Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:06:00 (4235)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að nokkuð sé rætt um það hvernig skuli svara skuli fyrirspurnum samkvæmt lögum um þingsköp og auðvitað einnig hvernig eigi að biðja um svör því að í sumum tilvikum er útilokað að ráðherrar geti svarað fyrirspurnum á þeim stutta tíma sem þeir hafa ef fyrirspurnirnar krefjast langra svara. Ég skil vel að menn hafi mikinn áhuga á því að tryggilega verði gengið frá að allar þær upplýsingar sem hafa komið fram á ónúmeruðum og óþinglegum skjölum, sem hefur verið dreift meðal þingmanna bæði hvað varðar þessa fsp. sem nú var til umræðu og eins fsp. sem var til umræðu fyrir skömmu síðan um sama málefni. Af því tilefni mun ég með tilvísun til 45. gr. þingskapalaga leggja fram skýrslu á Alþingi um þetta mál og þar munu koma fram þær upplýsingar sem koma fram á þessum skjölum og þannig munu þau skjöl prentast með þingtíðindum í skjalasafni þess og ætti þá að vera fullnægt óskum þeirra sem hafa fjallað um þetta mál.