilega nöfn allra þeirra þingmanna sem hafa gert hér athugasemdir vegna þess að margar athugasemdirnar eru þær sömu en mun reyna að svara því sem til mín hefur verið beint. Þetta eru tiltölulega fá og aðgreind atriði sem hv. þm. hafa gert athugasemdir við.
    Það var minnst á þann búnað sem talinn er upp í 9. gr. Þar er nokkuð langur listi yfir það sem óheimilt er að nota við veiðar. Með þessum lista erum við m.a. að taka tillit til fjölmargra alþjóðasáttmála á sviði dýraverndar, umhverfismála og náttúruverndar og banna tæki sem nær allar þjóðir eru búnar að banna nema við. Ég nefni eitt dæmi.
    Í sjónvarpi í haust var sýnt og sagt frá tækjum sem væru hér til sölu og seldust hundruðum saman, lítil segulbandstæki með fuglahljóðum sem menn nota við veiðar til að laða að fugla, líkja eftir öðrum fuglum. Þessi tæki er búið að banna um gjörvalla Evrópu nema kannski í einu landi, Möltu --- og Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að banna þessi tæki. Ég er nú reyndar ekki veiðimaður sjálfur og fer ekki með byssu af því að mér finnst það ekki geðfelld tómstundaiðja. Aðrir hafa á því aðrar skoðanir. Mér finnst þetta ekki heiðarleg veiðiaðferð en um það hafa aðrir menn aðrar skoðanir, það er mér fyllilega ljóst. Ég held að það sé af hinu góða, að telja þetta upp. Við erum í rauninni að semja okkur að háttum annarra þjóða en auðvitað geta hv. þm. haft aðrar skoðanir á því og að við eigum að hafa aðrar reglur en aðrar þjóðir. Ég er þessarar skoðunar.
    Það hefur verið spurt mikið um hvernig eftirliti verði háttað. Í 9. gr. er fjallað um að ekki megi nota haglabyssur við fuglaveiðar með stærri hlaupvídd en nr. 12. Nú viðurkenni ég það fúslega að ég er enginn sérfræðingur um skotvopn. Ég hygg hins vegar að það sé ekki algengt og sé yfirleitt ekki gert að nota stærri byssur og skotmenn geri það ekki vegna þess að í því er enginn hagur. Og hvernig eftirliti með þessu verður háttað? Það er nokkurt eftirlit með veiðum og veiðimönnum. Það annast lögreglan. Það þyrfti sjálfsagt að vera meira. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinni grundvallarbyltingu í þeim efnum. En ég er þeirrar skoðunar að það þyrfti að auka þetta eftirlit. Það eru brögð að því að menn virði ekki þær reglur sem settar eru, fari t.d. fyrr til veiða en leyfilegt er, og umhvrn. hefur að höfðu samráði við dómsmrn. beitt sér fyrir eftirliti til þess að koma í veg fyrir slík lögbrot. Því verður áreiðanlega haldið áfram, a.m.k. þann tíma sem ég gegni þessu starfi.
    Annað í sambandi við eftirlitið var varðandi veiðikort. Það er auðvitað ekki fullmótað eins og hér kemur fram hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Um það þarf að ráðgast. Þó að mönnum sé gert að vera með ökuskírteini til að aka bifreið, þá er ekki sífellt verið að krefja þá um að sýna skírteinið. Það er gert svona eftir því sem atvik gefa tilefni til. Mér þykir líklegt að framkvæmdin með veiðikort --- og mun ég nú víkja að þeim síðar --- verði með svipuðum hætti.
    Það er áreiðanlega rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson nefndi í sinni ræðu að það hafa orðið mjög miklar breytingar á fuglalífi víða á landinu, m.a. vegna tilkomu minksins. Það er rétt. Ég ætla ekki að segja svo sem margt um minkinn. Þingmenn hafa lýst þeirri skoðun hér að hann eigi að vera réttdræpur hvar sem er. Aðrir eru aftur þeirrar skoðunar að öll dýr eigi nokkurn rétt til lífs og ég hallast frekar að þeirri skoðun, en geri mér auðvitað grein fyrir því að á því geta menn haft allt aðrar skoðanir. Og ég virði það.
    Minkurinn var fluttur inn hingað og slapp út, og með þeim aðferðum sem nú eru þekktar verður honum ekki útrýmt. Það er einfaldlega ekki framkvæmanlegt með þeim aðferðum sem nú eru þekktar. Það getur vel verið að sú aðferð finnist síðar, væntanlega þá fyrir tilstilli vísindanna að það verði kleift og þá taka menn auðvitað ákvörðun um það þegar þar að kemur. Það getur vel verið að það sé beinlínis æskilegt að útrýma þessu dýri algjörlega úr íslenskri náttúru. Það er hinn mesti vágestur víða. En að gera það að umtalsefni hér hvort menn hafi rétt til að drepa mink sem veldur usla í hænsnahúsi eða þeir hafi ekið yfir, það er auðvitað utan við meginefni þessa máls.
    Varðandi breytingarnar á fuglalífi kemur náttúrlega margt annað til í því flókna samspili ólíkra

þátta. Ég hef t.d. ekki bara grun heldur vissu um það að hin mikla framræsla mýra á Íslandi, landþurrkun, hafi valdið mjög miklum breytingum á fuglalífi landsins. Það er ekki þar með sagt að við höfum ekki átt að þurrka land en kannski höfum við líka gengið heldur langt í þeim efnum, a.m.k. sums staðar.
    Af almennum athugasemdum hefur hér líka verið nefnt hvort nú ætti að skylda alla vana menn á skólabekk til að fá leyfi til að fá veiðikort. Það er ekki hugsunin á bak við þetta. Hins vegar held ég að veiðimenn hefðu margir hverjir og flestir sjálfsagt gott af því að sitja námskeið eins og eina kvöldstund og hugleiða svolítið það vald sem þeim er í hendur fengið þegar þeir fara með byssu um náttúru landsins. Það er ekki verið að tala um neina langa eða mikla skólagöngu. Ég get nefnt það varðandi hreindýraveiðar og reglugerð sem nýlega hefur verið gefin út um það efni að þar er gert ráð fyrir því að eftirlitsmenn, sem fylgjast jafnan með veiðunum, sæki námskeið. Og um það hefur verið rætt í hópi þeirra sem að þessum málum koma að auðvitað eru fjölmargir menn sem hafa sinnt þeim störfum og sinnt hreindýraveiðum sem gjörþekkja þetta og það er enginn að tala um að þeir verði skyldaðir til einhverrar skólagöngu. En aðrir sem koma nýir að málinu þyrftu kannski eitthvað meiri fræðslu.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson spurði sérstaklega um sjálfvirkar byssur sem væru notaðar við fuglaveiðar og veiðar. Það er rétt að því mér er tjáð að fyrir einhverjum árum var gerð sú breyting að þá voru leyfðar svokallaðar hálfsjálfvirkar byssur sem geta geymt þrjú skot í sér. Það er raunar dómsmrn. að svara fyrir þau mál að því er varðar skotvopn og byssuleyfi. En það mun hafa verið gert með tilliti til þeirra skotmanna sem þjálfa sig í hittni með því að skjóta niður leirplötur sem kallaðar eru leirdúfur eftir beinni þýðingu á ensku heiti þeirra hluta. Það mun hafa verið gert með tilliti til þeirra og samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér í dómsmrh. er ekki talið að þetta hafi valdið neinum verulegum breytingum eða verið svo mjög af hinu illa varðandi veiðar eða hafi verið misnotað. Hins vegar hygg ég að það sé rétt að eftirlit með þessum málum mætti vera meira og mætti vera betra. Við höfum að mér er sagt sömu reglur að banna fjölskota sjálfvirkar haglabyssur og eru hjá öðrum þjóðum.
    Nær allir sem hafa tekið til máls í þessum umræðum hafa talað um hin svonefndu veiðikort og gætir þar nokkurs misskilnings um sumt. Hv. þm. Árni Johnsen, sem er reyndar ekki hér í salnum nú, tók þannig til orða að menn væru ekki að fara upp á fjöll til að stunda skýrslugerð. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson kvaðst vilja neita því sem Íslendingur að mega ekki fara og taka það sem hann vildi á veiðum þegar hann vildi. Ég skrifaði niður eftir hv. þm.: ,,Ég vil neita því að sem Íslendingur geti maður ekki lengur orðið labbað hér um fjöll og firnindi og náð sér í eina rjúpu.`` Ég held að við verðum að reyna að temja okkur svolítið annan hugsunarhátt í þessum efnum. Lögmál hins óhefta veiðimannaþjóðfélags geta ekki gilt lengur. Ég held að um þetta verðum við að hafa reglur.
    Grænlendingar, sú mikla veiðiþjóð, telja nú óhjákvæmilegt annað en að setja um þetta reglur og gefa út veiðikort. Þetta er gert hjá flestum þjóðum. Og ég sé ekki hvað veiðimenn geta haft á móti því að skrá það sem þeir veiða. Menn sem hafa ekkert að fela geta ekki haft neitt á móti því. Ég sé heldur ekkert á móti því að veiðimenn sem taka sér og sínum til matar eða til að selja úr stofnum í náttúru Íslands greiði fyrir það eitthvert gjald. Við vitum ekkert hvað eru veiddar margar rjúpur hér á hverju ári. Við höfum ekki hugmynd um það. Ég held að það sé til bóta fyrir íslensk náttúruvísindi að vita eitthvað um það. Og ég held að þegar menn hugleiða þetta svolítið betur með veiðikortin þá muni flestir komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé í rauninni mjög eðlilegt mál. Alveg eins og mönnum finnst eðlilegt að fara til laxveiða og borga fyrir það einhverjum ,,eiganda`` veiðiréttar tugi þúsunda fyrir dagsstund og skrá samviskusamlega allt það sem þeir veiða. Á þessu er nákvæmlega enginn munur annar en sá að þeir dýrastofnar sem hér er um að ræða eru ekki í eigu neins sérstaks aðila.
    Varðandi þau ummæli sem hv. þm. Hrafnkell Jónsson viðhafði --- og þá kem ég að þessum rétti með veiðarnar --- að það væri verið að upphefja einhvern eignarrétt ef bændur mættu ekki skjóta hreindýr á eigin landi. Bændur hafa ekki þann rétt og hafa ekki haft hann vegna þess að hreindýr hafa verið friðuð og um veiðar þeirra hafa gilt sérstakar reglur þannig að það er ekki verið að taka eitt eða neitt af einum eða neinum. Um hreindýraveiðarnar vil ég hins vegar segja það, vegna þess að að þeim er vikið í þessu frv., að ég tel að um þau mál hafi tekist mjög bærilegt samkomulag einmitt við aðila á þeim svæðum þar sem hreindýrin halda sig. Ég hef lagt mig fram um að ná samkomulagi og sátt um það mál og ég held að það hafi sem betur fer tekist.
    Annað sem hv. þm. hafa margir hverjir gagnrýnt --- og það gerði formaður umhvn., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson --- er að hér væri mikið sérfræðingaveldi. Það er rétt, það komu margir sérfræðingar að samningu þessa frv. Ég veit ekki til hvers við erum að mennta sérfræðinga í löngu námi í hinum ýmsu greinum ef við nýtum okkur ekki þekkingu þeirra og vitneskju. Það kemur líka fram hér í athugasemdum við frv. að drögin voru send Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Náttúruverndarráði, fuglafriðunarnefnd, dýraverndarnefnd og Skotveiðifélagi Íslands. Það hafa mjög margir aðilar komið að þessu máli. Og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerði hér grein fyrir skoðunum búnaðarþings á málinu sem voru satt að segja miklu jákvæðari en skoðanir sumra þingmanna og ég fagna því. Raunar áttaði ég mig ekki alltaf á því hvenær hún var að greina frá eigin skoðunum og hvenær skoðunum búnaðarþings. En kannski hafa þær farið saman að töluverðu leyti og ekki mikið meira um það að segja.
    Varðandi það gjald sem greitt yrði fyrir hugsanleg veiðikort --- ég bið nú þingmenn velvirðingar á því að ég fer kannski svolítið úr einu í annað að --- þá held ég að sú gjaldtaka sem þar kæmi til mundi

engum manni ríða að fullu og yrði sjálfsagt tiltölulega mjög lágt gjald.
    Hv. þm. Árni Johnsen er ekki hér í salnum sem stendur en vegna spurningar hans, og hefði ég nú kannski átt að nefna það fyrr, þá er rétt að taka fram varðandi nýtingu hlunninda eins og lundaveiði er, lundaveiði í háf og svartfuglsveiði, þá er ekki ætlunin og var ekki ætlunin með þessu frv. að gera þar breytingar. Hins vegar hefur komið í ljós þegar málið var skoðað einmitt eftir þær ábendingar sem fram komu hér í umræðunni að í 19. gr. frv. --- og það vil ég biðja hv. umhvn. að taka sérstaklega til athugunar --- hefur fallið niður eitt orð, kannski hefur það gerst í prófarkalestri, ég skal raunar ekkert um það segja en það hefur fallið niður orðið veiði. 4. mgr. 19. gr. á að hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,Á takmörkuðum svæðum þar sem kópaveiði, veiði [það er orðið sem vantar], eggja- eða ungataka súlu,`` o.s.frv. --- þannig að þá eru tekin af öll tvímæli um að nýting þessara hlunninga er auðvitað fullheimil eftir sem áður, verði þetta frv. að lögum. Það var ekki ætlunin að breyta þar neinu þó að fyrir mistök í prentverkinu eða útgáfunni hafi þetta orð fallið niður og ekki uppgötvast fyrr en á það var bent í þessari umræðu.
    Varðandi það sem hér var líka nefnt, og það nefndi m.a. hv. þm. Tómas Ingi Olrich, sem gerði sérstaklega að umtalsefni hver áhrif stjórnleysi í veiðum hefði haft í Frakklandi og þóttu mér það mjög athyglisverð ummæli vegna þess að ég veit að hann þekkir þau mál gjörla og sjálfsagt betur en við flest hér. Það var ekki góð niðurstaða sem það stjórnleysi hafði leitt til og kysu ýmsir Frakkar kannski að þar hefði miðstýringin komið eitthvað fyrr til sögunnar. En hann nefndi það sá hv. þm. að ekki væri ástæða til að banna sölu á eggjum ýmissa fuglategunda sem hér eru tilteknar í frv. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú að hér er a.m.k. í flestum tilvikum um að ræða fuglategundir sem eru sjaldgæfar og fjölmörg lönd hafa bannað allan innflutning á eggjum þessara fugla í samræmi við þær alþjóðareglur sem gilda um verslun með sjaldgæf dýr eða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Þess vegna held ég að það sé rétt að við bönnum sölu á slíkum eggjum sem flest lönd í kringum okkur banna að inn séu flutt. Mér finnst það a.m.k. ekki óeðlilegt.
    Það var spurt sérstaklega um örninn, íslenska haförninn sem hefur verið í útrýmingarhættu en er að rétta við vegna þrautseigrar baráttu ýmissa einstaklinga og samtaka þeirra. Víst er örninn vágestur í varpi, um það er ekki deilt, og það kann vel að vera að rétt sé að setja í lög af þessu tagi einhver ákvæði um bótaskyldu hins opinbera þegar um slíkt er að ræða. Það finnst mér vel koma til álita. Hitt held ég að ég fari rétt með að ríkið hefur greitt bætur vegna tjóns sem ernir hafa valdið í æðarvarpi, einmitt á þessari forsendu. Ég veit að eitt slíkt mál er nú einmitt á döfinni og ég held að þetta sé í rauninni sanngjarnt og eðlilegt.
    Það hefur verið rætt hér um álftina og hversu henni hefur fjölgað og hvernig hún getur verið skaðvaldur. Ég held að það sé eitt af því sem nefndin eigi að taka til álita, hvort álftin eigi lengur að vera alfriðuð. Henni hefur fjölgað mjög. Mér finnst að það hljóti að vera eitt af því sem nefndin tekur mjög til athugunar.
    Það var spurt hér sérstaklega um grenin. Ég taldi mig raunar hafa gert nokkra grein fyrir því í framsögu hvers vegna það ákvæði væri í frv. að ekki mætti eyðileggja greni. Vegna þess að sum þeirra hafa verið notuð af refastofninum í aldir, árþúsundir, segja sumir. Og þeir sem gerst til þekkja telja að það sé raunar óæskilegt að gera þetta. En talandi um ref og mink þá var vikið hér að ákvæðum um greiðslu ríkissjóðs á þeim hluta, annars vegar það sem segir í þessu frv. og hins vegar það sem segir í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Þá held ég að því sé einfaldlega til að svara að það er gert ráð fyrir því að þetta frv. taki gildi á árinu 1. jan. 1993. Hin lögin gilda eingöngu fyrir árið 1992. Og ég hygg að það kunni að skýra það misræmi sem þarna hefur verið á bent. Raunar er það svo að um það ríkir ekki ágreiningur að það hefur þurft að koma betra skipulagi á þessar veiðar og framkvæma þær kannski af meiri skynsemi heldur en gert hefur verið til þessa.
    Samsetning svokallaðrar dýranefndar var líka gerð að umtalsefni. Auðvitað er það álitamál og hlýtur að koma til umfjöllunar í nefndinni. Nafnið á nefndinni var líka gert hér að umtalsefni, sagt að hún ætti fremur að heita dýrafriðunarnefnd heldur en dýranefnd. Það væri ekki réttnefni vegna þess að hún fjallar um miklu fleira. Það þarf ekki annað en að lesa sér svolítið til í frv. til að sjá það, en ég get alveg á það fallist að orðið dýranefnd er ekkert sérstaklega ákjósanlegt og ef menn hafa betri tillögur um nafn á nefndinni þá er það a.m.k. ekki af hálfu þess sem þetta mælir atriði sem skiptir miklu máli.
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt hef ég ekki svarað öllu því sem hér hefur verið um spurt. Þann þátt umræðunnar sem snúist hefur um bjarndýrin ætla ég eiginlega að mestu að leiða hjá mér og sé ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það. Menn hafa hent gaman að orðalagi þar og það er ódýrt gaman og einhverjum sjálfsagt til mikillar skemmtunar, en ég hygg að efnislega sé ekki mikill ágreiningur um það mál.
    En að því er varðar sel, þá hefur það lengi verið nokkurt ágreiningsmál í stjórnkerfinu hvar þau mál ætti að vista. Um það mál var ágreiningur og hefur verið milli landbrn. og sjútvrn. Niðurstaðan í umræðum núna varð sú sem þetta frv. ber með sér, þ.e. að sjútvrh. hafi stjórn á nýtingu selastofnanna. Mér er það alveg ljóst að þetta er eitt af þeim mörgu málum sem eru álitaefni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki mál sem komi landbúnaði við og eigi þess vegna best heima í sjútvrn. Þó, eins og segir í 16. gr. frv., að umhvrh. geti í reglugerð aflétt friðun, hið formlega vald er hjá umhvrh., þá stjórnar sjútvrh. engu að síður nýtingu selastofnanna. Þetta er mál sem oftlega hefur komið til umræðu hér á Alþingi og mönnum sýnst mjög sitt hvað um.
    Hver verður kostnaður við framkvæmd þessa frv.? Hann verður ekkert verulegur eins og kemur raunar fram í mati fjmrn. vegna þess að ekki er gert ráð fyrir því að hér verði tekið upp einhvers konar lögregluríki að því er þessi mál varðar, alls ekki. En ég ítreka það hins vegar sem ég sagði áðan að ég held að það sé mjög brýnt að auka eftirlit á ýmsum sviðum og gæta þess að menn fari að settum reglum.
    Eitt enn kannski varðandi veiðikortin. Menn hafa mjög spurt um hvar þau eigi að gilda, hvernig þau eigi að gilda og hvort þetta sé einhver kvóti. Slíkt var auðvitað alls ekki hugsunin, en bara til að nefna eitt mjög einfalt dæmi, þá mætti hugsa sér að í veiðikorti hefði sá einstaklingur sem það fengi leyfi til rjúpnaveiða. Punktur. Hann hefði hins vegar ekki leyfi til að stunda refa- eða minkaveiðar nema kannski á einhverjum takmörkuðum svæðum.
    Hér eru, eins og ég áður sagði, vissulega mörg atriði sem eru álitamál. En ég held þó að grundvallaratriðið sé að við þurfum að hafa betri stjórn á þessum málum og við þurfum að nálgast þau með svolítið breyttu hugarfari. Margar af þeim ábendingum sem hafa komið fram í þessari umræðu eru mjög gagnlegar. Mér þykir að vísu miður að formaður hv. umhvn. skuli ekki hafa getað verið viðstaddur umræðuna. Margar af þeim ábendingum sem hér hafa komið fram eru réttmætar og gagnlegar og nefndin hlýtur að taka þær til athugunar. En að lokum, virðulegi forseti, held ég að í heildina litið þurfum við í þessari umræðu að nálgast þessi mál með kannski svolítið öðru hugarfari en við höfum gert til þessa. Ég heyri það t.d. í umfjöllun búnaðarþings að þar er skilningur á því og hjá mörgum þingmönnum er ríkur skilningur á því og ég vona að eftir því sem umræðan gengur fram eigi sá skilningur eftir að vaxa og ná til fleiri þingmanna.