Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:00:00 (4230)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það er stundum þannig þegar komið er við kaunin á einstökum mönnum að þá reyna þeir að búa til reykbombur og sum dýr í dýraríkinu eru reyndar þannig að þau geta sent frá sér blek

eins og t.d. smokkfiskurinn. Síðasta ræða minnti mig dálítið á aðfarir þeirrar skepnu. ( Gripið fram í: Kolkrabbinn.) Já, þegar hann spýtir svörtu úr hvítu, kolkrabbinn, smokkfiskurinn. Ræða síðasta ræðumanns minnti mig dálítið á aðfarir þeirrar ágætu skepnu sem reyndar er hin göfugasta skepna og hefur hún bjargað Íslendingum um langar aldir, sérstaklega sem beita.
    En vegna orða hv. þm. vil ég segja þetta: Hv. þm. útbjó fjárlög fyrir sl. ár og hann gekk þannig frá þeim fjárlögum --- og ég held að það sé gott að leggja áherslu á það --- að ákveðnum peningum átti að verja til auglýsinga. Ákveðnum peningum átti að verja til þess að sérstakar sveitir fylgdu eftir ákveðnum aðgerðum sem Alþingi hafði samþykkt um sjóðvélar o.fl. Hv. þm. eyddi öllum þessum peningum. Hann eyddi öllum auglýsingapeningunum á fyrstu mánuðum ársins. Til viðbótar þessu gekk hann þannig frá fjárlagafrv. að mennirnir voru ráðnir tímabundið. Þetta er kjarni málsins og þetta viðurkenndi hv. þm. en hann reyndi samt sem áður að koma sökinni á aðra.
    Við munum ræða um virðisaukaskattinn síðar í dag og ég er auðvitað tilbúinn til að ræða hann hvenær sem er. Auðvitað veit hv. þm. að á síðustu mánuðum ársins var um talsverðan samdrátt að ræða í innflutningi en það er einmitt innflutningurinn sem skapar verulegan tekjustofn fyrir virðisaukaskattinn. Við getum auðvitað rætt það mál og það mál er til rannsóknar hvernig á því stendur að ekki náðust á öllu sl. ári þær tekjur sem áttu að nást inn af virðisaukaskattinum. Hv. þm. veit að það felst m.a. því að fólk hefur verið að læra á virðisaukaskattinn og m.a. með því hvað telst til innskattsins og hvað til útskattsins. Það mál sem er hér til umræðu snýst ekkert um það. Það snýst um auglýsingar, til hvers þær væru notaðar, í hvaða magni og hverjum væri greitt og hvort væri siðlegt að á sama tíma og tugir milljóna færu til ákveðinnar auglýsingastofu, þá ætti Alþb. sem þá átti formann sinn í fjmrn. að nota sömu auglýsingastofuna til þess að auglýsa og afla fylgis fyrir Alþb. Allar reykbombur, allar tilraunir til að ræða önnur mál en þetta, eru aðeins tilraun hv. þm. til þess að fela það sem aflaga fór í tíð hans og það sem verra er, því miður, stundum að reyna að koma sök á aðra menn og það er ekki stórmannlegt.