Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 10:33:00 (4219)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil biðja um að svarinu verði dreift eins og gert var síðast þegar um svar af þessu tagi var að ræða. Þótt ekki sé beðið um skriflegt svar er eðlilegt að því sé dreift þar sem um er að ræða mikið talnaflóð og erfitt að átta sig á því nema menn hafi tölurnar fyrir framan sig.
    Vegna orða hv. þm. þar sem hann sagði að ráðherra hefði kosið að haga svari sínu með tilteknum hætti, vil ég einungis geta þess að fsp. eins og þessi eru send ákveðnum starfsmanni ráðuneytisins, það veit hv. þm. auðvitað, sem tekur saman svarið með tilliti til þess hver fyrirspurnin er á hverjum tíma. Hér er um beinharðar staðreyndir að ræða og það er heilmikil vinna sem felst í því að skilja í sundur þessar stærðir og sú vinna er auðvitað ekki unnin nema um það sé beðið sérstaklega. Nú liggur svar við spurningu hv. þm. fyrir.
    Virðulegi forseti. Ef ég má vitna til þessa blaðs sem er dags. 9. mars 1992, kemur fram á fyrstu síðu þess hver skipting auglýsingakostnaðar er sem hefur farið í gegnum auglýsingastofuna Hvíta húsið til fjölmiðlanna 1990. Annars vegar er um auglýsingar fyrir fjmrn. sjálft að ræða, eins og gert var grein fyrir í svari við fsp. 212. Hins vegar er um auglýsingar fyrir ríkisskattstjóra að ræða en hann heyrir eins og allir vita undir fjmrn. Hér kemur fram hvernig skiptingin er á Morgunblaðið og Dagblaðið/Vísi og fleiri blöð. Til þess að greina frá niðurstöðutölum þá er auglýsingakostnaðurinn í Morgunblaðinu 1.460 þús., í DV 1.026 þús., Þjóðviljanum 453 þús., Tímanum 438 þús., Alþýðublaðinu 180 þús., Pressunni 417 þús. og í Degi 430 þús. Sjónvarp skiptist þannig að Ríkissjónvarpið fær tæp 1.800 þús., Stöð 2 466 þús. Til landsmálablaða ganga 1.100 þús. kr. en sú skipting held ég að hafi að meginstofni til verið birt áður.
    Síðan kemur með sama hætti listi frá ríkisskattstjóra og menn geta lesið þar að Morgunblaðið hefur 4,4 millj., DV 3,1 millj., Þjóðviljinn 2,1 millj., Tíminn 2,1 millj., Alþýðublaðið 1,1 millj., Pressan 1.250 þús. og Dagur 2,1 millj. Ríkissjónvarpið hefur 1.100 þús., Stöð 2 670 þús. og útvarpsstöðvar minna, þó Rás 1 og Rás 2 sýnu hæst.
    Tímans vegna á ég erfitt með að fara yfir allar þessar tölur. En á bls. 2 í b-lið er þessi sama skipting frá 1. jan. til 15. maí 1991 og niðurstöðutölur birtar með sama hætti. Ég sé ekki að tilefni sé til að ræða þær sérstaklega. Þetta virðist breytast aðeins á fyrri hluta ársins. Á bls. 3 er gerð grein fyrir greiðslu til Hvíta hússins vegna hönnunarvinnu og aðkeyptrar þjónustu. Þar er þessum upphæðum skipt niður annars vegar á mismunandi verkefni og hins vegar á tímabilinu 1990 annars vegar og fyrstu fjóra mánuði ársins hins vegar. Á bls. 3 er fjmrn. og á bls. 4 er ríkisskattstjóri. Til samanburðar hef ég á næstu blaðsíðu þar á eftir sýnt hvernig síðustu átta mánuðirnir líta út. Það hlýtur að vekja athygli hve miklu, miklu lægri upphæð kemur á síðari átta mánuðina heldur en á fyrstu fjórum. Og loks, þar sem nokkuð hafði verið rætt um menntmrn., þá hefur það sama verið gert fyrir árið 1991 sem snertir það.
    Virðulegi forseti. Ég veit að tíma mínum er lokið en því miður get ég ekki gert frekari grein fyrir þessu svari. Ég vona að skriflega svarið, sem hefur verið dreift á borð þingmanna, komi að fullkomnu gagni.