Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:15:00 (4241)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Hér hafa spunnist merkilegar og fjörlegar umræður um skattsvik og er það að sönnu við hæfi að í þeim hefur hin merka dýrategund, kolkrabbinn, nokkuð verið nefnd. Upplýsingar, sem nú liggja fyrir, benda til þess að skattsvik séu að aukast og er það mikið áhyggjuefni.
    Í dag hafa tölur úr nýrri skýrslu fjmrn. um ríkisfjármálin 1992 komið til umræðu og benda þær til þess að virðisaukaskattur hafi verið um það bil 3--4 milljörðum minni en búast hefði mátt við með tilliti til neyslu. Þannig jókst neyslan á síðasta ári um 6% en virðisaukaskattur minnkaði um 4%. Ég hygg að það sé alveg rétt sem kom fram í máli fjmrh. að hægt er að færa ýmsar skýringar fyrir því. Það er líka alveg ljóst eins og raunar er bent á í þessari skýrslu að innheimtan sjálf á virðisaukaskatti virðist hafa verið lakari en áætlað var. Þetta er áhyggjuefni og vekur upp vissar spurningar og athugasemdir.
    Í þessu tilviki er líka rétt að benda á að í tíð sinni sem fjmrh. skipaði Albert Guðmundsson nefnd undir forustu Þrastar Ólafssonar til þess að rannsaka skattsvik. Þessi nefnd skilaði áliti í apríl 1986 og niðurstöður hennar voru m.a. þær að hið opinbera væri árlega að tapa um 2,5--3 milljörðum í skattsvik. Þessar niðurstöður og þær ábendingar sem nefndin kom með vöktu mikla athygli og nefndin kom með fjölmörg ráð um það hvernig freista mætti þess að uppræta skattsvik. Á þessum tímamótum þykir mér því rétt, sérstaklega með tilliti til þeirra upplýsinga sem komu fram í skýrslu fjmrh. um ríkisfjármálin 1992, að spyrja hæstv. fjmrh. til hvaða ráðstafana hann hyggist grípa til þess að stemma stigu við auknum skattsvikum.