Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 10:48:00 (4224)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar ég kom í þennan sal ætlaði ég ekki að blanda mér í þá umræðu sem farið hefur fram nú í tvígang um auglýsingakostnað fjmrn. En þegar ég hlustaði á umræðuna, ekki bara núna heldur líka síðast, finnst mér ekki annað hægt en vekja athygli manna á því um hvað hún snýst bæði núna og við fyrri umræðu. Umræðan snýst ekki um það hvort of miklu hafi verið varið í auglýsingar, hvort of mikið hafi verið auglýst, hvort upphæðunum hafi verið vel varið og í samræmi við auglýsingagildi hvers miðils, hvort það hafi verið rétt metið. Hér snýst umræðan um það hvort Morgunblaðið hafi fengið nóg í sinn hlut, hvort Alþýðublaðið hafi fengið nóg í sinn hlut og hvort Þjóðviljinn hafi fengið of mikið í sinn hlut. Í þessu sambandi hefur auglýsingagildið í sjálfu sér ekki verið nefnt. Það hugsar hver um sitt, sjálfstæðismenn um Morgunblaðið, kratarnir um Alþýðublaðið og svo ver fyrrv. fjmrh. fjárveitingar til Þjóðviljans. Mér finnst ekki þurfa frekari vitna við, virðulegi forseti, um tengsl flokka og blaða.